28.03.1969
Efri deild: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég hef nú litlu við að bæta það, sem ég tók fram hér í fyrri ræðu minni, en vil þó lítils háttar koma inn á fáein atriði, sem fram komu hjá frsm. minni hl. Það var ein fsp., sem hann gerði, um það undir hvaða ráðh. ætti að bera vaxtakjörin. Ég vil taka það fram, að ég hef ekki aflað mér upplýsinga um þetta, en að sjálfsögðu gerði maður ráð fyrir því, að hér væri átt við þann ráðh., sem veðdeild Búnaðarbankans heyrði undir, sem er landbrh.

Það var önnur spurning, sem hv. 1. þm. Vesturl. var að velta fyrir sér, og það var það, hverjir mundu eiga að meta verðmæti þess veðs, sem hér er gert ráð fyrir, að komi til tryggingar þeim lánum, sem veitt yrðu. Hann tók það réttilega fram, að síðast, þegar svipuð eða sams konar ráðstöfun var gerð, voru það sérstakir dómkvaddir menn. Ég geri ráð fyrir því, að þetta fari nokkuð eftir því, hversu viðamikið starf þetta lítur út fyrir að verða, en Búnaðarbankinn hefur sína trúnaðarmenn hingað og þangað, sem mætti ætla, að gætu innt þetta starf af höndum, svo fremi það væri ekki talið vera of stórt verkefni til þess að þeir gætu sinnt því. Að öðrum kosti verður að sjálfsögðu að grípa til þess ráðs, eins og gert var þá, að dómkveðja menn til þess að meta þessar eignir. Þá var minnzt á það, að lán til véla hefðu verið af skornum skammti á þessum tíma. Það má vera, að það megi nú hafa þau orð um það, að lán til vélakaupa til bænda séu af skornum skammti. En ég hygg þó, að bændur séu þess vel minnugir, að nú er stórmunur á því frá því, sem var um langan tíma áður, þegar engin lán voru veitt til slíkra kaupa.

Þá er það aðeins, sem ég vildi koma inn á að síðustu, þar sem rætt er um þá, sem lakast eru settir. Og þá verður mér næst fyrir að líta til þeirrar skýrslu og þeirra upplýsinga, sem við höfum frá harðærisnefnd um efnahagsstöðu bænda í árslok 1967, sem ég verð að segja, að var þó miklu betri heldur en maður þorði að vona, þar sem það kom fram, að 77.7% af bændum eru tiltölulega vel settir efnalega. Hins vegar kemur það í ljós, eins og hér hefur komið fram í umr., að 3.4% af bændum eða 160 bændur eru þannig settir, að þeir hafa vonlitla aðstöðu til framhaldsbúrekstrar. Þessar tölur gefa manni ákveðna bendingu um það, hvernig hag bænda er farið á þessum tíma. En ég hygg þó, að það geti komið í ljós, þegar hver einstaklingur er skoðaður fyrir sig, að þarna sé æðimikill munur á og það eigi ekki það sama við til hjálpar hverjum einum fyrir sig. Það er enginn vafi á því, að í sumum tilfellum verður ekki neinni björgun við komið með lánum og í sumum tilfellum líklegt, að það verði heldur að hjálpa mönnum til þess að hætta búskap heldur en að standa að þeim atvinnurekstri við algerlega vonlausar aðstæður. Og mér sýnist því einsætt, að hver einasti maður, sem er með lausaskuldir að nokkru ráði, telji sér það til vinnings og sjálfsagt að sækja um fyrirgreiðslu á grundvelli þessara laga. Það verður vitanlega að athuga nánar, þegar til framkvæmda þessara laga kemur, á hvern hátt verður hægt að hjálpa þessum mönnum, en ég hygg, að það sé nokkuð erfitt að segja fyrir um það á þessu stigi, hvernig þeirri hjálp muni verða bezt fyrir komið. Hv. 1. þm. Vesturl. hafði orð á því hér í lokin, að ef ríkisstj. virkilega meinti vel með þessari lagasetningu, yrði kaupaskyldán að vera með í lögunum. Ég átti ekki von á því, að hann drægi það í efa, að þetta lagafrv. væri flutt af heilindum og til þess gert að létta bændum þá byrði, sem viðurkennd er, að sé þeim erfið og í mörgum tilfellum allt of þung. En ég álít þá um leið, og við, sem ræðum um þetta mál, megum heldur ekki vera með getsakir, sem gera lögin tortryggileg í augum þeirra bænda, sem þeirra eiga að njóta.