14.04.1970
Neðri deild: 72. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

174. mál, lax- og silungsveiði

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er eðlilegt, að það verði nú eins og jafnan, þegar rætt er um breyt. á 1. um lax- og silungsveiði, umr. og skiptar skoðanir um þetta mál. Hér hafa verið fluttar brtt.

Hv. 1. þm. Reykn. flytur till. um það, að veiðimálanefnd verði skipuð til 4 ára, en það verði ekki, eins og er nú í frv., að það sé ekkert tímatakmark, sem miðað er við. Út af fyrir sig hef ég ekkert á móti því, að þessi till. hv. þm. verði samþ., og að athuguðu máli má segja, að það sé eðlilegt að miða við ákveðinn tíma í nefndarskipun eins og þessari, eins og oftast er gert í öðrum tilfellum.

Hv. þm., Jónas Pétursson, talaði fyrir brtt. sínum hér áðan og lagði megináherzlu á fyrsta liðinn, þ.e. þá brtt. við 10. gr., að hún falli niður. En 10. gr. er aðeins heimildargr. um það, að það megi uppræta fisk úr veiðivatni til þess að rækta annan og kynbetri stofn. Ef það t.d. er alveg ónýtur og úrkynja urriði í einu vatni, sem getur þó étið seiði af kynbetri fiski, þá getum við talið nauðsynlegt að uppræta hann. En það verður áreiðanlega ekki gert nema veiðiréttareigandi óski eftir því og varlega verði með það farið. Ég tel, að það sé alveg nauðsynlegt að hafa þessa heimild og miklu eðlilegra en að flytja þurfi frv. í hvert skipti, sem til þessa kynni að koma, þar sem Alþ. hefur yfirleitt nóg um að fjalla. Og það má nú til lítils treysta okkar sérfræðingum, ef það ætti ekki að vera óhætt að hafa þessa heimild í I.

2. brtt. er um það að miða aðeins við Kollafjörð, þegar heimilað er að veiða innan 200 m frá eldisstöð. Það er áreiðanlegt, þó að það sé ekki tekið fram í frv., að það er meint einungis gagnvart Kollafirði. Ég sé þess vegna ekki, að það gerði neitt til, þótt þessi till. væri samþ., en tel algerlega ástæðulaust að gera það.

Breytingin við 50. gr. er aðeins orðabreyting og matsatriði, hvort fer betur. Skal ég ekkert um það dæma.

En um það að taka 2% af seldum veiðileyfum hefur verið athugað, eins og hv. þm. veit. Þetta var í upphaflega frv. í fyrra, sem lagt var hér fram, en það þykir að athuguðu máli alls ekki henta að hafa þetta með. Þetta eykur aðeins skriffinnsku og fyrirhöfn, og er eðlilegt, eins og hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að innheimta þetta gjald frekar í einu lagi en tvennu.

Þetta er nú það, sem ég hef að segja um þessar brtt., sem fram hafa komið. En hæstv. forsrh. hefur gert hér að umtalsefni skattlagningu á virkjunarstöðvarnar. Það er alveg rétt, sem hann tekur fram, að það má vitanlega vara sig á því að ganga of langt í þessu efni. Ég kom einu sinni á fund hjá hv. landbn., og þá var á það minnzt að hækka gjaldið úr 2 0/00 í 3 0/00. Ég man, að ég sagði eitthvað á þá leið, að þetta gæti verið hæpið. Það gæti orðið til þess, að einhverjir snerust gegn frv., sem annars hefðu verið með því, og ekki var meira um þetta talað. En n. varð sammála um þetta. Það má segja, að það hafi verið gleymska hjá mér eða hugsunarleysi að kynna þetta ekki fyrir ríkisstj., þar sem hér var beinlínis gerð till. um að hækka þetta gjald um 50% frá því, sem var í frv. En það gerði ég nú ekki, vegna þess að mér var ekki alveg ljóst, að n. ætlaði að gera þetta, fyrr en ég sá till. prentaða. En það kom í ljós í hv. d., að alþm. eru yfirleitt með því að hækka þetta gjald til þess að efla fiskræktarsjóðinn, og fram hjá því verður vitanlega ekki komizt. Þetta gjald er ekki hátt, það er ekki hægt að segja það. Hækkunin er nú aðeins 1/10 úr %, en það má segja, að það geti munað um allt, þegar saman kemur. En því meira sem fiskræktarsjóður fær með þessu móti í tekjur, því minni áherzla verður þá lögð á það að fá hátt framlag úr ríkissjóði í fiskræktarsjóð. Það er vitanlega alveg tilgangslaust að stofna fiskræktarsjóð með lögum, nema hann fái vissar tekjur, og fiskræktarsjóður hefur mjög mikilvægu verkefni að gegna, verkefni, sem öll þjóðin á að njóta góðs af, ekki aðeins veiðiréttareigendur einir, heldur þjóðin, þjóðarbúið. Ég hygg, að það fari ekkert á milli mála, að þm. allir séu sammála um nauðsyn þess að fá fiskræktarsjóð og hann fái tekjur. En vitanlega getur verið álitamál, hvort það sé heppilegasta leiðin að taka gjald af rafmagninu. En þessa leið hafa nágrannar okkar farið, og einnig ýmsir, sem fjær búa, og byggt þá á þeim rökum, sem hér komu fram áðan, að virkjanir í ánum gætu torveldað fiskræktina. Nú má e.t.v. segja, að hér á landi hafi þetta ekki haft mikla þýðingu fram að þessu. Þó var minnzt hér áðan á Sogið, að Efra-Fall hafi að einhverju leyti spillt silungsveiði í Soginu. En ég hygg, að virkjunin við Ljósafoss hafi verið talin að einhverju leyti hafa áhrif á jafnvel laxgengd í Sogið. Skal ég þó ekki fullyrða um það. En jafnvel þótt þetta hafi ekki enn haft þýðingu í sambandi við fiskræktina, virkjanir í ýmsum ám hér á landi, þá gæti það komið til síðar.

Ég skal ekki fara fleiri orðum um þessa tekjuöflun, en skal játa það, að það hefði verið eðlilegt að minnast á það í ríkisstj. aftur, eftir að till. var komin upp í hv. landbn. um að hækka þetta, en þingmeirihluti er örugglega fyrir þessu, og ég hygg nú að athuguðu máli, að þeir, sem út af fyrir sig gátu samþykkt 2 0/00, sætti sig nú við þessa hækkun, úr því sem komið er.