10.04.1969
Neðri deild: 75. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð. Ég vil nú fyrst segja það, að ég fagna því að þetta frv. hefur verið lagt fram. Það ber einnig að þakka það, að orðið var við margítrekuðum tilmælum bændasamtakanna um það að taka þessi mál til athugunar og að sú athugun hefur nú farið fram og orðið undanfari þessa frv. Ég er hins vegar hræddur um það, að frv. reynist ekki fullnægjandi og tel nauðsynlegt að gera á því ýmsar breytingar. Mér virtist í ræðu hæstv. ráðh. gæta ótrúlegrar, og ég vil segja fáránlegrar bjartsýni, á hag bænda. Og sérstaklega eftir að þeir höfðu mælzt við, hv. 2. þm. Suðurlandskjördæmis og hæstv. ráðh., þá óx þessi bjartsýni ráðh. og var komin á það stig, að hann sagði hér í sinni seinni ræðu, að 77.7% af bændum væru ágætlega settir fjárhagslega. Nú er þess að gæta, og ég held, að það verði að taka það með í reikninginn, að þær upplýsingar, sem skýrslan er byggð á, eru frá 31/12 1967 og síðan hefur síður en svo árað vel og má búast við því að fjárhagur hafi versnað verulega, a.m.k. á sumum svæðum á landinu. Vorið 1968 var alls staðar erfitt, og sumarið var það einnig í ýmsum landshlutum. Ég skil ekkert í þessum fullyrðingum öllum, og þeim lærdómi, sem hæstv. ráðh. virðist hafa dregið af þessari ágætu skýrslu. Hann sagði í fyrstu, að mikill meiri hluti bænda hefði mjög sæmilega afkomu, og síðast voru þeir komnir upp í 77.7%, sem voru ágætlega settir — ég skrifaði þetta niður hjá mér — og að þessi hluti bænda ætti ekki í neinum greiðsluerfiðleikum. Nú vil ég bara leyfa mér að spyrja: Hvernig getur þetta verið? Það er nú auðvitað auðvelt fyrir hv. ráðh. að blása á allar samþykktir stéttarsamtaka. En það vita sjálfsagt flestir, að samþykktir frá stéttarsamtökum bænda varðandi efnahaginn og erfiðar aðstæður eru orðnar margar og sumar töluvert rökstuddar. Við skulum segja, að það megi afgreiða þær á einu bretti sem barlóm bændastéttarinnar í heild.

En hvað á þá að segja um önnur atriði, eins og t.d. skýrslu Hagstofunnar um tekjur stéttanna í þjóðfélaginu? Ég er ekki neinn talnasérfræðingur, og ég tel það ákaflega varhugavert að taka tölulegar upplýsingar alveg hráar og nota þær gagnrýnislaust. Og ég er oft ákaflega tortrygginn á prósentureikning sumra manna, jafnvel ríkisstofnana, sem hafa slíkan reikning um hönd, í tíma og ótíma liggur mér við að segja. En mér finnst þó ómögulegt að ganga fram hjá því, að ár eftir ár liggur það fyrir á skýrslum Hagstofu Íslands, að tekjur bænda séu lægri heldur en annarra stétta í þjóðfélaginu. Hvernig getur það samrýmzt þessu, jafnvel þó við tökum þessar tölur mjög varlega, að núna í dag standi bændur þannig, að 77.7% þeirra séu ágætlega settir? Hvernig getur það komið heim og saman? Ef þetta væri svo sem hv. ráðh. sagði, þá væri áreiðanlega óhætt að segja það jafnframt, að bændur væru þá bezt setta stéttin í öllu þjóðfélaginu. Það er ákaflega gott að vera bjartsýnn, og ég vil ekki draga úr því en það verður að vera eitthvert raunsæi á bak við bjartsýnina.

Fyrir tæpu ári síðan, þegar bændur stóðu frammi fyrir því að kaupa tilbúinn áburð, sem er stærsti liðurinn í þeirra rekstrarvörukaupum, þá gengu öll ósköpin á. Það var talað um að krefjast hreppsábyrgðar, og ég veit ekki hvað og hvað. Og það gekk maður undir manns hönd að greiða fram úr þessum málum. Þetta tókst með nokkru harðræði og á þann hátt, sem reyndar er kunnur, og ekki hefur orðið vandræðalaust. Það tókst að koma því í kring, að menn fengju áburð í fyrra. Sumir fengu hann að vísu seinna en æskilegt hefði verið, m.a. af þessum ástæðum. Þetta var fyrir einu ári. Og nú standa menn frammi fyrir sama vandanum og þó líklega enn þá kvíðvænlegri heldur en þá með þetta að nálgast þessa rekstrarvöru. Hvernig í ósköpunum getur það komið heim og saman, annars vegar þessi vandkvæði á því að kaupa áburð og hins vegar, að bændur séu svona vel settir, eins og kemur hér fram í þingræðum hv. ráðh., sem síðan eru svo birtar í blöðum? Það sýnist mér vandi að samræma. Ef þetta væri svona eins og hæstv. ráðh. sagði hérna líka, að bændur hefðu mjög bætt hag sinn á undanförnum árum, hvernig stendur þá á því, að áburðarkaupin eru alltaf að verða meiri og meiri erfiðleikum bundin? Það hefur ekki verið skýrt hér enn.

