07.04.1970
Neðri deild: 69. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

174. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af lokaorðum hv. 5. þm. Norðurl. e., þar sem hann var að segja d. frá þeim umr., sem landbn. átti við ýmsa menn og fulltrúa frá samtökum í sambandi við þetta mál. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að það komu mjög eindregnar óskir frá veiðiréttareigendum, að það væri ekki fjölgað í veiðimálanefnd á þennan hátt, eins og frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar kom það líka fram hjá samtökum stangaveiðimanna, að þeir lögðu mjög mikla áherzlu á það, að þessi skipun héldist. Ég tel eðlilegt, að þessi sjónarmið séu líka dregin fram, úr því að sjónarmið hinna voru þarna dregin sérstaklega fram. Það komu sendinefndir til okkar í n. frá samtökum í Borgarfirði og samtökum í Árnes- og Rangárvallasýslu, en aðeins bréf frá Landssambandi veiðifélaga. Það kom líka sendinefnd frá samtökum stangaveiðimanna, og eitt með öðru, sem hún lagði sérstaka áherzlu á, var einmitt það, að þetta atriði héldist, og ég sagði öllum þeim mönnum, sem ræddu þetta við mig af hálfu veiðiréttareigenda, að mér fyndist persónulega, að þetta væri sanngjörn skipun á nefndinni, að þarna hefðu báðir þessir aðilar fulltrúa, því að það væri eðlilegt, að þeir ynnu saman, án þess að til ágreinings kæmi. Sum stangaveiðisamtökin hafa lagt mikið fé í ræktun á fiski í einstökum ám. Og þar sem ég gekk inn á þetta sjónarmið í mþn., að eðlilegt væri, að þessi veiðimálanefnd væri skipuð á þennan hátt, þá hef ég lýst yfir því við marga laxveiðiréttareigendur, að ég mundi ekki flytja till. um að breyta þessu. Sama viðhorf var hjá öðrum í n., t.d. Þóri Steinþórssyni. Þetta vildi ég að kæmi fram, vegna þess að það var verið að draga hér inn í umr. viðhorf einstakra samtaka, sem hefðu komið á fund n. Er því rétt að segja söguna alla, en segja ekki hluta af henni.