06.03.1969
Efri deild: 55. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

165. mál, ráðstafanir í sjávarútvegi vegna breytingar gengis íslenskrar krónu

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki gera að umræðuefni þá gleymsku, sem er orsök þess, að þetta frv. liggur hér frammi, en í l., sem afgr. voru 19. desember á Alþ., eru atriði, sem ég vildi leyfa mér að fara fram á að fá upplýsingar um og vildi beina því til hæstv. sjútvmrh., á hvaða vegi þau atriði væru stödd, sem þar greinir frá.

Í 17. gr. segir svo í staflið a: „Allt að 34.5% gangi til greiðslu hluta gengistaps vegna fiskiskipa og síldarflutningaskipa“, og þar er enn fremur gert ráð fyrir að sett verði reglugerð, sem sjútvmrn. setur, að fenginni umsögn Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Nú vildi ég mega spyrja: Hvað líður þessari reglugerð, sem setja átti samkv. þessum lögum? Þetta er töluvert mikið atriði og ekkert smámál, og ástæðulaust að það dragist í marga mánuði að koma jafnþýðingarmiklu atriði í framkvæmd, eins og þetta er fyrir alla þá aðila, sem þarna eiga hlut að máli. Þetta er, eins og ég sagði, ekkert smáatriði. Þetta skiptir hundruðum þúsunda króna eða jafnvel á aðra millj. fyrir bátana, þau útgjöld, sem þeir verða fyrir í sambandi við gengistapið á hinum erlendu lánum. Þess vegna vildi ég gjarnan fá vitneskju um það, hvað liði þessari reglugerð, og hvenær mætti vænta umbóta í þessu efni. Það líður varla sú vika, að ekki komi fyrir að gjaldfalli erlendar skuldir á bátum, og viðkomandi útvegsmenn eru skuldfærðir fyrir þeim fjármunum, og þetta veldur þeim mjög miklum erfiðleikum í rekstri auk stórkostlegs kostnaðar.

Í öðru lagi vildi ég gjarnan fá upplýst atriði í b-staflið sömu laga. Þar er talað um, að allt að 16.4% gangi til að auðvelda bátum, sem síldveiðar stunduðu sumarið og haustið 1968, að standa í skilum. Hér er um að ræða hinn alkunna síldarvíxil, sem svo hefur verið nefndur og átti að auðvelda útvegsmönnum að standa í skilum með greiðslur vaxta og afborgana af stofnlánum á árinu 1968, með öðrum hætti en nýjum lánum eða frestun afborgana. Enn þá hefur ekki, eftir því sem ég bezt veit — annað verður þá upplýst, ef það er ekki rétt, sem ég segi — komið neitt fram um þetta, og ekkert verið greitt af þessum lánum, samkvæmt þessari grein.

Í þriðja lagi langaði mig til að fá upplýst hjá hæstv. sjútvmrh., hvort nokkuð hefur verið gert í því atriði, sem áður hefur borið hér á dagskrá, en það er í sambandi við ábyrgðarþóknun við erlendu lánin fyrir þessa báta. Þetta er margrætt mál, a.m.k. meðal útvegsmanna og samtaka þeirra. Þetta skiptir mjög miklu máli fyrir þessi skip, ekki sízt eftir gengisfellingarnar, því að provisjón af þessum bátum, sem skulda erlendis og eru kannske keyptir hér fyrir 1–2 árum, nemur vegna þeirra skipa á aðra millj. Mig langaði til að fá upplýsingar un þessi atriði áður en málið færi lengra.