10.04.1969
Efri deild: 71. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

9. mál, Landsbókasafn Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Nú er alllangt síðan fram fór 2. umr. hér í hv. þingdeild um þetta frv., en að þeirri umr. lokinni bárust um það tilmæli frá Háskólanum, að frv. yrði ekki tekið til 3. umr., fyrr en Háskólanum hefði gefizt tími til þess að láta í té umsögn um það. Á því varð að vísu allmikill dráttur, að sú umsögn bærist, en hún var lögð fram í menntmn. nokkru fyrir páskaleyfi þm. og var rædd þar síðan á 2 nefndarfundum, og jafnframt var kannað viðhorf landsbókavarðar til þeirra brtt., sem háskólaráð lagði til að gerðar yrðu á frv. Niðurstaða af athugunum n. var svo sú, að n. flytur á þskj. 433 brtt. við frv. í samræmi við óskir háskólaráðs.

Í umsögn háskólaráðs er bent á nauðsyn þess, að við ákvörðun á starfssviði Landsbókasafnsins með nýjum l. sé jafnframt tekin til gaumgæfilegrar athugunar skipan á vísindalegum bókasöfnum á landi hér og sér í lagi tengsl Landsbókasafns og Háskólabókasafns. Í umsögninni er vikið að þáltill. frá 1957 um sameiningu Landsbókasafns og Háskólabókasafns og að þeim breytingum, sem síðan hafa orðið á málefnum Háskólans, en þar hefur stúdentafjöldi og kennaralið meira en tvöfaldazt og jafnframt hefur aukizt mjög þörfin fyrir lestrarsalsrými og þjónustu fyrir kennara Háskólans og annað vísindalega menntað starfslið. Einnig er vikið að þeirri sérstöðu, sem Háskólabókasafn hefur vegna þjónustu við Háskólann sem kennslustofnun og vísinda- og rannsóknarstofnun. Í umsögninni segir síðar svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Að því er varðar tengslin milli bókasafnanna, mætti hugsa sér þau á ýmsa vegu, allt frá samvinnu um bókakaup og tækja og fleira til algerrar sameiningar.

Í till. þeim, sem sendar eru hjálagt um nýja gr., 8. gr. í frv. (það er fyrsta brtt. menntmn.), er gert ráð fyrir, að bókasöfnin verði í sameiginlegri byggingu og að því margvíslegur sparnaður og hagræði. Verði Háskólabókasafn þá varðveitt í byggingu, sem reist sé fyrir bæði söfnin. Hins vegar er gert ráð fyrir að Háskólabókasafn lifi áfram sem stofnum.“

Síðan eru tíunduð ýmis rök Háskólans fyrir því, að svo verði. Þá er einnig lagt til, að landsbókavörður fari með yfirstjórn Háskólabókasafns ásamt Landsbókasafni, en eins og segir í umsögninni: „Sérstakt starfslið verði þá talið tilheyra Háskólabókasafni, og verði það ráðið með þeim hætti, sem nú tíðkast, þ.e.a.s. með lögmæltum eða venjuhelguðum afskiptarétti háskólaráðs.“ Þá tekur háskólaráð það fram í umsögn sinni, að þess sé vænzt, að sérstakar fjárveitingar verði áfram til Háskólabókasafns og komi fjárveitingartilmæli frá Háskólanum eins og nú er, og í samráði við landsbókavörð.

Síðan er vikið að því, að margvísleg sameiginleg þjónusta eigi að geta leitt til aukins sparnaðar og betri hagnýtingar, og loks bendir háskólaráð mjög eindregið á þörf Háskólans fyrir aukið lestrarsalsrými, og skýrir frá athugunum, sem hafi farið fram í því sambandi, sem ég skal þó ekki fara nánar út í.

