28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

174. mál, lax- og silungsveiði

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa hér langt mál um þetta. Ég furða mig dálítið á þeirri miklu áherzlu, sem hæstv. landbrh. leggur á þetta mál, að koma því svo fyrir, með veiðimálanefndina, að bændur verði þar örugglega í minni hl. En samkvæmt þeirri till., sem samþ. var í gær í Ed. og var áður í frv. frá hans hendi, þá er þannig búið um hnútana, að bændur verða í minni hl. í veiðimálanefnd. Það er einn frá Búnaðarfélaginu, sem á að koma þarna, og aðeins einn frá Landssambandi veiðifélaga. Aðrir, sem gert er ráð fyrir, að verði í n., eru ekki fulltrúar bænda. Ýmsir bændur og yfirleitt veiðiréttareigendur hafa látið í ljós andúð sína á þessum ákvæðum og sent til landbúnaðarnefndanna mótmæli gegn þessu ákvæði í frv. Og þegar bændur heyrðu í útvarpinu í gærkvöld, hvernig farið hafði með frv. í Ed. í gær, þá hringdu þeir margir í mig í morgun, og ég veit, að þeir hafa talað við fleiri menn hér í sambandi við þetta mál. Sumir sögðu, að úr því að svona væri komið, þá teldu þeir bezt, að frv. væri stöðvað. Þeir kærðu sig ekki um framgöngu þess úr því að búið væri að fara á þennan hátt með það. Ég verð að álíta, að ég hafi skyldu til þess sem þm. að reyna að varðveita eignarrétt og umráðarétt bændanna yfir eignum þeirra, sem í þessu tilfelli eru veiðirétturinn. Ég hef engar fyrirfram hugmyndir um það, að stangaveiðimenn séu neitt verri en aðrir menn í þessu efni, en mér finnst það ákaflega hart að ganga gjörsamlega á móti óskum veiðiréttareigenda og búa þannig um hnútana, að þeir verði örugglega í minni hl. í veiðimálanefnd. Ég hefði talið það í alla staði rétt í sambandi við þessa löggjöf að ganga þannig frá, að veiðiréttareigendurnir hefðu meiri hl. í veiðimálanefnd. Þess vegna hef ég enn á ný gerzt meðflm. að þeirri till., sem hér var áðan leitað afbrigða fyrir. Ég geri ráð fyrir, að ég greiði frv. ekki atkv., ef sú tillaga verður felld.