28.04.1970
Neðri deild: 88. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

174. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég bjóst ekki við, að hér yrðu miklar umræður um þetta atriði, og sagði þess vegna áðan aðeins frá því, hver afstaða landbn. væri til þessarar breyt. En ég tel rétt, að það komi fram hér, að þegar þetta atriði var til umræðu í milliþn., sem undirbjó þetta lagafrv. um lax- og silungsveiði, þá varð samstaða um það að hafa þessa skipun á veiðimálanefnd.

Þess var getið hér áðan, að það hefðu komið sendinefndir til landbn. Nd., sem vildu fá hitt og annað inn í þetta frv., sem ekki var þar, og ýmsar breyt. á því. Það er rétt, að sendinefndir komu frá veiðiréttareigendum, sem lögðu mikla áherzlu á, að þessu yrði breytt, en það kom einnig sendinefnd frá stangaveiðisamtökum, sem lagði mikla áherzlu á, að þetta héldist. Og ég fyrir mitt leyti álít, að það geti ekki talizt óréttlátt, þó að stangaveiðisamtökin eigi einn mann í þessari n., vegna þess að ég álít, að það þurfi að vera og eigi að vera sem bezt samvinna milli veiðiréttareigenda og þeirra, sem leigja vötnin. Eins og sakir standa, þá er einn aðili sérstaklega sem hægt er að nefna, þ.e. Landssamband stangaveiðifélaga, og tel ég þetta vera sanngirnisatriði, að einmitt það hafi einn mann í þessari n., og ég finn ekki, að hlutur bænda sé á neinn hátt fyrir borð borinn, þó að þetta haldist. Hins vegar er mér þetta ekki kappsmál, hvernig þessi n. er skipuð, en ég álít óskynsamlegt að fella breyt. Ed., því að þar með tel ég, að frv. sé stefnt í nokkra hættu, það muni stöðvast í þinginu.

Ég vil geta þess, að ég spurði nokkra fulltrúa bænda eða veiðiréttareigenda, sem komu á fund landbn. til að ræða þetta, hvort þeir teldu þetta svo mikið atriði, að þeir vildu stefna frv. í hættu með því að standa fast á því að hafa nm. þrjá. Allir þeir, sem ég ræddi við um þetta og til okkar komu, sögðu, að þeir vildu heldur fá frv. fram, þó að þetta væri óbreytt, heldur en að það stöðvaðist. Og ég álít, að þetta sé nokkuð almenn skoðun meðal veiðiréttareigenda. Þar af leiðandi held ég, að sé gert of mikið úr því, að þeir séu almennt svo mjög á móti þessu, að þeir vilji heldur, að frv. stöðvist, en að þetta fái að standa.