25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

140. mál, vöruhappdrætti Sambands íslenskra berklasjúklinga

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í grg. fyrir frv. því, sem hér liggur fyrir á þskj. 253, þá er leyfi Sambands ísl. berklasjúklinga til þess að reka vöruhappdrætti útrunnið á þessu ári, og er aðalefni frv. það, að leyfi þetta verði framlengt. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá hefur þjóð vorri að vísu orðið mjög vel ágengt í því að útrýma hvíta dauðanum, þannig að verkefni þeirra samtaka, sem hér eiga hlut að máli, er nú minna heldur en er þau upphaflega voru stofnuð. En þessi samtök hafa þá haslað sér annan völl á sviði öryrkjamálanna og vinna þar að þjóðnýtu starfi, þannig að full ástæða er til þess, að þau njóti þeirrar fyrirgreiðslu varðandi leyfi til að reka happdrætti áfram, sem þau hafa að undanförnu notið. Í sambandi við þetta hefur fjhn. orðið sammála um það, eins og nál. á þskj. 506 ber með sér, að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt.