25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

192. mál, Landsvirkjun

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hér höfum við nú mátt hlýða á mann, sem þykist kunna að róa. Hér liggur fyrir frv. til l. um breyt. á l. um Landsvirkjun, og er verið að leita heimildar fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast lántöku vegna Landsvirkjunar í sambandi við stækkun á Búrfellsvirkjun, sem er í samræmi við það að flýta framkvæmdum við þá álbræðslu, sem þegar hefur verið samið um, um 3 ár. Þetta er það eina, sem hér er verið að tala um. Út af þessu kemur hv. 6. þm. Reykv. hér upp í ræðustólinn og heldur svo furðulega ræðu, að — ja, ég veit ekki, hvaðan hann hefur sínar upplýsingar eða hvað maðurinn er að tala um. Hann talar um hinar og þessar ráðagerðir ríkisstj. Hvar kemur það fram í þessu frv., eða hvar hafa þær komið fram? Hvar eru þessar ráðagerðir og ákvarðanir ríkisstj. um þessar stórvirkjanir, sem hv. þm. er að tala um? Þetta er allt út í bláinn, sem hann er að tala um. Hann er hér með hugaróra eins og hann oft endranær hefur verið með í sambandi við það, þegar rætt hefur verið um stórvirkjanir hér á landi, hreina og beina hugaróra. En þetta byggist allt á því, að þessi hv. þm. og hans flokksmenn hafa verið og eru sí og æ að reyna að læða því inn hjá almenningi í þessu landi, að það sé stefna ríkisstj., sem sé orsök þess atvinnuleysis, sem nú er, af því að ríkisstj. hugsi ekkert um annað er stórvirkjun og hafi ekkert gert til þess að efla aðrar atvinnugreinar. Á þessu er þrástagazt, þessari bölvaðri vitleysu liggur mér við að segja, í greinum hans í Þjóðviljanum og annars staðar í sumum stjórnarandstæðingablöðum.

Heldur hv. 6. þm. Reykv., að það hefði veiðzt eitthvað meiri síld í sumar, ef bygging álbræðslunnar hefði ekki staðið yfir? Heldur hann kannske, að það hefði haft einhver áhrif á borgarastyrjöldina í Nígeríu, þar sem markaðir okkar lokast, ef við hefðum ekki byggt hér álbræðslu og ekki hafið stórvirkjanir á Íslandi? Og heldur hv. þm., að togaraútgerðin hefði borið sig eitthvað betur á undanförnum árum, þó að þessar framkvæmdir hefðu ekki byrjað og ekki verið hafizt handa um þær? Auðvitað hafa þessar framkvæmdir, sem hér hefur verið rætt um, bæði Búrfellsvirkjun og álbræðslan, ekki á nokkurn hátt dregið úr áhuga og aðgerðum ríkisstj. til eflingar annarra atvinnugreina á landinu nema síður sé, heldur hafa þær þvert á móti skapað möguleika til eflingar þessara atvinnugreina, annarra atvinnugreina hér á landi.

