07.04.1970
Neðri deild: 69. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (1005)

174. mál, lax- og silungsveiði

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði reiknað með því út af viðtali okkar formanns og frsm. landbn., að þetta mál kæmi ekki hér fyrir fyrr en á fimmtudag. Þess vegna vorum við ekki búnir að koma hér fram með brtt., sem við vorum búnir að ákveða að flytja við þessa umr. Þessar brtt. eru fluttar vegna eindreginna óska allra þeirra landeigenda, sem höfðu viðtal við n. Það voru fyrst og fremst bændur úr Árnes- og Rangárvallasýslu og úr Borgarfirði, og enn fremur kom ósk frá Landssambandi veiðifélaga. Ósk þeirra er sú í fyrsta lagi, að 32. gr. breytist þannig, að í stað 3/5 atkv. komi 2/3 atkv., og í öðru lagi, að 48. gr. falli niður. 48. gr. er um það að breyta veiðimálanefnd, fjölga í henni úr þremur í fimm. Eins og hv. þdm. vita, hefur þetta verið þannig, að það er annars vegar veiðimálanefnd og hins vegar veiðimálastjóri. En veiðimálastjóri er í raun og veru ekki starfsmaður eða framkvstj. veiðimálanefndar. Ég hef alltaf litið þannig á, að þetta fyrirkomulag væri mjög gallað, og ég hugleiddi það, hvort það væri ekki tiltækt að breyta þessu nú í sambandi við endurskoðun á þessum lögum. En þar sem er mjög liðið á þingtímann og í ljós kom, að ef meiri háttar breyt. yrðu gerðar við frv., mundi það ekki ná fram að ganga, þá féll ég frá því, eða við, að þessu sinni að flytja þessar brtt. En með þetta í huga tel ég mjög óeðlilegt, að það sé þá verið að breyta þessari n. á nokkurn hátt, og þar sem það er enn fremur ósk landeigendanna, að það sé ekki gert, þá legg ég töluvert upp úr því, að það sé ekki verið að hreyfa við þessu ákvæði laganna nú.

Þetta var rætt töluvert mikið í landbn., og varð ekki samkomulag um, að n. í heild flytti þessa brtt. Hins vegar eru þeir flm. með mér að þessari brtt., hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmur Hjálmarsson, og hv. 2. þm. Sunnl., Ágúst Þorvaldsson. En þar sem ekki hefur verið hægt að prenta þessar brtt. og ég veit ekki, hvort menn hafa áttað sig nægilega á því, hvað hér er um að ræða, þá mun ég taka þessa till. aftur til 3. umr., þannig að mönnum gefist kostur á því að kynna sér þetta betur, áður en til atkvgr. kemur.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar nú, en mun gera það e.t.v. síðar, ef ástæða þykir til.