14.04.1970
Neðri deild: 72. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

174. mál, lax- og silungsveiði

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég er nú enginn sérfræðingur í þeim málum, sem hér eru rædd, og ætlaði mér ekki að tala í þessu máli. En það hafa komið hér fram ýmsar brtt., og sumar þeirra athyglisverðar. Bent hefur verið á, að það sé ekki hagkvæmt að framkvæma hluti, sem ekki eru komnar fram brtt. um. Ég hef stundum minnzt á það hér, að þessir aukaskattar, sem alltaf er verið að fjölga, væru að verða illþolandi. T.d. er tekið af sjávarútvegi eitthvað 9% í ýmiss konar gjöld. Þau eru engan veginn öll óþörf, en það mætti gjarnan fækka slíkum sköttum. Fyrir bændurna þá er fært í reikning okkar, — ég veit a.m.k. í minni sýslu — 3% af brúttóinnleggi.

Nú er hér verið að tala um að fara inn á nýja leið, og það er að taka 3%o af rafmagnstekjum, þ.e. óskírum rafmagnstekjum. Það er meira en að borga þetta, það er vinnan við að reikna þetta út, og svo verðum við líka að athuga það, að allt, sem er tekið af óskírum tekjum, myndar stórar fjárhæðir, ef veltan er mikil. Bóndinn, sem leggur inn fyrir eina millj. og á að borga 3%, hann þarf að borga 30 þús. Ég ætla, að í mörgum tilfellum sé það jafnhá upphæð og útsvarið hans og í sumum hærri. Ég tala nú ekki um sjávarútveginn. Það verða svo gífurleg útgjöld þar. Við megum vara okkur að fara inn á þessar brautir. Þetta kostar óhemjuvinnu, og það eru yfirleitt allir, sem reka einhver fyrirtæki, orðnir leiðir á þessum gjöldum, og þegar byrjað er að fara inn á þessar brautir, hvar endar það? Það geta fleiri kröfur komið.

Nú er það þannig með þessar rafmagnsveitur, að ef þær valda veiðitjóni, þá eru þær skyldar að greiða skaðabætur, og ég veit, að þær hafa gert það í sumum tilfellum, og það er ekki hlífzt við að hafa þær nógu háar.

Ég hygg einnig, að það séu engir í landinu, sem fá tekjur sínar með minni fyrirhöfn en einmitt þeir, sem leigja út ár sínar og hafa þessar laxveiðitekjur. Þeir fá þetta svo að segja fyrirhafnarlaust. Það er eðlilegt, að þessir menn vilji hafa sem mestan lax í ánum, svo að það sé hægt að leigja þær fyrir hærra verð eða hafa á annan hátt meiri tekjur af þeim. Er þá ekki eðlilegt, að þeir, sem hafa tekjurnar, leggi fram gjöldin, rækti laxinn að einhverju leyti eða jafnvel öllu leyti? Ég sé ekki annað en að það sé sanngjarnast, en ekki að láta bláfátækt fólk, sem ekki hefur neinar tekjur af lax- eða silungsveiði, greiða þetta með hækkuðu rafmagnsverði. Ég sé ekki neina ástæðu til þess, þegar rafmagnsveiturnar eru skaðabótaskyldar, ef þær valda laxveiðibændum tjóni, eins og þær eru. Langeðlilegast væri að gera þetta á einfaldan hátt. Það er laxeldisstöð uppi í Kollafirði. Það er búið að eyða þar um 40 millj. Ég dreg stórlega í efa, að það hafi verið rétt ráðstöfun. Ég hygg, að það hefði verið miklu eðlilegra, að laxveiðibændur eða laxveiðifélögin víðs vegar á landinu hefðu sjálf rekið þessa fiskræktunarstöð. Mér er sagt, að Snorri Hallgrímsson reki litla stöð hérna rétt innan við Reykjavík, og mér hefur verið sagt eftir útlendum fræðimönnum, sem hafa athugað það, að það sé langbezt rekna stöðin hér á landi og mest til fyrirmyndar, þó að hún sé ekki stór. Þetta væri hagkvæmt verkefni fyrir laxveiðimenn. En ég skal ekki fara frekar út í það.

Ef kæmi till. fram um það að fella niður þessi 3 0/00, þá mundi ég greiða atkv. með því. Við megum gæta þess að vera ekki alltaf að finna upp á einhverju, sem kostar vinnu og útgjöld fyrir þá menn, sem stunda atvinnurekstur. Þegar byrjað er á slíku, er erfitt að fá þeim gjöldum breytt. Við sjáum þessi prósent, sem verið var að læða inn á bændurna. Það voru nú 2%, sem var tekið til Stéttarsambands, Bændahallar og Búnaðarbankans, sem er nú þarfast af þessu öllu. Það er ómögulegt að fá þetta lækkað. Og þannig mun það oftast ganga, þannig að ég get ósköp vel fallizt á, að við séum ekki að unga út nýjum útgjaldaliðum til þess að auka vinnu og útgjöld þeirra, sem ekki ber að kosta þetta, því að við vitum það, að rafmagnsveiturnar eru skaðabótaskyldar, ef þær valda tjóni á laxveiði, þannig að þarna held ég, að sé verið að láta fólk borga útgjöld, sem alls ekki er réttlátt, að það borgi.

Hitt er svo annað mál, að það er ekki nema sjálfsagt að efla lax- og silungsveiði í ám og vötnum, og við getum sjálfsagt haft stórfé upp úr því. En það á að vera hægt að gera það á annan hátt, og eðlilegast, að það sé gert. Ég veit ekki betur en að bóndinn, sem ræktar jörðina sína og þarf að bera á túnið, verði að greiða áburðinn. Hann fær ekki grasið kostnaðarlaust, og það er ekki nema eðlilegt, að laxveiðibændurnir, ef þeir vilja fá meiri lax, hafi eitthvað fyrir því, leggi fram einhverjar fjárhæðir. En það er ekki hægt að samþykkja brtt., ef hún kemur engin fram, en eðlilega mætti breyta þessu í Ed., og þyrftu ekki að vera neinir árekstrar hér út af því.