17.03.1969
Efri deild: 59. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru nú aðeins örfá orð. Ég ætla mér ekki að fara að setja hér upp stólparæðu og svara ýmsu af því, sem hv. 1. þm. Vesturl., Ásgeir Bjarnason, talaði hér um og að sumu leyti var alveg hér utan við þetta frv. En ég er honum sammála um það, að bændurnir eigi að vera landstólpi. Ég vil ekki orða það þannig, að þeir geti orðið landstólpi. Ég vil segja, að þeir séu landstólpi og hafi alltaf verið það og sem betur fer ekkert á þeirri leið að geta ekki verið það áfram, og þar erum við alveg sammála, ég og hv. 1. þm. Vesturl.

Ég verð nú að segja það, að hv. 1. þm. Vesturl. var miklu hógværari núna, þegar hann talaði um þetta frv., heldur en þegar hann var að tala um frv. um lausaskuldir bænda 1962. En þetta frv. er nú sízt verra en það frv. Það sem er, er þó það, að þetta frv. er aðeins betra, en felur ekki í sér þau ákvæði, sem hv. þm. leggur mesta áherzlu á, þ.e. kaupaskyldu Seðlabankans. Það var ekki 1962, og það er ekki heldur í þessu frv. Eigi að síður eru allir sammála um það, að lögin frá 1962 hafi verið harla góð og komið að miklum notum, og einhvern veginn var það nú svo, að bréfin fóru og voru notuð og eru víst að mestu leyti komin til Seðlabankans, enda þótt hann hafi ekki verið skyldaður til þess að kaupa þau. Nú, það ætla ég að láta nægja að segja hér um frv. 1962, ég hef rætt við bankana um þessa löggjöf, og ég geri mér vonir um, að það takist að framkvæma hana nú, ekki síður en þá. Ég geri mer vonir um það. Og að þetta frv., sem ég nú flyt, sé lakara en frv. framsóknarmanna, sem var flutt hér í vetur og flutt í fyrra, það ætla ég nú ekkert að ræða um í dag. Ég átti von á því, að það yrði sagt, og ætla ég út af fyrir sig ekkert að fara mörgum orðum um það, þótt hv. flm. tali vel um sitt frv. og telji það betra en það, sem ríkisstj. flytur, sem heldur bændunum alveg í svelti, eins og skilja mátti á hv. ræðumanni hér áðan.

Hv. 1. þm. Vesturl. talaði um þessa 412 bændur, sem skulduðu meira en sjöfaldar nettótekjur, hvað yrði gert við þá. Um það ætla ég ekkert að segja nú, það þarf að athuga þetta allt saman nánar, og ég ætla engar yfirlýsingar um það að gefa umfram það, að mér finnst' sjálfsagt að gegnumlýsa þetta allt saman, athuga, hvað hægt er að gera.

Um tekjur bænda samanborið við aðrar stéttir er það að segja, að þessi samanburður er náttúrlega svona eins og hann er. En þetta skýtur dálítið skökku við. Það er alltaf öðru hverju verið að tala um það, að verkamennirnir hafi ekki nema 9–10 þúsund á mánuði. En þegar þeir komast upp í þessar háu tekjur, sem minnt er á, er það vitanlega vegna þess, að þeir vinna langan vinnudag og eftirvinnu og næturvinnu og allar helgar. Ég veit það, að sumir bændur vinna líka langan vinnudag og vinna allar helgar. En yfirleitt mun það nú vera, að þeir bændur, sem vinna mjög langan vinnudag, hafa líka miklu hærri tekjur en 123 þús. kr.

Þá fannst mér hv. 1. þm. Vesturl. segja mér fréttir, þær sem ég hef ekki heyrt áður, að það vanti 120 millj. í útflutningsuppbætur, enda þótt það megi gera ráð fyrir að geta fengið gengishagnaðinn til ráðstöfunar að mestu upp í þetta. En mér er bara kunnugt um það, að framleiðsluráðsmenn, a.m.k. sumir hverjir, hafa ekki reiknað þetta dæmi til enda. Þeir hafa ekki reiknað það til enda, og mér finnst ekki rétt að kasta svona tölu fram hér, vegna þess að hún liggur ekki fyrir.

