14.04.1970
Neðri deild: 72. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

174. mál, lax- og silungsveiði

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Við 2. umr. var samþ. brtt. við 51. gr., sem fjallaði um það að stofna fiskræktarsjóð til stuðnings fiskrækt og fiskeldi í landinu, og síðan segir, hverjar tekjur sjóðsins eru, og loksins eru ákvæði um stjórn sjóðsins. Það getur í sjálfu sér ekki verið neinn ágreiningur um nauðsyn þess, að efnt sé til fiskræktar og fé sé fyrir höndum í því skyni. Hins vegar má mjög deila um, hvort í þessum till. er fundin heppilegasta leiðin til að afla fjár, og það nýmæli er í stjórnarfrv., sem raunar kom frá n., er um málið hafði fjallað, en þar segir í d-lið upphaflega frv., að 2 0/00 af óskírum tekjum vatnsaflsstöðva í landinu, sem selja orku til almennings, eigi að renna í þennan fiskræktarsjóð. Þetta var svo við 2. umr. hækkað í 3 0/00. Það hafði í brtt. upphaflega misprentazt þannig, að það var 3%, en mönnum þótti það of hátt, svo að leiðrétting var auðvitað á því gerð, enda um misskilning að ræða.

Ég tel það þurfi nokkru nánari athugunar við, hversu langt eigi að ganga í því efni að leggja á rafmagnsverð í landinu, og það er það, sem er verið að gera hér, skatt til þess að auka fiskigengd í ám, og þar með gera verðmeiri þau mjög verðmætu veiðihlunnindi, sem víða eru. Það er ljóst, að á allra síðustu árum hafa þessi hlunnindi hækkað mjög í verði og arður af þeim stórlega vaxið. Ekki síst á allra síðustu árum. Þarna er því um að ræða mjög mikla tekjumyndun, og þó að menn geti fallizt á það, að e.t.v. sé til athugunar og megi koma til greina, að nokkuð sé lagt á rafmagnsvirkjun í landinu, sem auðvitað byggist á vatnsaflinu, til að efla nytjafisk í ánum, þá finnst mér það nokkuð fljótt að farið að hækka strax framlagið um 50% frá því, sem samkomulag hafði orðið um. Hitt er látið vera hið sama gjald og upphaflega var gerð till. um, af tekjum veiðifélaganna, en það er ljóst, að veiðifélögin hafa nú þegar fengið mjög auknar tekjur vegna hækkaðs verðlags á lax- og silungsveiði yfirleitt og munu hljóta tekjurnar af þeim ráðstöfunum, sem verið er að gera með stofnun þessa fiskræktarsjóðs. Það er einnig athyglisvert, að af tekjum veiðifélaganna á gjald af skírum veiðitekjum að vera 2%, er innheimtist af veiðifélögum. Þeir, sem ekki eru í veiðifélagi, eiga þá ekki að borga neitt, en veiðifélögin eiga einungis að borga af hreinum tekjum af veiðinni, hvernig sem þær eru metnar. Aftur á móti á gjaldið af vatnsaflsstöðvum ekki að borgast af hreinum tekjum þeirra, heldur, eins og segir hér, óskírum tekjum, þ.e.a.s. brúttótekjum, sem kallað er í daglegu máli. Nú er þetta að vísu miklu lægra gjald, en engu að síður er þarna álagningargrundvöllurinn allt annar, og það minnir mig á það, sem einn hv. þm. sagði hér í d. í gær á móti aðstöðugjaldi, að það væri ósanngjarnt, að það legðist á kostnað, en í raun og veru leggst þetta gjald til veiðiréttareigenda á alla rafmagnsnotendur í landinu og þeim mun meira, sem þeir þurfa á rafmagni að halda, þar með stærri fjölskyldur meir en minni fjölskyldur o.s.frv. Ég hygg, að þessi gjaldstofn sé mjög hæpinn til að koma fram því þarfa máli, sem hér um ræðir. Ég hafði þó getað sætt mig við það, meðan það átti að vera í nokkru hófi, en þegar menn alveg umtalslaust og af sjálfu sér fallast strax á að hækka það um 50% hér í d., þá fannst mér vera ástæða til að vekja athygli á því, að hér er farið inn á mjög hæpna braut, um leið og það sýnir mjög góðan skilning þeirra manna, sem þurfa að borga rafmagnsreikninga, á þörf þeirra, sem eiga veiðiár og njóta þar bæði veiði og peninga fyrir veiðina, þegar menn borga nokkuð þeim til hlunninda í hvert skipti, sem menn kveikja á rafmagnslampa, en sú gjafmildi getur samt farið úr hófi.