22.10.1968
Efri deild: 5. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

16. mál, tilkynningarskylda íslenskra skipa

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta um heimild til útgáfu reglugerðar um tilkynningarskyldu íslenzkra skipa er flutt til staðfestingar brbl., sem út voru gefin 17. maí s.l. að till. minni. Um langt árabil hafa verið uppi kröfur af hálfu þeirra samningsaðila, sem að samningum við sjávarútveginn standa, að upp væri tekin tilkynningarskylda íslenzkra skipa. Sér í lagi hefur Slysavarnafélag Íslands beitt sér fyrir kröfugerð í þessa átt um langt árabil. Það hefur ósjaldan borið við, að kunnugir hafa talið, að með slíkri skyldu hefði e.t.v. mátt fyrirbyggja ýmsar slysfarir, sem átt hafa sér stað við sjávarsíðuna á undanförnum áratugum. Það er ástæðan til þess, að rétt þótti að gefa út þessi brbl. Ég vil enn fremur geta þess, að Slysavarnafélagi Íslands hefur í samstarfi við landhelgisgæzluna verið falin framkvæmd þessara laga, og hefur þessi tilkynningarskylda þegar verið upp tekin.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.