Hv. þm. segir, að þó að þessar framkvæmdir nái fram að ganga, að reist verði stóriðjuver, sem fá orku frá Búrfellsvirkjun, einhver stóriðjuver, sem hann veit lítið um en einhver hefur verið að sprauta í eyrað á honum — ég veit ekki, hvar hann hefur fengið þessar höfuðsprautingar, sem eru orsök þessarar ræðu — þá mundi það ekki skapa atvinnu fyrir nema um 1000 manns. Auðvitað eru þetta staðhæfingar, sem þessi hv. þm. veit ekkert um, hve mikla atvinnu það mundi skapa, ef hér risu upp stórframkvæmdir svipað og álbræðslan í einhverjum öðrum efnaiðnaði, hvað sem það nú væri, sjóefnavinnsla, saltvinnsla, plastiðnaður, olíuvinnsla og annað slíkt, að það skapaði atvinnu bara 1000 manns. Þetta er hreint út í bláinn, þegar menn eru með slíkar hugleiðingar, og því verða menn að gera sér grein fyrir, að álbræðslan í Straumsvík skapar ekki atvinnu fyrir 500 manns. Það er sagt, að við rekstur, beinan rekstur sjálfrar álbræðslunnar þurfi um 500 manns, þegar hún er komin í full afköst. En það er hægt að færa mjög sterkar líkur að því, að það mundi í raun og veru þýða atvinnuaukningu fyrir 1500 manns, en ekki 500 manns, vegna þeirrar auknu atvinnu, sem þeir aðilar fá, sem annars væri ekki fyrir hendi, bæði verkstæðisvinnu, byggingarvinnu, sem fólkið getur lagt í, sem hefur þarna örugga og góða atvinnu, og fjölmargt annað í sambandi við hafnarframkvæmdir, hafnarvinnu, afskipanir og annað slíkt. Og það styðst við reynslu okkar Íslendinga af því á undanförnum a.m.k. 20–25 árum, að í hvert sinn, sem Íslendingar hafa aukið gjaldeyristekjur sínar, hreinar gjaldeyristekjur, hafa venjulega fjórfaldazt þjóðartekjurnar, sem því svaraði, og af álbræðslunni einni er, eins og nú standa sakir, líklegt, að hreinar gjaldeyristekjur verði yfir 700 millj. kr. á ári, og það mundi þýða þá samkv. þessu, sem reynsla okkar segir til um, um 2800 millj. kr. aukningu þjóðartekna á ári. En þessar auknu þjóðartekjur auðvitað dreifast um allt hagkerfið og skapa mikla atvinnu langt fyrir utan það fólk, sem beinlínis vinnur í sjálfri álbræðslunni.

Hv. þm. hefur hvað eftir annað talað um það, að ríkisstj. hafi ekki haft nein önnur iðnvæðingaráform heldur en stóriðjuna. Iðnþróunarráð, sem sett var á laggirnar fyrir tveimur árum síðan, hefur fjallað um fjölmörg iðnvæðingaráform, og fæst af þeim eða nokkur hafa verið um stóriðju, heldur um aðrar atvinnugreinar og iðjugreinar á Íslandi. Það má t.d. nefna í þessu sambandi, að það hefur verið unnið að því að rannsaka möguleikana á meiri skinnaiðnaði hér á landi, og það eru horfur á því nú, að við Íslendingar kannske innan mjög skamms tíma og m.a. vegna aðgerða ríkisstj. í efnahagsmálum höfum aðstöðu til þess að vinna að verulegu leyti úr okkar gærum, sem fram til þessa hafa að mestu leyti verið fluttar út óunnar og saltaðar. Hér er um stórkostlegan iðnað að ræða og á öðru sviði heldur en stóriðju. Það hefur verið að byggjast upp á undanförnum árum skipaiðnaður hér á Íslandi, stálskipasmíðarnar, sem ekki voru þekktar fyrir nokkrum árum. Þær hafa verið á hverju ári frá 1964 í fjáröflunaráformum og framkvæmdaáætlun ríkisstj., sem hefur stuðlað að því að koma þessum skipaiðnaði, dráttarbrautum og skipasmíðastöðvum upp, skipabyggingarstöðvum til að byggja stálskipin og dráttarbrautum til þess að hafa aðstöðu til viðgerðar á hinum nýja flota, sem við höfum eignazt á undanförnum árum. Í sambandi við þær viðræður, sem hér fóru fram við ríkisstj. og milli atvinnunefndanna úr hinum einstöku héruðum, komu auðvitað fram margir þættir hugsanlegrar iðnþróunar á undanförnum árum, sem verið er að vinna að, og sumt er um það bil verið að taka ákvörðun um í atvinnumálanefnd ríkisins í samráði við atvinnumálanefndir kjördæmanna. Allt stefnir þetta að almennri iðnþróun í landinu fyrir utan sjálfa stóriðjuna.

