14.04.1970
Neðri deild: 72. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

174. mál, lax- og silungsveiði

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls hér í hv. d. hafði ég lagt fram nokkrar brtt. við þetta frv., en ég gat ekki verið viðstaddur þá umr. og óskaði því eftir því, að þessar till. yrðu teknar aftur til 3. umr., og þess vegna langar mig til þess að fara nokkrum orðum um þær nú.

Fyrsta brtt., sem ég hef leyft mér að flytja, er við 10. gr. og um það, að gr. falli niður. En þessi gr. hljóðar á þessa leið:

„Nú telst rétt að uppræta fisk úr veiðivatni til þess að rækta annan stofn kynbetri eða aðrar fisktegundir en þær, er fyrir voru í vatni, og skal ráðh. heimilt að fengnum meðmælum veiðimálastjóra að leyfa notkun sérstakra efna við eyðingu fiskstofns í vatni, með þeim skilyrðum, sem þurfa þykir.“

Það var fyrst vakin athygli mín á þessari gr. í samþykktum, sem ég sá frá fiskiþingi, þar sem það var talið orka mjög tvímælis að veita í löggjöf þessa almennu heimild, og eftir því sem ég hugleiddi þetta mál meira, þá komst ég að þeirri niðurstöðu, að ég mundi freista þess að fá þessa gr. fellda niður úr frv. Það er ekki vegna þess, að ég vilji slá því föstu, að það geti aldrei komið til mála, að það geti verið rétt að reyna þessa aðferð, að eyða með kemískum efnum þeim fiskstofni, sem nauðsyn teldist að losna við. En mér finnst þetta mál dálítið viðtækt. Þetta snertir það, sem nú er orðið mikið talað um, svonefnd náttúruverndarmál. Við heyrum mikið um það nú, að mengun er orðin eitt af mestu vandamálum, sem mannkynið stendur frammi fyrir. Það er langt síðan farið var að nota ýmis efni til þess að firra menn ýmsum óþægindum eða vandræðum. Þetta var í upphafi álitið hættulaust, en síðari tíminn hefur hins vegar fært okkur heim sanninn um, að það hefur ekki verið metið rétt í upphafi.

Vel má vera, að þetta sé óþarfavarúð í þessu skyni, en eins og ég sagði áðan, þá vil ég ekki neita því, að komið gæti til greina að taka það a.m.k. til athugunar. En hugsun mín er sú, að það yrði þá flutt í hverju einstöku tilfelli sérstakt frv. hér á Alþ., þannig að Alþ. skæri úr um það í hvert skipti, hvort slíka aðferð skyldi leyfa. Ég vildi sérstaklega beina því til hv. alþm. að hugleiða þetta, hvort það sé ekki óheppilegt og kannske of mikil óvarkárni almennt séð að setja slíka heimild í lög. Ég vildi benda á, að ýmis mál, sem eru lítilvæg, þurfa þó að koma fyrir Alþ. Ég get nefnt t.d., að enginn erlendur maður getur fengið ríkisborgararétt, nema um það sé fjallað hér, og engan landsskika má selja, nema Alþ. fallist á það með lagasetningu í hvert skipti. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja þessa brtt. og vildi vænta þess, að hv. alþm. tækju það mjög vandlega til athugunar, hvort þeir gætu ekki verið mér sammála um, að þetta ætti að falla burt.

Þá er 2. brtt. við 36. gr. frv., en þessi gr. er líka nýmæli, og þar er gert ráð fyrir að heimila eldisstöðvum laxveiði í sjó innan 200 m frá frárennsli. Mér finnst þetta líka harla hæpið. Við vitum, að það er háð mikil barátta fyrir því einmitt nú að banna alla laxveiði í sjó. Hins vegar finnst mér, að þetta skjóti dálítið skökku við. Hins vegar hef ég verið sannfærður um, að það mundi vera nauðsynlegt fyrir Fiskræktarstöð ríkisins í Kollafirði að hafa þessa heimild, og þess vegna hef ég bætt þarna inn í, að þessi heimild væri eingöngu bundin við hana.

Þá er 3. brtt. Hún er aðeins um orðalag um fiskræktarsjóðinn, að það heiti „Um fiskræktarsjóð og lán og styrkveitingar til fiskræktar“, en áður hét það aðeins:

„Um fiskræktarsjóð og styrkveitingar til fiskræktar.“ Ég vil sérstaklega undirstrika það og jafnvel að gefnu tilefni af þeim orðum, sem hæstv. forsrh. mælti hér áðan, að ég hef a.m.k. hugsað mér þennan fiskræktarsjóð fyrst og fremst sem lánastofnun, en ekki til þess að veita styrki nema þá í mjög litlum mæli, og það var einmitt til að undirstrika þetta, sem ég flutti þessa brtt. um lán og styrkveitingar.

Þá hef ég enn fremur í fjórða lagi flutt brtt. við 51. gr., sem er um fiskræktarsjóðinn, til þess að bæta þar við fleiri tekjustofnum. Annars vegar er það 2% af seldum veiðileyfum. Ég hef kynnt mér, að það muni vera fullkominn vilji fyrir þessu hjá þeim aðilum, sem sérstaklega kaupa veiðileyfi. Þeir munu hafa þann vilja að efla þennan sjóð. Enn fremur, að það komi nýr liður: Sala veiðimiða til veiðimanna, og ráðh. setji reglur um fjárhæð og innheimtu þessa gjalds. Við ræddum þetta talsvert í n., og það varð ekki samstaða um þessa auknu tekjustofna til sjóðsins, en ég hef veitt því athygli, að í frv. því, sem lagt var hér fyrir Alþ. á síðasta ári, var einmitt gert ráð fyrir því, að þessi síðari liður, seld veiðikort, væri einn af tekjustofnunum, sem mynduðu sjóðinn, og þess vegna tel ég rétt að fá úr því skorið hér við atkvgr., hver afstaða hv. þm. er.

Út af þeim orðum, sem hæstv. forsrh. sagði hér, þá get ég vel skilið það, að það kunni að vera skiptar skoðanir um það, hversu langt eigi að ganga í því að taka eitthvert gjald af vatnsaflsstöðvunum. En mér er tjáð, að þetta sé á öðrum Norðurlöndum einmitt einn af þeim tekjustofnum, sem standa undir fiskræktinni, og hugsunin á bak við það er fyrst og fremst sú, að með virkjun vatnanna er fiskrækt oft mjög torvelduð. Ég hef líka skilið það þannig, að rökin fyrir þessu væru einmitt þau, en vatnsaflsvirkjanirnar gripu talsvert inn í einmitt þetta mál, því að a.m.k. í mörgum tilfellum verður það til þess að torvelda fiskigengd í vötnin.

En ég vil aðeins bæta því við, að það er sérstaklega þessi 1. brtt. mín, sem ég legg verulega upp úr, að menn vildu fallast hér á, og sem ég vildi nú vænta, að ekki þyrftu að vera mjög deildar meiningar um, þegar menn hugleiða þetta mál dálitið niður í kjölinn. Ég vil sem sagt ekki með þessu neita því, að það geti ekki komið til greina þessi leið, að uppræta fiskstofn, sem menn telja lélegan eða óheppilegan, í einstaka tilfelli. En ég vil aðeins leggja á það áherzlu, að ef slíkt lægi fyrir, þá væri það gert með samþykki Alþ. hvert skipti.