21.04.1969
Neðri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

177. mál, breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Landbn. tók þetta frv. strax til umr. og afgreiðslu, þegar henni hafði borizt það, þar eð allir nm. voru sammála um það, að flýta bæri afgreiðslu á þessu frv., þó að þeir væru hins vegar ekki að öllu leyti sammála um efni þess.

Eftir 1. umr. um þetta frv. hér í d. kynnti ég mér eftir föngum skýrslu harðærisnefndar og sannfærðist um af lestri hennar, að sú nefnd hefur unnið gott verk og þarft og á þakkir skilið fyrir, hvernig hún hefur lagt þetta mál fyrir að aflokinni sinni athugun. Einnig ber að þakka hæstv. landbrh. fyrir það að hafa látið þessa athugun fara fram, og koma þessu frv., sem hér um ræðir, af stað. Á athugun harðærisnefndarinnar byggist þetta frv. og þær till., sem í því felast. Hver sá, sem blaðar í þessari skýrslu, verður margs vísari um hag og kringumstæður bænda í landinu árið 1967, en það er unnið upp úr skattframtölum fyrir það ár. Bæði er hægt að mynda sér glögga heildarmynd af ástandi þá í landinu í heild, eins og ég sagði, og einnig um kringumstæður og ástand í einstökum byggðarlögum. Fram kemur, að ástæður bænda í landinu og skuldir fara minna eftir því en ég hugði, hvernig byggðarlögin eru sett. Hin hlýrri svæði landsins og veðurbetri eru undarlega lítið betur á vegi stödd heldur en mörg hin lakari að þessu leyti.

Unnið hefur verið úr, eins og raunar hefur komið hér fram áður, 6129 skattframtölum bænda og búandi manna. En aðeins 4769 framtöl hafa verið tekin til sérstakrar úrvinnslu til að finna út ástand og hag hinna eiginlegu bænda. Hinir, sem ekki eru með teknir, eru með annað tveggja svo lítil bú, að vart er hægt að miða við þau vegna þess, að þau geta ekki gefið viðunandi lífsafkomumöguleika, eða þá að þeir bændur, sem eru í þessum hópi, hafa ekki aðalframfæri af landbúnaði. Meðaltekjur þessara 4769 bænda, sem full athugun nær til þetta ár, hafa verið 123 þús. kr., hæst í sýslu 177 þús., en lægst 80 þús. Brúttótekjur bændanna þetta ár hafa orðið að meðaltali 400 þús. kr. og teljast nettótekjur vera um 30.8% af því. Þar sem útkoman er verst, hefur þetta hlutfall farið niður í 10%. Nokkur hópur bænda virðist því hafa nettó í kringum 40 þús. kr. Og þegar á það er litið, að sumir þessir bændur eru einmitt þeir skuldugustu, sést vitanlega, að útkoma hjá þeim er mjög bágborin. Á þessu sést einnig, að tilkostnaðurinn við búrekstur er yfirleitt of mikill, þar sem svona lítið hlutfall kemur út sem nettó, og er það athugunarefni út af fyrir sig, sem ekki verður farið hér út í.

Lítum svo lauslega á skuldir þessara 4769 bænda. Sést þá, að þær eru 1250 millj. og þar af lausaskuldir hátt á 5. hundrað millj. Rúmlega 2700 bændur telur nefndin vel stæða eða um 57.6% bændanna. Lakast ástand að þessu leyti er í Dalasýslu, 53%, Norður-Múlasýslu 52.9% og Vestur-Skaftafellssýslu 52% og Snæfellsnessýslu 50.2%. En hagstæðast í Vestur-Ísafjarðarsýslu, Kjósarsýslu og Suður-Þingeyjarsýslu. Eins og fyrr segir, telur nefndin um 57.8% bændanna hafa góðan efnahag, en aftur á móti um 3.4% búa við vonlausa aðstöðu að áliti nefndarinnar eða um það bil 160 bændur. Skuldir þeirra að meðaltali eru 725 þús.

Til að glöggva sig á, hvaða eignir koma á móti þessari skuldabyrði, 1250 millj., kannaði nefndin eignir bændanna, lausar og fastar, og færði þá fasteignirnar til virðingarverðs, er hún setti á þær sjálf með hliðsjón af hinu nýja fasteignamati, sem nú er að miklu leyti lokið. Upplýsingar fékk hún hjá yfirfasteignamatinu. Er meðalverð jarða samkv. því hæst í Borgarfjarðarsýslu, 998 þús., lægst í Norður-Múlasýslu 445 þús. En meðalverð yfir landið allt er 687 þús. Þess ber að geta, að nefndin fór ekki að öllu leyti eftir því, sem fyrir lá hjá fasteignamatinu, heldur hafði hliðsjón af því og færði matið víða niður um 10 og jafnvel upp í 40% eftir staðháttum. Brúttóeign á bónda í landinu virðist vera 1 millj. 48 þús., hæst í Borgarfjarðarsýslu 1431 þús., lægst í Strandasýslu 714 þús. Þegar svo skuldabyrðinni er deilt á alla bændur, reynist hún 262 þús., þar af 103 þús. lausaskuldir. Eignin hins vegar, eins og ég sagði áðan og verður þá skuldlaus eign að meðaltali 778 þús. Nú ber þess að geta, að skýrslan er tekin saman eftir framtölum 1967. Næst liðið ár, 1968, reyndist mjög erfitt vegna vorkulda og túnskemmda af völdum kals. Fóðurkaup urðu ægilega mikil, þar sem enginn gróður kom í stórum hlutum landsins fyrr en undir miðjan júlí og sums staðar síðar, en alls staðar seint. Í slíku árferði hefði orðið stórfellir fyrir nokkrum áratugum, en svo er fyrir þakkandi, að þrátt fyrir þetta urðu fénaðarhöld alls staðar, sem ég til veit, ágæt. En víst er, að víðast eða alls staðar á landinu varð af þessum sökum mikil skuldasöfnun vegna óvenjulegra fóðurkaupa. Má því fullyrða, að ástandið hafi versnað síðan, einkum á kalsvæðunum, þó að Bjargráðasjóður hafi hlaupið þar mikið undir bagga síðan hann var efldur 1967 og 1968.

