07.04.1970
Neðri deild: 69. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

174. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. landbn. fyrir það, að hún hefur á tiltölulega stuttum tíma afgr. þetta mál frá sér, þetta mál, sem jafnan vekur deilur, þegar það er til umr. í Alþ. Það kemur ekkert á óvart, sem hv. frsm. sagði hér áðan, að margir af þeim, sem komu á fund n., höfðu ýmsar óskir fram að bera umfram það, sem felst í þessu frv. En það er athyglisvert, að þeir munu allir hafa óskað eftir því, að frv. yrði að lögum á þessu þingi, því að þótt þeir fengju ekki óskir sínar uppfylltar, þá bæri að viðurkenna það, að þetta frv. væri til bóta, það væri betra en gildandi lög. Og ég held, að það sé gott til þess að vita, að allir, sem n. ræddi við, höfðu óskir umfram það, sem í frv. er. Það hefur verið ágreiningur á milli veiðiréttareigenda annars vegar og stangaveiðimanna hins vegar, en það virðist vera nokkurt jafnvægi í þessu, þegar báðir aðilar eru að nokkru leyti óánægðir, en telja þó, að frv., eins og það er, sé til mikilla bóta frá gildandi lögum. Verður þá að ætla, að hér hafi verið farinn meðalvegurinn og sú leiðin, sem farsælust er til þess að lagfæra þessa löggjöf, eftir því sem þörf er á.

Þær brtt., sem n. flytur sameiginlega, eru sumar að mínu áliti til bóta. Aðrar eru meinlausar, en ég held, að það megi fullyrða, að engin till. spilli málinu, og ef hv. Alþ. vill fallast á þessar brtt., telur til bóta að samþykkja þær, þá hef ég ekkert við það að athuga.

Hins vegar hefur hv. þm. Jónas Pétursson flutt till. í fjórum liðum á þskj. 496. Ég tel ekki ástæðu til þess að lýsa þeim. Þær skýra sig sjálfar á borðum hv. þm. Ég tel þær ekki til bóta, fjórða till. er um að taka gjald af seldum veiðileyfum. Þetta var í frv., þegar það var lagt fram á síðasta þingi, og það fór í nákvæma athugun í rn., og var um það rætt við ýmsa, sem við veiðimál fást, og að athuguðu máli var þetta fellt úr því frv., sem nú er til umr. Ég get þess vegna ekki lýst fylgi mínu við till. þessa hv. þm. á þskj. 496.

Þá lýsti hv. 5. þm. Norðurl. e. skriflegri till. áðan, sem nú er til umr., en kemur ekki til atkv. fyrr en við 3. umr. Það er í sambandi við 32. gr. um atkvæðamagnið, hvort það eigi að vera 2/3 eða 3/5. Ég fyrir mitt leyti legg ósköp lítið upp úr þessu, sé enga ástæðu til þess að mæla gegn þessu, ef hv. d. vill heldur hafa það þannig. Ég sé ekki, að þetta geti verið stórt atriði, hvort þarna er um 3/5 að ræða eða 2/3, og satt að segja kemur mér það algerlega á óvart, ef þetta er deilumál. Það verður hver hv. þm. að meta það sjálfur, hvort þarna fer betur á því að hafa 3/5 eða 2/3, og það er ekkert kappsmál frá minni hendi, hvort hlutfallið verður ráðandi.

En brtt. við 48. gr. horfir öðruvísi við frá mínu sjónarmiði. Það er óhyggilegt að breyta því. Það þarf að vera samstarf og samvinna á milli stangaveiðimanna og veiðiréttareigenda. Þetta frv. tryggir hlut og það tryggir rétt landeigenda og veiðiréttareigenda. Veiðiréttareigendur og landeigendur eiga að hafa gott samstarf við stangaveiðimenn, og þeir vilja hafa það. En það, sem felst í 48. gr. í sambandi við skipun veiðimálanefndar, er að fjölga úr þremur í fimm og að gefa stangaveiðimönnum rétt á því að tilnefna einn mann af fimm í n. Ég trúi því ekki, að landeigendur yfirleitt séu hræddir við þetta, og ég fullyrði, að það er engin ástæða til þess að vera á móti frv. Og það er óhyggilegt fyrir þá, sem ætla að halda því, sem skiptir mestu máli og er mest virði, að vilja ekki láta eftir það, sem litlu máli skiptir, eða það, sem getur orðið til þess að gera þá menn ánægðari, sem samstarf þarf að hafa við. Hv. þm. hafa tekið eftir því, hvernig lagt er til, að veiðimálanefnd verði skipuð, ef þetta frv. verður að lögum. Í veiðimálanefnd eiga sæti fimm menn. Ráðh. skipar n., einn án tilnefningar, — og varla er gert ráð fyrir því, að ráðh. skipi mann án tilnefningar, sem væri óvinveittur bændum eða vildi ganga á hlut þeirra, einn samkv. tilnefningu Búnaðarfélags Íslands, það verður að ætla, að sá maður verði vinsamlegur veiðiréttareigendum, einn samkv. tilnefningu Hafrannsóknastofnunarinnar, — það verður að ætla, að sá maður verði sanngjarn og vilji hlut beggja jafnt, — einn samkv. tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga og einn samkv. tilnefningu Landssambands veiðifélaga. Ég held, að hagsmunir veiðiréttareigenda ættu að vera tryggðir í n., sem þannig er skipuð, og veiðiréttareigendum eigi ekki að stafa hætta af því, þó að stangaveiðimenn tilnefni einn mann. Ráðh. skipar formann n.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þessa gr., og ég sé ekki heldur ástæðu til þess að fara að víkja að brtt., sem n. flytur sameiginlega. Hv. frsm. lýsti þeim hér áðan. Ég vil endurtaka þakklæti mitt til n. fyrir það að hafa afgr. málið tiltölulega fljótt, og ég vil leggja áherzlu á það, að þetta mál, sem jafnan er deilumál, verði að lögum á þessu þingi, því að það virðist vera svo, að þetta frv. þóknist öllum að nokkru og að það hafi þegar fengið viðurkenningu um það að vera til bóta frá gildandi lögum.