Hv. þm. gerði að umtalsefni Stofnlánadeild landbúnaðarins, sem ég og hæstv. fjmrh. ætluðum að efla og gera að góðri stofnun. Stofnlánadeild landbúnaðarins er nú frá mínu sjónarmiði ágæt stofnun, eins og hún er í dag. Og það er nú óviðeigandi fullyrðing hjá hv. þm. að segja, að hún sé gjaldþrota, af því að það er ekki rétt. Og ég kann ekki við það, að hv. þm., sem sjálfur er bóndi, í stjórn Búnaðarfélags Íslands, ábyrgur maður og á margan hátt ágætur, mér finnst það bara ekki viðeigandi af honum að vera með svona fullyrðingar hér um þessa ágætu stofnun, Stofnlánadeildina, að hún sé gjaldþrota, þótt hún hafi orðið fyrir nokkru gengistapi. Og hv. þm. ætti nú að horfa sjálfum sér svolítið nær og minnast þess, hvers vegna þetta gengistap varð. Er það vegna lána, sem hafa verið tekin í tíð núv. stjórnar? Eða er það vegna lána, sem voru tekin, þegar flokksbræður þessa hv. þm. fóru með mál Stofnlánadeildarinnar? Það skyldi ekki vera? Allir, sem kynna sér það, hvernig rekstur Stofnlánadeildarinnar hefur verið hin síðari ár, vita það, að gengistapið, sem varð nú og í fyrra, varð vegna lána, sem voru tekin í stjórnartíð framsóknarmanna, vegna þess að þá fékk Stofnlánadeildin ekki innlent fé til ráðstöfunar. Síðan núv. stjórn komst til valda, hefur Stofnlánadeildin eingöngu verið með innlent fé, sem lánað hefur verið bændum. Og það, sem Stofnlánadeildin hefur tekið af öðruvísi lánum, hefur hún lánað gegn gengistryggingu. Hún hefur þess vegna ekki orðið fyrir gengistapi vegna lána, sem hafa verið tekin síðustu 9 árin. Það er kokhreysti hjá hv. 1. þm. Vesturl. að vera nú að rifja þetta upp og minnast á þetta, það er kokhreysti að fullyrða svo, að Stofnlánadeildin sé gjaldþrota vegna arfsins frá hans flokksbræðrum. En jafnvel þótt þessi arfur hafi verið slæmur og íþyngi deildinni, er nú ekki það, að deildin hafi ekki átt eignir til þess að mæta því og miklu meira en þessu. Þetta tel ég alveg nauðsynlegt að komi fram, alveg nauðsynlegt. Hitt er rétt, að greiðslubyrði Stofnlánadeildarinnar eykst um 9 millj. kr. á ári nú fyrstu árin vegna gengistapsins. En Stofnlánadeildin hefur aukið útlánin á undanförnum árum til bænda og veitt betri þjónustu en áður var hægt að gera. Þegar þm. talar um, að lánstíminn hafi verið styttur, er það ekki rétt. Það er alveg sami lánstími og var, yfirleitt 20 ár, út á ræktun og útihús, sem eru vel byggð að mati eftirlitsmanna bankans, eins og áður var, og 47 ár á íbúðarhús. — Hv. þm. talar um, að það sé stuttur lánstími út á vélar. Það má vel vera, að hann ætti að vera lengri. En yfirleitt er ekki lánað út á vélar til lengri tíma en það, sem er talinn hæfilegur fyrningartími. En kaupalánstíminn út á vélar, þegar framsóknarmenn fóru með þessi mál — hv. þm. minntist ekkert á hann. Skyldi hann hafa verið styttur, frá því sem þá var? Nei, hann var ekki styttur, vegna þess að þá var aldrei lánað út á vélar, það var aldrei lánað út á vélar. En hv. þm. minntist ekki á það.

Þá talar hv. þm. um áburðareinkasöluna og vitnar í orð formanns Búnaðarfélags Íslands, sem honum þóttu harla góð: að bændur hafi verið hraktir á erlendan lánamarkað. Ég hef nú engan annan heyrt vitna í þessi orð formanns Búnaðarfélagsins, og þeir munu vera fáir, sem hafa talið, að þessi setning hafi verið það bezta, sem sagt var í þeirri ræðu. En hvernig var þetta áður með áburðarkaupin. Áburðarkaupin voru náttúrlega miklu minni áður, miklu minni vegna þess að ræktunin var miklu minni, og þá var ekki verið að spekúlera í því hvernig var með lánamöguleika. Þá var bændum gert að greiða áburðinn a.m.k. alveg upp fyrir ágústlok, en mestallan að vorinu til, en þá var það náttúrlega miklu minni útgjaldaliður heldur en núna. En hvers vegna skyldu þessi lán hafa verið tekin erlendis? Það var vitanlega eftir ósk þeirra sem keyptu áburðinn. En þá var að því komið, eins og oft hefur verið minnzt á, að bændur hafi ekki fengið nægileg lán í bönkunum. Um þetta má alltaf deila. Það er talað um, að rekstrarlánin séu óbreytt frá 1959. Það séu hin svo kölluðu fyrirframlán, sem séu veitt út á dilka, út á lömbin áður en þau fæðast. Ég var nú í Landsbankanum í fyrravor til þess að ræða um þetta, og fékk þá þær upplýsingar, að það væri búið að lána í öðru formi alveg út á væntanlegar afurðir, sem til féllu s.l. haust, það væri bara í öðru formi. Og þeir voru allir við, bankastjórar Landsbankans, þó að aðeins einn talaði, það mótmælti enginn. Það má alltaf deila um það, hvort það sé lánað nóg að áliti manna, en öllum finnst nú að þeir skuldi nógu mikið þó að þeir jafnvel þurfi á meiri lánum að halda, þá finnst nú öllum, að þeir skuldi nógu mikið, og það hefur verið talið hagstætt að fá þessi erlendu lán, m.a. vegna þess að þau hafa verið ákaflega ódýr. Það var náttúrlega slæmt, að ekki var búið að borga þessi erlendu lán s.l. haust áður en gengisbreytingin varð, eins og tókst 1967. Steingrímur Hermannsson skrifar í Tímann nú um helgina og gefur skýringu á því að nokkru leyti, segir, eins og rétt er, að það hafi ekki verið eðlilegt, að áburðareinkasalan gæti yfirfært þegar öðrum var ekki heimilað það, þar sem líkt stóð á. Um það, hvað er löglegt í þessu eða ekki, ætla ég nú ekki að fullyrða, um það hef ég ekki spurt enn, en hv. 1. þm. Vesturl. segir, að það sé algjörlega ólöglegt að láta þetta gengistap koma á áburðarverðið á næstu árum. Það er alveg sjálfsagt að fá úrskurð um það. Stjórn Áburðarverksmiðjunnar tók þetta lán hjá Landsbankanum, hjá Seðlabankanum og þar mun þetta ákvæði vera, að Áburðarverksmiðjan er skuldbundin að greiða á 5 árum. Hvernig farið verður að því, ætla ég ekkert um að segja, en ég hygg, að það sé hvorki vilji ríkisstj. né stjórnar Áburðarverksmiðjunnar að fremja lögbrot, frekar en það að selja bændum áburðinn óþarflega dýrt, og ég held að það sé nú bezt að hafa ekki mörg stór orð um þetta mál að sinni.