Eins og áður sagði, þá var kannað viðhorf landsbókavarðar til þessara brtt., og hann kvaðst fyrir sitt leyti ekkert hafa við það að athuga, að þessar breytingar yrðu á frv. gerðar. Hins vegar væri það ljóst, sem öllum má ljóst vera, að fjölmörgum atriðum varðandi tengsl safnanna yrði að skipa með reglugerðarákvæðum, þegar ytri skilyrði verða fyrir hendi, þ.e.a.s. þegar þjóðarbókhlaða hefur verið reist, en þangað til mun hins vegar margt skýrast í þeim efnum og erfitt nú að segja fyrir um allt það, sem þá kynni að sýna sig, að þyrfti að skipa með reglugerð, eða taka afstöðu til einstakra atriða.

Ég skal þá að lokum lesa samandregin aðalatriðin í afstöðu háskólaráðs til frv., sem hljóða þannig í umsögn háskólaráðs:

„1. Háskólaráð telur, að náið samstarf milli Landsbókasafns og Háskólabókasafns sé höfuðnauðsyn.

2) Þörf Háskólans á lestrarsalsrými er gífurlega mikil, og er óhjákvæmilegt, að úrlausn þess máls sitji í fyrirrúmi við byggingu nýs bókasafnshúss.

3) Háskólaráð telur, að Háskólabókasafn, sem stofnun, eigi að starfa áfram, en söfnin eigi að vera til húsa í sömu byggingu, og stjórnarfarslega lúti safnið yfirstjórn landsbókavarðar, þótt Háskólabókasafn hafi eigið starfslið, sem skipað sé eða ráðið með lögmæltum eða venjuhelguðum afskiptum háskólaráðs.

4) Fjárveitingar til Háskólabókasafns verði sérstæðar og fjárveitingartill. ákveðnar af rektor og háskólaráði í samstarfi við landsbókavörð og háskólabókavörð. Bókasafnsnefnd starfi áfram og ráði bókakaupunum í samstarfi við háskóladeildir og rannsóknarstofnanir.“

Ég hef þá með fáum orðum rakið efni umsagnar háskólaráðs um þetta frv., og brtt., sem menntmn. flytur á þskj. 433, ætla ég að skýri sig sjálfar. Ég skal aðeins skjóta því hér inn, að í niðurlagi 3. brtt. er vitnað í 2. og 36. gr. l. um Háskólann frá 1957. 2. gr. fjallar um stjórn Háskólans, um verksvið rektors og háskólaráðs, en 36. gr. um stofnanir Háskólans og eigur hans.

Það held ég að megi fullyrða, að það sé nú þegar orðið tímabært að taka ákvörðun um tengsl Háskólabókasafns við Landsbókasafnið. Þetta er mál, sem oft og lengi hefur verið rætt. Nú vil ég einnig vekja athygli á því, sem fram kemur í nál. frá menntmn. hv. Nd., þar sem vitnað er í þau ummæli menntmrh. í framsögu fyrir frv., að rík nauðsyn sé að taka sem fyrst ákvörðun um framtíð Landsbókasafns og Háskólabókasafns. Það líður nú að því, að gera þurfi áætlun og vinna að undirbúningi að byggingu bókasafnshúss, sem rúmi hin vísindalegu bókasöfn Íslendinga, og það má ætla, að stefnt verði að því, að hún verði reist í sambandi við ellefu hundruð ára afmæli Íslandsbyggðar. Það er vitað mál, að það hafa kannske innan Háskólans ekki allir verið á einu máli um, hvernig fara skyldi um þetta mál, en umsögn og till. háskólaráðs, sem nú hafa borizt menntmn., eru einróma álit háskólaráðsins, og það sýnist ekki eftir neinu að bíða með að taka ákvörðun um framtíð Háskólabókasafnsins, eins og nú er komið.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að fara fleiri orðum um málið að svo komnu. Ég vil aðeins segja það, að ýmsar þær ábendingar, sem koma fram í umsögn háskólaráðs, eru um atriði, sem skipað yrði síðar með reglugerð og við samningu slíkrar reglugerðar yrði að sjálfsögðu tekið fullt tillit til beggja aðila, annars vegar Landsbókasafnsins og hins vegar Háskólabókasafnsins.