25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

3. mál, læknaskipunarlög

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Þó að ég hafi kvatt mér hljóðs hér, ætla ég ekki að fara að rjúfa þá samstöðu, sem hér hefur náðst í þinginu um þetta mál. En mér finnst þó, að ég megi helzt ekki láta hjá líða að leggja hér nokkur orð í belg og gera grein fyrir, hvernig þetta mál horfir við frá mínum bæjardyrum.

Eins og rakið hefur verið, var þetta mál afgreitt frá n. fyrir jól, en þá kom fram nokkur ágreiningur, og þá beitti hæstv. heilbrmrh. sér fyrir því, að málinu yrði frestað, til þess að reynt yrði að ná samstöðu um það, sem vitanlega er mjög æskilegur hlutur um svona mál. Þetta hefur nú tekizt, og ég ætla strax að segja það, að ég ætla ekki að fara að rjúfa þessa samstöðu. En hins vegar vildi ég láta það í ljós sem mína skoðun í stuttu máli, að ég hefði talið málið betur farið eins og það var lagt fyrir í upphafi heldur en eins og það er orðið nú. Ég efast ekki um, að fyrir hv. 1. þm. Vestf. hafi vakað gott eitt með hans till., en eiginlega verkar það á mig eins og sagt var forðum, að ja, það góða, sem hann vildi, hafi hann ekki gert, eða eitthvað á þá leið. Ég held, að það sé ekki ágreiningur um það, að þetta mál hafi fyrst og fremst verið hugsað til þess að reyna að leysa úr þeim bráðasta vanda, sem skapazt hefur í læknamálum strjálbýlisins, og eftir því, sem ég hef kynnt mér þetta betur, finnst mér, að sá tilgangur mundi nást betur með frv. eins og það var í upphafi. Núna hefur þetta verið fært út þannig, að það er í öllum læknishéruðum hægt að setja á stofn þessar miðstöðvar, og ég get ekki varizt því, að ég tel nokkra hættu á því, að það verði a.m.k. meiri erfiðleikum bundið, ef veruleg ásókn verður eftir því að fá fjármagn í þetta, að geta staðið á því, að þeir staðir geti gengið fyrir, þar sem þörfin er mest og læknamálin erfiðust. En einmitt það atriði tel ég, að hafi verið svo vel tryggt sem nokkur kostur var, einmitt eins og málið var lagt fyrir í upphafi.

Ég vil aðeins segja það, að ég vona þó, að þetta frv., líka í því formi, sem það er nú orðið, megi verða til þess að bæta verulega úr þessum læknisþjónustumálum, og þá fyrst og fremst eins og ætlað var, þar sem erfiðast hefur verið að veita viðunandi læknisþjónustu í strjálbýlinu. Þess vegna ætla ég ekki að gera neinn ágreining og raunar alls ekki koma með brtt. eða reyna á nokkurn hátt að tefja fyrir þessu máli, en ég taldi þó rétt að láta koma fram, hvernig þetta horfir við frá mínum sjónarhóli.