10.04.1969
Neðri deild: 75. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð þannig sögð, sem ekki gefa sérstakt tilefni til þess að halda umr. áfram, þó að ég út af fyrir mig hafi ekkert á móti því. En ég hef nú samt áhuga fyrir því, að málið komist til nefndar sem fyrst, og þá er tækifæri við tvær umr. seinna að tala. En í sambandi við þessi 77.7%, sem ég minntist á, þá vil ég geta þess, að í skýrslunni margnefndu er hér talað um svokallaðan A-flokk, sem er 77.7% af bændum, og þeir skulda minna en einfaldar brúttótekjur. Þeir skulda kannske frá 1/4 og upp í 99% af brúttótekjum. Og það er talið, að þeir, sem skulda ekki meira en þetta, séu vel settir. Reynslan sker náttúrlega úr því.

Hv. 5. þm. Austf. talaði um áburðarkaupin að þessu sinni, og það er vitað mál, að viss hluti bændastéttarinnar á í erfiðleikum með að kaupa áburðinn að þessu sinni, viss hluti. Og vissulega bæri mikið á því, ef 10% af bændunum eða 9.5%, sem eru taldir illa settir, væru í erfiðleikum með að kaupa áburðinn. En það er sá hluti, sem talið er, að sé í erfiðleikum, þótt 3.4% skeri sig alveg úr. Það er verið að gera ráðstafanir til þess, að Áburðarverksmiðjan fái aukin lán til þess að geta gefið almennari fyrirgreiðslu og gjaldfrest við áburðarkaupin að þessu sinni. Og vissulega hækkar áburðurinn mikið nú. Hann hækkar um 34.8% að meðaltali, sem eru óhjákvæmileg vegna gengisbreytingarinnar. Þetta er mikil hækkun. Það kom nú bóndi að máli við mig fyrir stuttu og ræddi um áburðarkaupin, og ég yfirheyrði hann, hvað hann hefði framleitt árið, sem leið. Við reiknuðum út, hvaða hækkanir hann hefði fengið frá því í fyrra, og hvað tekjurnar hefðu aukizt vegna verðhækkananna. Og við komumst nú að þeirri niðurstöðu, að sá bóndi, sem telst svona í meðallagi, hafi fengið verðhækkanir á mjólk og kjöti til þess að geta keypt áburð og fóðurbæti og aðrar nauðsynjar. En vitanlega liggur í augum uppi, að þeir, sem verst eru settir, verða þarna í einhverjum erfiðleikum.

Ég hafði hugsað mér að halda þessum umr. ekki við, en ég kemst ekki hjá að minnast á aðeins eitt, sem hv. 2. þm. Sunnl. sagði hér áðan. Hann fullyrti það, að það væri alltaf að aukast bilið á milli stéttanna, og þeir fátæku yrðu fleiri og þeir auðugu yrðu fleiri. Það er bezt að vera ekki með neinar fullyrðingar um þetta hér, því að ég hygg, að við vitum nú þetta ekki vel, hvorugur okkar. En ég á ósköp bágt með að trúa því, að hinum auðugu sé svo mikið að fjölga núna. Hinir auðugu hafa verið taldir vera í kaupsýslustétt eða útgerð, en maður hefur nú lesið um það í flestum dagblöðum og einnig í málgagni Framsfl., a.m.k. að það blési ekki byrlega fyrir kaupstéttina. Og við vitum, að útgerðin hefur átt í erfiðleikum vegna verðfalls og aflatregðu. Vonandi fer það að lagast nú með auknum afla. Og svo er það með 8 stunda vinnuna. Það hefur aldrei verið hægt að lifa góðu lífi með aðeins 8 stunda vinnu hér á landi, ekki fram að þessu. Vonandi verður það. Vonandi verður það með aukinni tækni og auknum afköstum í krafti tækninnar, að við getum stytt vinnutímann og bætt lífskjörin með því móti. Og það ber vitanlega að stefna að því, að það sé hægt að lifa góðu lífi með 8 stunda vinnu.