25.02.1969
Neðri deild: 56. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

153. mál, eftirlaun forseta Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið til athugunar hjá þingflokkunum og þeir í meginefnum lýst sig því samþykka. Þó eru viss atriði, sem menn óska eftir að athuga nánar, slíkt er auðvitað sjálfsagt við meðferð málsins. Ég hef óskað eftir því, að málið væri nú tekið á dagskrá, vegna þess að að öllu forfallalausu þá er ég á förum á fund Norðurlandaráðs og hafði kosið, að málið færi til n., áður en ég færi þeirra erinda af landi brott.

Frv. er samið með hliðsjón af þeim reglum, sem gilda um eftirlaun ráðherra annars vegar og þingmanna hins vegar, að breyttu breytanda, en hingað til hafa ekki verið í l. ákvæði um eftirlaun forseta Íslands. Eftir það, að herra Ásgeir Ásgeirsson lét af störfum, reyndi á um þetta. Þá varð samkomulag um bráðabirgðaskipan, en sjálfsagt er, að um þetta verði sett frambúðarlöggjöf.

Eins og hv. þm. sjá, þá er sá hundraðshluti, sem forseta Íslands er ætlaður í eftirlaun af fullum launum, ívið hærri en er hjá ráðherrum, en þá er á það að líta, að peningalaun forsetans, sem hér er reiknað frá, eru ekki nema hluti af hans raunverulegu tekjum á meðan hann er í embættinu. Hann hefur mörg og mikil hlunnindi fyrir utan hin beinu laun og þá einnig skattfríðindi eða skattfrelsi, sem hann missir, jafnskjótt og hann lætur af embættinu. Þau eiga ekki að koma til greina varðandi eftirlaunin.

Ég hygg þess vegna, að það hafi verið fundin nokkuð sanngjörn millileið í þessu máli og vonast til þess, að málið fái greiðan framgang og leyfi mér að leggja til, að það verði sent til hv. allshn. að lokinni þessari umr.