Það hefur lengi verið mikið áhugamál ríkisstj. að efla veiðarfæraiðnaðinn hér á landi. Hún hefur átt þar í vök að verjast og fengið lítinn stuðning, bæði hér í þingi og frá ýmsum öðrum aðilum. En það hefur verið hennar skoðun, og hún hefur gert margar ráðstafanir til þess, að það væri okkur mjög mikils virði, bæði frá atvinnulegu og þjóðhagslegu sjónarmiði, að hafa hér sterkan veiðarfæraiðnað í landinu. Svona mætti auðvitað lengi telja, og er ástæðulaust að vera að blanda því inn í þessar umr., en í sambandi við iðnaðarmöguleikana og iðnþróun almennt og í tengslum við EFTA hafa átt sér stað að undanförnu alveg sérstakar viðræður milli iðnmrn., viðskmrn. og samtaka iðnaðarins í landinu um ýmsar aðgerðir og ráðagerðir í sambandi við þá aðstöðubreytingu, sem kynni að hljótast af þátttöku okkar í EFTA, og einnig hafa aðrar aðgerðir og tilraunir af hálfu ríkisstj. átt sér stað til þess að styrkja aðstöðu iðnaðarins, ef að því kæmi. Þetta vil ég aðeins segja til þess að árétta það, að þetta er eins og hver önnur markleysa, þegar hv. þm. er hér að tala um það, að ekki nokkrum sköpuðum hlut öðrum sé sinnt og það sé vegna þess, að engu öðru sé sinnt og aðeins horft á stóriðju, sem atvinnuástandið í landinu er eins og það er í dag. Ég leyfi mér að halda, að atvinnuástandið á s.l. ári sé með nokkuð öðrum hætti hér einmitt vegna þess, að þrátt fyrir andstöðu Magnúsar Kjartanssonar, hv. 6. þm. Reykv., og annarra hans flokksbræðra var hafizt handa um byggingu álbræðslu og stóriðju í tengslum við hana, þá hafi atvinnuástandið verið með nokkuð öðrum hætti á s.l. árum, og sérstaklega á s.l. ári, heldur en ella hefði verið. Og sú ákvörðun ríkisstj. að reyna að hraða þessum framkvæmdum, sem áður hefur verið samið um, þannig að full afköst verksmiðjunnar verði fyrir hendi þremur árum fyrr en ella, miðar náttúrlega að því tvennu að taka til sín meira vinnuafl á skemmri tíma en ella væri og einnig hinu, að þetta er mjög hagkvæmt, eftir því sem útreikningar liggja fyrir, fyrir Landsvirkjun, að þessi hraði eigi sér stað, og hún verður þess vegna fyrr hagkvæmara fyrirtæki heldur en verða mundi, og loksins verða tekjurnar gífurlega miklu meiri af álbræðslunni, því fyrr sem hún kemst í full afköst, eins og hæstv. raforkumálaráðh. benti á, og það hefur auðvitað verulega þýðingu fyrir Atvinnujöfnunarsjóðinn, sem hefur innan tíðar 75–76% af tekjunum af skattgjaldi álbræðslunnar, og með þeirri aukningu, sem þarna yrði komið á, kæmi það þremur árum fyrr en ella til framkvæmda, að það mundi nálgast eða vera rúmlega 100 millj. kr. árlegt framlag, sem sjóðurinn á sjálfur og fengi af álbræðslunni, og eins og bent hefur verið á hækkar þetta eftir að afskriftatíminn er liðinn, sem talinn hefur verið 15 ár, og þá yrðu tekjurnar með 60 þús. tonna afköstum á 3. hundrað millj. kr. á ári. Ef þessi afköst, sem vikið hefur verið hér að, yrðu aukin upp í 86–90 þús. tonn, þá er þarna um nærri 50% aukningu að ræða, sem sjálfsagt mundi lyfta mikið undir virkjunarframkvæmdirnar og einnig skapa gífurlega mikið meira fé til atvinnujöfnunar og atvinnuaukningar fyrir utan það, sem Atvinnujöfnunarsjóður hefur til framkvæmda og til meðferðar. Þessi stækkun, sem hér hefur verið vikið að, fram yfir 60 þús. tonna afköstin, sem upphaflega var gert ráð fyrir og er samið um í aðalsamningnum um álbræðsluna við Svisslendinga, hefur aðeins komið til viðræðu nú fyrir örfáum dögum, þegar fulltrúar Íslendinga áttu viðræður um stækkun verksmiðjunnar á þremur árum í staðinn fyrir 6. Það mál er algerlega órætt enn þá, bæði raforkuverð og með hverjum öðrum hætti því yrði fyrir komið. Það liggur hins vegar fyrir að taka það mál til athugunar og meðferðar, og er gert ráð fyrir, að forstjórar svissneska fyrirtækisins muni verða hér á ferðinni í lok aprílmánaðar til þess að ræða það mál nánar, eftir að ríkisstj., núna þegar þessi hugmynd hefur verið sett fram um þessa aukningu, hefur haft aðstöðu til þess að átta sig betur á henni.