Ég ætlaði ekki að segja hér nema örfá orð. Og ég ætla ekki að fara að blanda mér í deilur þeirra hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. Sunnl. Það er þó talsvert margt, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh., sem gæfi tilefni til athugasemda. Hann t.d. varpaði því fram, að nú sé ekkert framboð af jörðum, og lá í orðunum, að það væri af því, að menn kærðu sig ekkert um það að hverfa frá búskap og hverfa að öðru. En af hverju skyldi það nú vera m.a., að menn hyggja kannske minna á það að fara úr sveitum í kaupstað heldur en áður. Ætli það gæti ekki átt einhvern þátt í því, það almenna ástand, sem orðið er í landinu, og það atvinnuleysi, sem nú er ríkjandi í bæjunum, og stafar að nokkru leyti af minnkandi afla, en að öðrum þræði og tvímælalaust að langmestu leyti af þeirri fáránlegu stjórnarstefnu, sem m.a. birtist í því, að þrátt fyrir stórkostlega þverrandi útflutningstekjur frá því sem var á toppárunum, þá má ekki hreyfa legg eða lið til þess að stjórna í neinu innflutningi eða fjárfestingarmálum.

Hæstv. ráðh. talaði um, hvað bændur búi við góð lánakjör. Mér þykir ótrúlegt, að það þekkist hér í nálægum löndum, að ætlazt sé til þess að í landbúnaðinum séu byggðar varanlegar byggingar og lánað til þeirra til 20 ára, ég efast um það. Og hvað sem því líður, þá sér það hver maður, sem nokkur kynni hefur af íslenzkum landbúnaði, að þetta er auðvitað óbærilegt. Raunverulega er þetta ekki hægt, þó að menn píni sig til þess, með því að neita sér um margt í daglegri neyzlu, það er raunverulega ekki hægt að byggja upp í sveitum á þann hátt að greiða vandaðar og varanlegar byggingar upp á 20 árum. Þetta er óframkvæmanlegt. Og þeir vextir, sem nú eru teknir að viðbættu stofnlánagjaldinu, þetta er náttúrlega alveg óviðráðanlegt fyrir atvinnuveg eins og landbúnað, sem aldrei skilar skjótfengnum arði, heldur þarf að byggja sig upp á lengri tíma.

Það má auðvitað margt ræða um uppbyggingu Stofnlánadeildarinnar. Lánaskatturinn er af bændunum tekinn sem persónulegt gjald. Hann er tekinn af þeirra eigin tekjum, á sama tíma og skattur til lánasjóða annarra atvinnuvega kemur ekki fram sem skattur á persónulegar tekjur þeirra, sem þann atvinnurekstur stunda. Inn á þessa hluti ætlaði ég nú ekkert að fara í þessum fáu orðum. En ég vildi leggja áherzlu á það, að efnahagsástandið í landbúnaðinum er alvarlegra heldur en hæstv. ráðh. vill vera láta, og af þeim sökum þá óttast ég það, og ég raunar er þess fullviss, að þetta frv. gengur of skammt, og það þyrfti og ætti að athuga það nokkru nánar. Og ég vildi nú leyfa mér að vænta þess að tóm gæfist til þess hér í hv. deild og í þeirri hv. nefnd, sem fær málið til meðferðar, að taka það til raunverulegrar athugunar, ekki þeirrar, sem venjulegast er um hönd höfð á stjórnarfrv., þar sem ekki má breyta einu eða neinu, heldur til raunverulegrar skoðunar. Og að það yrði þá íhugað vandlega, hvort ekki væri hægt að gera einhverjar þær breytingar á frv., sem gerðu það að verkum, að áhrif þess yrðu nokkru víðtækari og að því yrði nokkru meiri hjálp heldur en líklegt má telja, að verði með samþykkt þess alveg nákvæmlega í því formi, sem það er núna. Ég held, að það sé ekki alveg rökrétt hjá hæstv. ráðh. að vitna eins einhliða til afgreiðslu lausaskuldamáls fyrr, þ.e.a.s. árið 1962. Ég held, að það sé ekki alveg rökrétt vegna þess að það eru svo gerólíkar ástæður í peningamálunum núna, gerólíkar því sem þá var, og miklu þrengra á peningamarkaðinum en þá.