14.04.1970
Neðri deild: 72. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

174. mál, lax- og silungsveiði

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það var út af brtt. hv. 3. þm. Austf. varðandi veiðimiða. Við hvað er átt með því? (Gripið fram í.) Maður á þá bæði að borga af veiðileyfi og þar að auki veiðimiða? (Gripið fram í.) Ég skildi ekki, við hvað var átt. Mér finnst þá einfaldara að innheimta þetta á einum stað en tveimur.

En svo er varðandi orðalagið á þessu. Í hinu upphaflega frv. og enn er talað um skírar tekjur og óskírar tekjur. Þetta er tiltölulega nýtt lagamál. Ég er nú ekki svo vel að mér, að ég viti, hvort þetta er í fyrsta skipti, sem það er notað í lögum eða ekki. En áður fyrr var talað um hreinar tekjur og óhreinar tekjur eða stundum vergar og óvergar. Það er auðvitað óheppilegt að hafa um þetta mörg heiti í lögum og rugla menn, við hvað er átt. En eftir því, sem menn verða lærðari, þá koma menn auðvitað með meiri tilbreytni í orðalagi sínu.

En út af því, að það sé eðlilegt að greiða þetta gjald, af því að vatnsaflsstöðvar hindri víða laxgengd, þá spyr ég nú: Fær þetta staðizt hér á landi? Þetta getur staðizt úti í löndum, en fær þetta staðizt hér á landi? Að nokkru leyti fær þetta staðizt að vísu hér, t.d. í Elliðaánum. En þar hefur stöðin sjálf lagt fram stórfé til þess að efla laxveiðina með klaki og ýmsum öðrum ráðstöfunum. Nú er það að vísu þannig, að þar er sami eigandi, að ég hygg, að ánni, vatnsaflsstöðinni og veiðiréttinum, svo að allt kemur þetta í einn stað niður. En er þá sanngjarnt, að þessi aðili, sem hefur varið stórfé til þess að bæta ána, þurfi að borga einnig af sínum tekjum? Það er að vísu rétt, að í Sogi hefur virkjun Efra-Sogs dregið úr silungsveiði í Efra-Sogi milli Úlfljótsvatns og Þingvallavatns, en það er skaði, sem vatnsaflsstöðin þarf áreiðanlega að borga eiganda veiðiréttarins og verður gert upp með þeim hætti. Að öðru leyti hygg ég, að virkjun Sogsins hafi ekki dregið úr veiði þar, a.m.k. hef ég ekki heyrt þess getið um laxveiði. Varðandi Búrfellsvirkjun, þá hygg ég, að engum geti dottið í hug, að hún muni hafa nokkur áhrif á veiði í Þjórsá. Þannig mætti lengi telja. Ég hygg, að þetta fái nú ekki staðizt nema að sáralitlu leyti, en einhver dæmi munu þess þó vera. Ég skal ekki bera á móti því, en þá kemur þar á móti, að eigandi stöðvarinnar hefur, a.m.k. í dæmi, sem ég nefndi áðan, varið stórfé til þess að bæta veiðina. Og það er eðlilegt, að slíkt sé gert. Ég hygg þess vegna, að hér eigi að viðhafa fulla varúð. Ég er út af fyrir sig ekki á móti, að eitthvert gjald verði greitt, en þegar menn ætla að verða svona örir á hækkanirnar, þá finnst mér ástæða til þess, að vakin sé athygli á því, að þetta mál er engan veginn jafneinsýnt og sumir vilja vera láta.