14.04.1969
Efri deild: 73. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

192. mál, Landsvirkjun

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið samþ. í hv. Nd. og er nú hér til 1. umr. Samkv. 1. gr. er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán, sem Landsvirkjun tekur til virkjunar við Búrfell, að fjárhæð allt að 3128 millj. kr. eða 35.5 millj. dollara eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri erlendri mynt. Ábyrgðin skal vera með þeim kjörum og skilmálum, sem ríkisstj. ákveður, og tekur hún jafnt til greiðslu afborgana, vaxta og annars kostnaðar.

Í samningi ríkisstj. og Swiss Aluminium frá 28. marz 1966 um álbræðslu í Straumsvík er gert ráð fyrir því, að bræðslan verði reist í þrem áföngum, þannig að í fyrsta áfanga verði afköst hennar 30 þús. tonn af áli, en í öðrum 45 þús. tonn og þeim þriðja 60 þús. tonn. Samningurinn gerir enn fremur ráð fyrir því, að 1. áfanga sé lokið 1969, 2. ekki síðar en 1972 og þeim 3. ekki síðar en 1975, nema aðilar verði ásáttir um annað. Eftir samningsgerðina þótti fljótlega sýnt, að tveim síðustu áföngum bræðslunnar yrði flýtt, og eru nú allar horfur á því, að hún verði komin í fulla stærð árið 1972, sem er þrem árum fyrr en umræddur samningur gerði ráð fyrir. Áætlanir um Búrfellsvirkjun miðast við það, að fyrri virkjunaráfanganum, sem er 105 megawött, ljúki á þessu ári um leið og 1. áfanga álbræðslunnar, en aflþörf hans er 60 megawött, og síðari virkjunaráfanganum áður eða um leið og álbræðslan er komin í fulla stærð, en þá er virkjunin 210 megawött og aflþörf bræðslunnar 120 megawött. Eigi bræðslan að geta verið komin í fulla stærð 1972, er því nauðsynlegt að ljúka báðum áföngum Búrfellsvirkjunar fyrir þann tíma, og hefur þegar verið að því stefnt með því að flytja hluta af framkvæmdum seinni virkjunaráfangans yfir á þann fyrri.

Í 1. mgr. 15. gr. l. um Landsvirkjun er nú fyrir hendi heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán, sem Landsvirkjun tekur til virkjunar við Búrfell, að fjárhæð allt að 1204 millj. kr., 28 millj. dollara eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri erlendri mynt. Þessi fjárhæð er 2467 millj. kr. á núgildandi gengi. Með frv. þessu er lagt til, að umrædd heimild verði hækkuð um 661 millj. kr. eða 7.5 millj. dollara, vegna lána, sem nauðsynlegt er að taka vegna seinni áfanga virkjunar við Búrfell. Að fenginni þessari hækkun yrðu fyrir hendi ríkisábyrgðarheimildir samkv. 15. gr. l. að fjárhæð alls 3128 millj. kr. eða 35.5 millj. dollara, en eins og fram kemur í aths. við þá grein í landsvirkjunarlögunum er núverandi fjárhæð greinarinnar aðeins miðuð við lántöku vegna stofnkostnaðar við fyrstu framkvæmdir í þágu Búrfellsvirkjunar.

Af þessum ástæðum er frv. flutt, og tel ég, herra forseti, ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það að sinni, en legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn., held ég.