En þó að svo sé, að ástandið sé nú eitthvað lakara en skýrsla harðærisnefndar sýnir, þá fæ ég ekki betur séð en um það bil 2/3 eða jafnvel 3/4 bænda séu mjög sæmilega á vegi staddir efnalega. Hinir eru misjafnlega illa á vegi staddir og er mjög mikil þörf að létta þeim róðurinn með einhverju móti. Að sjálfsögðu þykja meðaltekjur á íslenzku bændaheimili lágar, eða 123 þús. En þess ber að geta, að tekjur bænda hafa alltaf verið lágar og hefur oft verið til þess vitnað, þó að þær hafi farið hækkandi miðað við aðrar stéttir nú í seinni tíð, sérstaklega á árunum 1965-1966. En lágar tekjur hafa venjulega enzt furðuvel á sveitaheimilunum. Bóndinn og börn hans og kona eru ekki alltaf á bíórápi eins og fólk á sumum heimilum í þéttbýlinu, og krakkarnir standa ekki heldur við sjoppuopin og maula sælgæti eða drekka gos. Konan bakar brauðið og saumar flíkurnar og sparar þannig mjög mikinn pening og á bændaheimilum eru ekki keyptar ónýtar sokkabuxur á kvenfólkið fyrir fleiri þús. kr. á ári. Og bændaheimilin þurfa ekki heldur að kaupa sumar vörur með álagningu 25–30% eins og til að mynda kjötvörur. Og þetta fólk er ekki heldur tíðir gestir á Hótel Sögu né í Þjóðleikhúsinu. Og fáum dettur í hug að kaupa svo smátt til búsins í einu, að það nægi aðeins til einnar máltíðar, eins og algengt er í kaupstöðunum.

Á þessa leið mætti margt fleira upp telja, sem gerir það skiljanlegra, að sveitaheimilin komast af með svona lágar tekjur. Þessir útreikningar munu vera mjög nærri lagi. Minni hl. landbn. þykir þetta frv. ganga of skammt. Það höfum við heyrt svo oft áður um frv., sem ríkisstj. ber fram, að það er ekki hægt að kippa sér verulega upp við það.

Aðalatriðið, sem minni hl. bendir á á þskj. 467 og 468, er það, sem allir vita nú og máttu vita, að nokkuð á annað hundrað bænda skulda það mikið, að þetta frv. leysir ekki þeirra vandræði. Á öllum tímum hafa verið til bændur, sem kunnu verr að búa heldur en þeir bændur, sem betur búa. Á öllum tímum hafa verið til bændur, sem hafa orðið heylausir á undan öllum öðrum og er það ekki nema það, sem auðvitað er um þessa stétt, að fólkið sé misjafnt þar eins og annars staðar, og er bændastéttin því ekki neitt sérstök að því leyti nú, að í hennar hópi séu of margir einstaklingar, sem eru það skuldum vafnir, að þetta frv. geti ekki leyst þeirra vandræði. En það fjallar aðeins um það að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Hitt er svo annað mál, að það er nauðsynlegt að leysa vandræði þessara bænda á einhvern annan hátt, en það er flókið mál og ekki þægilegt viðureignar, og verður sjálfsagt ekki gert með einni aðgerð eða tveimur, heldur með fleiri aðgerðum og er sjálfsagt ekki hægt við öðru að búast en einhverjir þessir bændur verði að hætta búskap eins og aðrir atvinnurekendur sínum rekstri, sem lenda í vandræðum og stórskuldum með sinn atvinnurekstur. Tel ég því þetta atriði vera utan við það hlutverk, sem landbn. hefur, þegar hún fjallar um þetta frv. sérstaklega. Og þar sem nú er mjög liðið á þingtíma, hygg ég, að það sé ekki skynsamlegt að blanda öðru máli inn í þetta frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa öllu fleiri orð um þetta frv. hér í framsögu fyrir nál., en e.t.v. kemur eitthvað það fram í þessum umr., sem orsaki það, að þær lengist. Legg ég svo til fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar, að frv: verði samþ. óbreytt.