02.12.1968
Efri deild: 20. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

16. mál, tilkynningarskylda íslenskra skipa

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að skýra hv. þd. frá því, að síðan 2. umr. þessa máls fór fram, hefur sjútvn. talað við fulltrúa Landssímans og Slysavarnafélagsins um kostnaðinn af tilkynningarskyldunni. Við urðum varir við greinilegan vilja til samstarfs um hagræðingu á skeytasendingunum, þannig að af þeim yrði ekki óþarfur kostnaður, en þær kæmu þó áfram að fullum notum, og ég vil segja fyllri notum en hingað til með því að þátttaka verði almennari en hún hefur verið. N. er sammála um að beina því til hæstv. ríkisstj., að hentast væri að innheimta þann kostnað, sem bátunum er gert að greiða, sem viðauka við talstöðvargjald bátanna til Landssímans, og er það álit okkar í n., að 1500–2000 kr. á bát ætti að vera hæfileg þátttaka þeirra í þessum kostnaði. Vona ég, að þessar umr. n. við framkvæmdaaðila málsins verði til þess að leysa þann hnút, sem hefur myndazt á Vestfjörðum sérstaklega í sambandi við framkvæmd málsins, og legg ég því til, að málið verði afgreitt frá hv. þd., eins og það liggur fyrir.