21.10.1968
Neðri deild: 4. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

9. mál, Landsbókasafn Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Þegar ég las það í blöðum nokkru áður en þing kom saman, að eitt fyrsta mál, sem fyrir það yrði lagt, væri frv. til l. um Landsbókasafn Íslands, hélt ég, að í því frv. yrðu einhver ákvæði, sem stuðluðu að byggingu nýs bókasafnshúss.

Það er á allra vitorði, að meginvandi hinna vísindalegu safna á Íslandi, bæði Landsbókasafnsins og Háskólabókasafnsins, er húsnæðisskorturinn, sem hefur verið ákaflega erfitt vandamál um langt skeið og úr verður að bæta, ef einhver lausn á að fást á vandamálum safnanna. Þetta frv. reyndist ekki hafa að geyma nein slík ákvæði. Hins vegar vék hæstv. menntmrh. að þessu vandamáli í ræðu sinni hér áðan og lét þar í ljós góðan vilja um framkvæmdir. En ég held, að það þurfi meira til eins og nú er komið.

Þessu máli hefur miðað ákaflega hægt áfram hjá okkur. Það er meira en aldarfjórðungur, síðan sú hugmynd var borin fram, að vísindalegu söfnin skyldu sameinuð, og árið 1957 var einróma samþ. ályktun hér á þingi um að sameina söfnin. Þar var hæstv. ríkisstj. falið að gera nauðsynlegar ráðstafanir í því skyni. En þessi ályktun hafði því miður engin áhrif ár eftir ár. Hæstv. ríkisstjórnir, sem þá voru við völd, sinntu ekki þessu verkefni. Það var ekki fyrr en á þinginu í fyrra, að þetta mál var tekið hér til umr. og þá tókst um það samstaða milli hæstv. ríkisstj. og þm., að tekin væri upp í fjárlög í fyrsta skipti fjárveiting til byggingar bókasafnshúss. Sú upphæð var 1 1/2 millj. Nokkrum vikum síðar lá við, að þessi upphæð hrykki út aftur, því að þá var borið fram sparnaðarfrv. frá hæstv. ríkisstj., þar sem þessi upphæð var gersamlega skorin niður. Sem betur fór tókst samt að bjarga því máli við á nýjan leik, þannig að 1/2 millj. kr. fékk að standa í fjárl. Og ég taldi það fyrir mitt leyti ákaflega mikilvægt, að sú upphæð var í fjárl., vegna þess að með því var þó verið að taka ákvörðun um fjárveitingu til þessa verkefnis í fyrsta skipti. Og þá gerði ég mér vonir um það, að hæstv. ríkisstj. mundi flytja till. um hærri upphæðir til þessara þarfa í fjárlagafrv. fyrir árið 1969. Hins vegar ber frv. það með sér nú, að þar er aðeins gert ráð fyrir því, að til þessa verkefnis verði varið 1/2 millj. í viðbót, og ef fjárveitingar okkar til þessa verkefnis verða ekki ríflegri en þetta, er augljóst mál, að það verður ekki unnt að ráðast í neinar framkvæmdir fyrr en eftir mjög langan tíma.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að menn hefðu tengt þetta mál að undanförnu við hugmyndir um, að Íslendingar minnist ellefu hundraða ára afmælis Íslandsbyggðar á myndarlegan hátt, og hann tók mjög undir þá hugmynd. Ég er mjög sammála því, að bygging bókasafnshúss væri alveg tilvalið verkefni til þess að minnast þessa afmælis. En ef ætlunin er að gera það, veitir ekki af að taka ákvarðanir án tafar. Það verður ekkert áhlaupaverk að koma upp nýju og fullkomnu bókasafni. Það þarf að undirbúa það verkefni mjög vandlega. Seinustu árin hafa orðið miklar breytingar á skipulagi bókasafna víða um lönd og við þurfum að kynna okkur þær sem bezt og tryggja það, að öll vinnuaðstaða verði sem fullkomnust. Það er ekkert vafamál, að það mun taka býsna langan tíma og verður mikil vinna að leggja á ráðin um bókasafnshús, áður en unnt er að ráðast í nokkrar framkvæmdir. Ég hygg, að ef af þessu á að verða, þá sé algerlega nauðsynlegt, að ákvörðun um þetta efni verði tekin mjög bráðlega og að sú upphæð, sem áætluð er til þessa verkefnis á fjárl. fyrir næsta ár, verði mun hærri en sú 1/2 millj., sem nú er gert ráð fyrir í frv. Eigi slík fjárveiting hins vegar að ná fram að ganga, hygg ég, að það sé alveg nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj. hafi forystu í þessu máli, og ég sé ekki ástæðu til annars en að ætla, að þm. yfirleitt mundu verða slíkri framkvæmd fylgjandi. Þess vegna langaði mig til að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvort þetta mál hefði ekki verið rætt innan hæstv. ríkisstj. og hvort ekki megi vænta frá henni einhvers frumkvæðis í þessu máli, einhverrar till. um það, hvernig Íslendingar ætla sér að minnast ellefu hundruð ára afmælis Íslandsbyggðar, og einhverrar nýrrar hugmyndar um fjárveitingu umfram þessa 1/2 millj., sem nú stendur í fjárlagafrv.