Hv. 1. þm. Vesturl. talaði dálítið um forsögu þessa máls. þ.e. lausaskuldamál bænda, sagði, að stéttarsambandsfundur bænda hefði talað um þetta og óskað eftir því, að breytingar gætu átt sér stað. Þetta er alveg rétt, ég minntist ekkert á það hér áðan, hver forsagan var, en gerði, að ég hygg, nokkuð ítarlega grein fyrir fjárhag bænda og aðstöðu og vitnaði nokkuð greinilega í það, að það gæti verið sérstök ástæða til að verða við þessari ósk. En grg. með frv. er stuttaraleg, sagði hv. þm., og hann vill ekki, að grg. harðærisnefndar verði leyniplagg, það sé ósæmilegt að láta alþm. ekki fá tækifæri til þess að kynna sér það. Og hvernig stendur á því? spyr hv. þm. Það er nú ekkert langt síðan, að þessi grg. komst í mínar hendur, og hún er nú það löng, að það þykir alls ekki viðeigandi að prenta hana með frv. Hitt hefur alltaf verið mín ætlun, að í það minnsta landbn. fengi þessa grg., og mér finnst alveg sjálfsagt, að þeir hv. þm., sem óska eftir því að fá hana, eigi þess kost. Leyniplagg hefur hún aldrei átt að verða, og það er ekki rétt hjá hv. þm. að orða þetta eins og hann gerði: „Hvernig stendur á því, að alþm. fá ekki tækifæri til þess að kynna sér nál.?“ Það hefur aldrei verið meiningin, að þeir ekki fengju það tækifæri. Það er stutt síðan öll grg. kom í mínar hendur; fyrst kom fyrri hlutinn og nú fyrir nokkrum dögum seinni hlutinn, og það var beðið með að flytja þetta frv., þangað til að nál. kom í mínar hendur. Það hefur alltaf verið meiningin, að það kæmi til landbn. og þá einnig til þeirra þm., sem þess óska. Það þarf að fjölrita það, en það verður sennilega ekki prentað. Hv. þm. talar um, að stefna viðreisnarinnar hafi leitt til hruns. Þetta er nú ekki meira en það, sem sagt hefur verið áður, og miklu hógværari orð notuð nú heldur en oft áður, enda eru skuldir bænda að meðaltali ekki nema 262 þús. kr. Það er ekki meira, og nettóeignir með þessu mati, sem þarna er, 778 þús. að meðaltali. Það þykir kannske ekki mikið, en það munu nú ýmsir vera, sem undrast það, þegar þeir kynna sér, hvað gert hefur verið nú í seinni tíð með þeirri uppbyggingu og framkvæmdum öllum, að meðalskuld bænda sé ekki nema 262 þús. kr. Ég hafði haldið, að það væri miklu meira. Og lausaskuldirnar, þrátt fyrir allar framkvæmdirnar, eru þó ekki nema 33% af öllum heildarskuldunum. Þetta er náttúrlega nokkuð. Það situr ekki á mér að vera að fegra það og gera lítið úr erfiðleikum bænda, en ég ætla samt að leyfa mér að segja það, að mér létti, þegar ég var búinn að lesa þetta nál. og kynnast því og sjá, að bændur voru þó ekki verr settir en þar er sagt.