25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

3. mál, læknaskipunarlög

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Það, sem verður að leggja aðaláherzlu á í sambandi við það frv., sem hér er til umr., er, að ekki verði dregið úr læknis- og heilbrigðisþjónustu í dreifbýlinu, að ekki verði á neinn hátt slegið af kröfum um hana, heldur verði hún bætt eftir föngum. Læknamiðstöðvar verða vonandi einn liðurinn í þessu, og við þær eru vissulega miklar vonir bundnar, en enginn ætti þó að láta sér detta í hug, að þær leysi allan vandann. Hefur það nú komið hér fram, að menn trúa því ekki. Þær eru enn óreyndar. Það er líka augljóst, að þeim verður alls ekki komið við, svo að þær veiti viðunandi þjónustu á öllu landinu eða öllum héruðum. Það þarf ekki nema að taka sem dæmi svæðið frá Vopnafirði og vestur að Reykjaheiði á austanverðu Norðurlandi og Austurlandi. Þarna er ekki hægt að sjá, að verði á viðunandi hátt hægt að koma upp læknamiðstöðvum. Það er mjög mikilvægt, að reynsla fáist af þessum stöðvum og þær verði reyndar, áður en heimilt er að leggja niður læknishéruð. Það er mikilvægt, að þetta verði ekki túlkað þannig, að hægt verði að stofna læknamiðstöðvar á pappírnum og þannig kannske fækka þeim héruðum, sem eru sögð laus hverju sinni. Það er engin lausn þó að þurfi að auglýsa færri héruð. Í öðru lagi vildi ég benda á, að það er alls ekki nauðsynlegt í öllum tilfellum að leggja niður héruð, þó að læknamiðstöðvar séu stofnaðar. Ég leyfi mér að benda hér á dæmi frá Húsavík. Í Húsavíkurhéraði hafa að undanförnu starfað tveir læknar og nú þrír síðustu mánuðina, og þar hefur í reynd verið starfrækt læknamiðstöð, vegna þess að tveir ungir læknar, sem þar störfuðu, annar ráðinn sem héraðslæknir og hinn við sjúkrahúsið, störfuðu saman. Og þetta mun kannske vera sú reynsla, sem helzt er fyrir hendi af læknamiðstöðvum. En í sama héraði, þ.e. Suður-Þingeyjarsýslu, er Breiðumýrarlæknishérað og þar starfar fjórði læknirinn. Nú verður Breiðumýrarhérað laust í vor og er óvíst um það, hvort nýr læknir sæki. Þó er það ekki talið vonlaust og mun vera unnið að því nú að fá lækni í þetta hérað. Á Húsavík og í Húsavíkurhéraði virðist vera nægur mannfjöldi til þess, að þar geti starfað þrír læknar, og það virðist vera nægilegur læknafjöldi til að þeir geti starfrækt miðstöð. Þarna er ekki nauðsynlegt að leggja niður Breiðumýrarhérað og það er vitað, að fólkið, sem í því héraði býr, verður mjög á móti því. Þarna er skólahverfi að Laugum í Reykjadal, þarna eru fjölbyggðar sveitir eins og Mývatnssveit og Reykjadalur og aðrar eins og Bárðardalur og Ljósavatnshreppur, sem mundu eiga mjög langt til Húsavíkur, yfir 100 km eru frá bæjum í Bárðardal og til Húsavíkur. Þessar sveitir hljóta að vera á móti því, að Breiðumýrarhérað verði lagt niður. Haft hefur t.d. verið eftir skólastjóranum við héraðsskólann að Laugum, að hann mundi ekki vilja veita þeim skóla forstöðu, ef ekki væri læknir þar í nágrenninu, og er það sjálfsagt vel skiljanlegt. En þessar sveitir vilja einnig og það mjög gjarnan, að góð læknamiðstöð starfi á Húsavík. Það mundi vera þeim til stuðnings.

Ég vil leggja áherzlu á það, og það er aðalatriðið, að ekki verði slegið af kröfunum um læknis- og heilbrigðisþjónustu í dreifbýlinu. Það er t.d. nauðsynlegt, að á þessu 5 ára tímabili, sem um er rætt í 4. málsl. í brtt., verði héruð, eins og t.d. ég hef tekið Breiðumýrarhérað, auglýst og það þannig, að það verði reynt til þrautar að fá þangað lækni hverju sinni. Og í trausti þess, að þannig verði á málunum haldið og þannig verði þetta í framkvæmd, þá mun ég veita þessu frv. stuðning.