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði líka, að við værum ekki aðilar að álbræðslu, og það er að því leyti rétt, að Íslendingar eiga ekkert í álbræðslunni. En þeir hafa aðild að álbræðslunni bæði með því móti, að ríkisstj. nefnir tvo fulltrúa í stjórnina, og auk þess eru þar fyrir utan þrír aðrir Íslendingar í stjórn fyrirtækisins, þ.e.a.s. 5 Íslendingar af 7, sem eru í stjórn Íslenzka álfélagsins. En það vil ég aðeins minna á, af því að Norðmenn voru nefndir einmitt í þessu sambandi, að áður en samningurinn var gerður átti ég sérstakt erindi til Noregs til þess að ræða við menn þar í landi um, hvaða ráðleggingar þeir vildu gefa okkur um það, hvort við ættum að stefna að því beinlínis að vera aðilar — þá á ég við eigendur — að einhverju leyti að þessari álbræðslu eða gera samningana í því formi, sem raun varð á, og allir þeir aðilar, sem ég talaði við þá í Noregi — og Norðmenn hafa sjálfir haft töluvert með álbræðslur að gera, sem þeir reka sjálfir og reka líka í samvinnu við útlendinga — töldu það miklu ráðlegra fyrir okkur að hafa þann hátt á, sem við höfðum, í stað þess að vera að einhverju leyti lítill aðili í einni álbræðslu, sem er þó ekki nema einn hlekkur í langri framleiðslukeðju í sambandi við álvinnslu, í fyrsta lagi bauxítvinnslu, sem er nú unnin í þessa verksmiðju kannske að mestu leyti suður í Ástralíu, svo að öðru leyti þá hráálsframleiðslu, sem hér er um að ræða, og síðan álvinnslu og sölu á heimsmarkaðinum. Um þetta var auðvitað álitamál, og við þurftum að gera okkur grein fyrir því, hvað við teldum ráðlegast í þessu sambandi, og niðurstöður okkar einmitt eftir að hafa kynnt okkur ýmsar misfellur og árekstra, sem Norðmenn höfðu þurft að reyna með sameiginlegri þátttöku í álbræðslum við Svisslendingana reyndar og aðra, ýttu undir okkur að vilja heldur hafa það form á, sem álsamningurinn, sem gerður var 1966, ber vitni um. En það var þó í álsamningnum líka samið um það og rætt um það oft undir samningsgerðinni, að ef Íslendingar óskuðu þess, vildu Svisslendingar leggja af mörkum bæði tæknilegar ráðleggingar og vera e.t.v. aðilar, ef þess væri óskað af Íslendingum, að byggingu nýrrar álbræðslu, t.d. á Norðurlandi. Það hefur ekki orðið praktískt enn þá, og við höfum ekki óskað eftir því að svo komnu. En það getur fleira komið til álita, og ég held einmitt, að það geti vel komið til álita, að við gætum að einhverju leyti orðið aðilar að álbræðslu hér eftir þá reynslu, sem við höfum fengið, og þá þekkingu, sem við höfðum enga áður, af hráálsframleiðslu, þegar álbræðslan hér í Straumsvík hefur hafið starfsemi, og e.t.v. í samvinnu við Svisslendingana eða einhverja aðra. Það var rætt um þennan hugsanlega möguleika líka, og ég nefni það enn vegna þess, að það er sagt, að við höfum aldrei hugleitt það. Það var rætt um það á árinu 1965, þegar var rætt við amerískt álfyrirtæki, þá að eiga bræðsluna með þeim eða við hreinlega einir ættum bræðsluna, þeir fjármögnuðu bræðsluna að öllu leyti og gerðu samning við okkur um kaup á allri framleiðslunni. Þetta er líka hugsanlegur möguleiki. Þennan möguleika ræddum við þegar á árinu 1965 og höfnuðum honum, völdum heldur þann möguleika, sem mönnum er nú kunnugt um. Þetta segi ég aðeins vegna þess, að því er haldið fram hér, að það hafi aldrei neinar tilraunir verið gerðar til þess að verða aðilar að álframleiðslu af hálfu okkar Íslendinga.

