10.02.1969
Efri deild: 40. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

128. mál, fiskveiðar í landhelgi

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. frá 1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi, er ekki nýmæli. Með frv., sem samþ. var 13. maí 1966, var gert ráð fyrir því, að sams konar heimild yrði veitt og hér er farið fram á, en það frv. hafði lögbundinn gildistíma og féll úr gildi á síðastliðnu ári. Það er lagt til að endurnýja þær heimildir, sem frv. veitir, ásamt því að rýmka nokkuð, frá því sem fyrrgreint frv. hafði gert ráð fyrir, það er að segja, að nú er heimilt að taka við afla af togveiðiskipum, sem áður var fyrirmunað samkvæmt þessum gömlu lögum.

Það fer vart á milli mála, að aðstæður frá 1922 eru svo gjörbreyttar, að við þurfum nú ekki að búa við þann ótta, sem mjög eðlilega bjó með mönnum þá, um yfirráðarétt, eða réttara sagt um yfirtöku, erlendra manna á íslenzkum fiskiðnaðarstöðvum í landinu. Þrátt fyrir ýmiss konar mótlæti á þeim áratugum, sem síðan eru liðnir, þá er sú hætta tvímælalaust ekki fyrir hendi. Enn fremur hefur það komið fram nú, síðan við eignuðumst stærri og fullkomnari fiskiskipaflota, að það hefur valdið okkur dálitlum erfiðleikum erlendis að fá löndunarrétt fyrir skip okkar þar, vegna þess að sams konar heimild hefur ekki verið í íslenzkum lögum. Breyt. frá þessum tímabundnu lögum, sem ég áðan minntist á, er því fyrst og fremst sú, að þessi lög eru ekki tímabundin, og í öðru lagi, að nú má veita móttöku afla, þó að hans sé aflað með botnvörpu. Ég tel heldur ekki þörf á því, að skýra þetta frv. frekar, en minni á það, að það hefur valdið töluverðum erfiðleikum að fá löndunarrétt fyrir skip okkar erlendis — sem í vaxandi mæli hafa nálgazt fjarlægari mið og því nálgazt strendur annarra landa meira en heimalands síns — þar sem við höfum ekki getað bent á, að sams konar eða gagnkvæm réttindi væru hér í okkar l. Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að gagnkvæm réttindi komist á í þessum efnum.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umræðu og háttv. sjútvn.