12.12.1968
Efri deild: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

99. mál, breyting á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um þetta frv. um breyt. á lausaskuldum iðnaðarins í föst lán, því að eins og hv. frsm. iðnn. reyndar tók fram, erum við nm. allir sammála. Þess vegna verður hér ekki um neinar aths. frá mér að ræða.

En ég vil mjög eindregið taka undir orð hv. frsm. iðnn., þegar hann ræddi um fjármagnsþörf iðnaðarins. Og ég vil fullvissa hann um það, að sú tala, sem hann nefndi, 5.00 milljón krónur, blöskrar mér ekki. því að það er enginn vafi á því, að ef hér á að endurreisa atvinnuvegina, kemur iðnaðurinn þar í fremstu röð, og til þess að hann fái starfsgrundvöll, ekki sízt með tilliti til þeirra breytinga, sem hugsanlegar eru í samskiptum okkar við aðrar þjóðir, þarf áreiðanlega mjög stórt átak til að koma, og ég veit, að hv. frsm. er manna kunnugastur þessum málum. Þess vegna vil ég undirstrika það, að mér blöskrar sú upphæð ekki neitt.

Hv. frsm. minntist á það, að nú væri einmitt rétti tíminn til að endurskipuleggja iðnaðinn. Ég veit nú ekki, hvort þessi tími er nokkuð réttari en sá tími, sem liðinn er, og hefði þurft að vera búið að gera þetta fyrir löngu. Hann talaði um það, að einmitt núna væri það rétta gengi skráð. Ég vil aðeins minna á það í þessu sambandi, að í fyrra fyrir réttu ári síðan vorum við hér í þessari hv. þd. líka að samþ. rétta gengisskráningu. Og mætti kannske ætla, að líka þá, og ekki síður þá, hefði verið tilefni til þess að taka mál iðnaðarins fastari tökum en gert hefur verið í tíð hæstv. núv. ríkisstjórnar.

Það er ekki vegna þess, að till. um endurskipulagningu mála iðnaðarins hafi ekki verið bornar hér fram, því að allan tímann, a.m.k. síðan ég kom á þing, sem er raunar ekki langt, og sjálfsagt miklu lengur, hafa verið hér uppi till. einmitt um það, sem hafa satt að segja litla áheyrn fengið. En ég sé ástæðu til að fagna því, að nú skuli þó eiga að taka þessi mál til gagngerðrar endurskoðunar, og ég lýsi ánægju minni yfir, eins og hv. frsm. iðnn., þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. gaf í Sþ. í gær, að nú skyldi hjól atvinnulífsins sett í gang með auknu fjármagni.