Það getur vel verið, að eðlilegt væri að ræða undir svona máli um ýmis atriði, sem hv. þm. vildu spyrja um, og ráðagerðir og hugsanlega möguleika. En ég teldi nú, að það væri þá eðlilegast, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, fengi nánari upplýsingar, ef hún óskaði eftir því, en þetta mál er auðvitað ákaflega takmarkað og gefur auðvitað ekki tilefni til almennra umr. um iðnþróun, stóriðjuþróun eða aðra þróun hér á landi.

Ég vil svo aðeins að lokum geta þess, að í stað þess, eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði, að ríkisstj. væri búin að taka einhverjar ákvarðanir um þessar og þessar stórvirkjanir í sambandi við Búrfellsvirkjun, þá er það síður en svo. En hins vegar hefur ríkisstj. sett á laggirnar samvinnunefnd um orkuvinnslu og orkumöguleika Íslendinga í tengslum við stóriðju og aðra iðnþróun á landinu nú ekki alls fyrir löngu. Þessi n. hefur haldið 1. fund sinn fyrir rúmum mánuði síðan, og annar fundur þessarar samvinnunefndar um orkumál og iðnþróun í landinu er núna ákveðinn á fimmtudaginn kemur, en það undirstrikar einmitt það, að iðnþróunarráði þótti ekki vettvangur til þess að taka orkuvinnsluna í sambandi við stóriðju til meðferðar, heldur þyrfti að skapa þar samvinnu milli þeirra aðila, sem um þau mál fjölluðu á rannsóknarstigi, tilraunastigi, og svo á hagnýta sviðinu, þegar þar að kæmi, Rannsóknaráðs ríkisins, Seðlabankans, Landsvirkjunar, Orkustofnunar ríkisins, Laxárvirkjunar og þessara aðila og iðnmrn., sem eiga aðild að þessari samvinnu. Ég held, að það væri miklu vænlegra, í staðinn fyrir að vera með sleggjudóma og getsakir um eitt og annað í málum eins og þessu, að þau væru rædd á þeim vettvangi, þar sem þau ættu að ræðast, og þá með þeim hætti, að hv. þm. gæfist kostur á að gera sér einhverja efnislega grein fyrir því, sem þeir eru að segja, en ekki bara vaða reyk og segja hvað eftir annað eitt og annað út í loftið, sem hefur ekki við nokkur rök að styðjast. En það getur vel verið, að við þurfum að búa við það áfram, að þetta verði sami hátturinn hjá þessum hv. þm., 6. þm. Reykv., því að í hvert skipti, sem minnzt er á atvinnuþróun, og ef hún á að vera eitthvað í tengslum við erlenda aðila, umhverfast þessir menn. Það gerir lítið til. Ég held, að almenningur í landinu sé farinn að átta sig á því, að það verður ekki þetta róðrarlag, sem bætir atvinnuleysið eða skapar raunhæfa og hagkvæma iðnþróun í landinu í framtíðinni, heldur að menn hafi áræði til þess að eiga samvinnu við aðra aðila, bæði tæknilega og efnahagslega, og byggja upp alhliða iðnþróun í landinu, sem unnið hefur verið að, bæði í sambandi við orkuvinnslu, stóriðju og almenna iðnþróun, sem síður en svo hefur setið á hakanum að undanförnu, og bera ákvarðanir ríkisstj. í svo fjölmörgum málum vitni um það og aðgerðir hennar í efnahagsmálum að undanförnu og á s.l. hausti, sem eru beinlínis grundvöllurinn að nýrri iðnþróun í landinu.