10.04.1969
Efri deild: 71. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

5. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Skömmu eftir að þing kom saman fyrst, var þetta frv. flutt, sem hér er til umr., um veitingu ríkisborgararéttar til 13 tilgreindra einstaklinga, og var þessu frv. þá að lokinni 1. umr. í hv. d. vísað til allshn. N. hefur að vanda í svona málum, um veitingu ríkisborgararéttar, farið hægt í sakirnar, því að venjan er sú, að meðan þing situr, eru sífellt að berast fleiri umsóknir, sem koma til dómsmrn. og síðan berast til skrifstofu Alþ., enda varð sú raunin á að þessu sinni. Sá háttur var líka hafður á, eins og áður, að allshn. beggja d. störfuðu saman að því að fara yfir þessar umsóknir, þ.e.a.s. það voru kosnar undirnefndir, sem unnu saman að því að fara yfir umsóknir bæði frá þeim 13 einstaklingum, sem frv. greinir, svo og aðrar umsóknir, sem hafa borizt í vetur. Fyrir utan þessa 13, sem frv. greinir um, bárust umsóknir frá alls 34 einstaklingum, og við athugun á þeim voru 30 teknar til greina, en 4 var hafnað og að ég hygg einvörðungu af þeim ástæðum, að það skorti á dvalartíma, og líklegt er, að þeir einstaklingar, sem þar eiga hlut að máli, geti öðlazt ríkisborgararétt á næsta ári. Það var því niðurstaðan í allshn. að leggja til þá brtt. við frv., sem kemur hér fram á þskj. 411, en þar eru nöfnin orðin 43 í staðinn fyrir 13, þ.e.a.s. það hefur 30 nöfnum verið bætt við þessi upphaflegu 13 nöfn. Ég get að lokum getið þess, að n. hefur að sjálfsögðu farið eftir sömu reglum um veitingu ríkisborgararéttar, eins og undanfarin ár. Hv. þm. þekkja þær reglur. Þær hafa iðulega verið prentaðar með nál., og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. séu þær flestar kunnar, þannig að ég þarf ekki að rekja efni þeirra, en frá þeim hefur ekkert verið vikið að þessu sinni. En ég endurtek svo, að það er till. allshn., samdóma till. hennar, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem um getur á þskj. 411.