22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

5. mál, veiting ríkisborgararéttar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég var því miður ekki staddur í d. í gær, þegar hv. þm. flutti þessa fsp., en ég frétti af henni nú á þessum fundi og gerði þegar í stað ráðstafanir til þess, að menntmrn. kanni, hvað líði störfum þeirrar n., sem ég á sínum tíma skipaði til þess að gera till. um nýja nafnalöggjöf. Ég hef þær upplýsingar því miður ekki hjá mér núna, þar sem ég hef ekki fengið svar við þessari spurningu, enda er ekki nema hálftími síðan ég bað um, að þetta yrði kannað. En ég skal með ánægju gefa annaðhvort þeirri n., sem um þetta mál fjallar hér, eða þá n. í Ed., fyrst málið er komið á lokastig í þessari d., þær upplýsingar, sem fáanlegar eru um það, hversu langt störfum n. er komið.

Ef svo væri, að hún gæti lokið störfum sínum áður en þessu þingi lýkur, skal ég að sjálfsögðu gera ráðstafanir til þess, að alþm. fái um það vitneskju í tæka tíð.

Að gefnu tilefni af hálfu hv. þm. vil ég ítreka, að ég er enn á nákvæmlega sömu skoðun og ég hef verið mjög lengi um það, að gildandi skipan í þessum efnum sé mjög óeðlileg og mjög óheppileg. Ég hef staðið að flutningi till. um breytingar á þessum ákvæðum áður fyrr oftar en einu sinni, en þær hafa aldrei náð samþykki hér á hinu háa Alþ. Mér vitanlega hefur ekki reynt á skoðun þm. um þetta eftir að núv. Alþ. var kosið, svo að verið getur, að þeir þm., sem nú eiga sæti á Alþ., hafi aðra skoðun á þessu máli en þeir, sem síðast og þar á undan áttu sæti hér í þessari virðulegu stofnun. Það kann því vel að vera ástæða til þess að kanna, hver skoðun núv. alþm. er á þessu máli. En í öllu falli hygg ég, að heppilegast sé að kanna það fyrst, hvað líði störfum þessarar n., og það skal ég gera og láta annarri hvorri menntmn. þingsins í té upplýsingar um það hið allra fyrsta.