14.11.1968
Neðri deild: 15. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

9. mál, Landsbókasafn Íslands

Magnús Kjartansson:

Ég ætla ekki að fara að hefja neinar deilur út af þessu máli. Það er ekki þess eðlis. Mér er það að sjálfsögðu ljóst, að ég get ósköp vel flutt till. um þetta mál hér á þingi. (Forsrh.: Hvað?) Mér er það fullkomlega ljóst, að ég get ósköp vel flutt till. um þetta mál hér á þingi, en ég hygg, að það væri ekki vænlegasta leiðin til að fá því framgengt, og það skiptir umfram allt máli, að um það takist sem víðtækast samstarf. Þar tel ég, að til þurfi að koma frumkvæði hæstv. ríkisstj., og ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðh. séu svipaðs sinnis eins og mér virðist, að alþm. almennt séu. Því vil ég mjög eindregið ítreka það, að hæstv. ríkisstj. vísi þessu ekki frá sér, hvorki til mín né hv. menntmn. eða þeirrar mþn., sem starfandi er, heldur að hún taki málið upp á sjálfstæðan hátt, því aðeins með frumkvæði hæstv. ríkisstj. nær þetta mál fram að ganga. Þarna er um svo stóra upphæð að ræða og svo mikið verkefni, að það verður ekki leyst með tillögugerð einstakra þm.