09.04.1970
Efri deild: 67. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

203. mál, tryggingadeild útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Eins og hæstv. viðskmrh. gat um í sambandi við frv. það, sem hv. d. var að ljúka meðferð á hér áðan, þá er það frv., sem nú er til meðferðar, fylgifrv. þess. Frv. er að vísu síður en svo minna mikilvægt en hitt frv., vegna þess að það er að verulegu leyti frumskilyrði þess, að útflutningslánasjóðurinn geti þjónað hlutverki sínu, vegna þess að það er talið óumflýjanlegt, að veittar séu sérstakar ábyrgðir á þeim lánum, sem bæði útflutningslánasjóður kann að veita og enn fremur e.t.v. fleiri aðilar.

Nú er það svo í hinum ýmsu löndum, að skipan þessara mála er með mismunandi hætti. Það er ekki alls staðar einn sjóður, sem veitir útflutningslán, heldur bankar almennt eða jafnvel önnur fyrirtæki, og það er þó meiri nauðsyn að sjálfsögðu, þar sem svo háttar, að sérstakur tryggingaraðili sé til, því að annars yrði mjög erfitt um vik að afla slíkra lána. Það má e.t.v. segja, að hér sé þörfin ekki eins mikil, meðan gert er ráð fyrir því, að það sé aðeins einn opinber aðili, sem veiti þessi lán. Þá geti sá aðili tekið á sig vissa áhættu. En með hliðsjón af því, að um er að ræða að leita til bankakerfisins með alla lánsfjáröflun, og einnig því, að það geta orðið jafnframt sérstakar lánaveitingar umfram það, sem þessi tiltekni sjóður veitir, þá þykir óumflýjanlegt að hafa einhvern aðila, sem geti tryggt það, að bæði útflutningslánasjóður og aðrir, sem kynnu að lána, yrðu ekki fyrir áföllum af þessum lánveitingum sínum. Þessi skipun mála er því í öllum þeim nálægu löndum, sem athugað hefur verið um í þessu sambandi, og skipulag útflutningslána og útflutningsábyrgða kannað. Það eru að vísu ýmsir aðilar, sem þar koma við sögu. Í einstaka tilfellum eru það einkafyrirtæki, sem að vísu starfa þá raunverulega sem fulltrúi ríkisvalds, eins og t.d. í Hollandi og V.-Þýzkalandi. Í Bandaríkjunum eru það samtök tryggingafélaga, í Belgíu eru það opinber fyrirtæki, á Norðurlöndum eru það yfirleitt ríkisnefndir eða ráð, og í Bretlandi er það sérstakt rn., sem annast þessar ábyrgðir.

Hér er lagt til, að það verði ríkisábyrgðasjóður, sem veiti þessar ábyrgðir eða tryggingar, og það verður að sjálfsögðu fyrst og fremst háð mati þess sjóðs, hvaða útflutningslán verða veitt, því að litlar líkur verði að telja, að bankakerfið eða útflutningslánasjóðurinn muni telja sér fært að veita lán, sem tryggingardeild ríkisábyrgðasjóðs telur ekki rétt lán. Með hliðsjón af því, að þetta er ríkisstofnun, þ.e.a.s. ríkissjóður í rauninni, sem tekur hér á sig áhættuna, þá er gert ráð fyrir því, að þessi sjóður eða þessi tryggingarlánadeild sé raunverulega undir stjórn ríkisvaldsins, algjörlega á sama hátt og gert er ráð fyrir, að útflutningslánasjóðurinn sjálfur sé undir stjórn bankakerfisins, af því að bankakerfið leggur fram fé til hans. En áhættan er hér á ríkinu eða ríkisábyrgðasjóði, og því er gert ráð fyrir, að það verði 4 manna n., sem útskurði um tryggingarnar, hvort þær skuli veittar eða ekki, og það eru eingöngu fulltrúar ríkisvaldsins sjálfs, þ.e. þriggja ráðuneyta og Seðlabanka Íslands f.h. ríkisábyrgðasjóðs, sem fella þessa úrskurði.

Það er hægt að veita, eins og frv. hér gerir ráð fyrir, og það er í samræmi við, það sem er í öðrum löndum, þar sem þessi skipan gildir, lagatryggingu fyrir ýmiss konar tegundum lána. En í grundvallaratriðum er fyrst og fremst verið að tryggja lán, sem bankar og aðrar lánastofnanir veita útflytjendum til fjármögnunar á útflutningslánum. Enn fremur er svo hægt að tryggja gegn öðrum kröfum eða áhættu sem íslenskir útflytjendur taka á sig. Hér er um að ræða ýmiss konar áhættu. Það getur verið stjórnmálaleg áhætta, vegna þess að það verði einhverjar umbyltingar í þeim löndum, sem skipt er við. Að vísu er kannske ekki hætta á því að minnsta kosti að sinni, að við seljum til slíkra landa með útflutningstryggingum, en það gætu einnig verið margvísleg viðskiptaleg áhættuatriði, sem hér koma til greina og hægt sé að tryggja gegn. Það er hvergi venja að tryggja útflutningslánin að fullu, heldur er það aðeins viss hundraðshluti, sem tryggður er, 70–80% oftast nær, og mundi það vafalaust einnig vera gert hér. Annars er gert ráð fyrir, að það verði ákveðið með reglugerð, hvernig þeim málum verður háttað, en það verður að sjálfsögðu höfð hliðsjón af því, sem gildir í sambærilegum löndum, enda er gert ráð fyrir því að sjálfsögðu, að einhver útborgun eigi sér stað, þegar vara er keypt og bankarnir, sem láni þessi útflutningslán, taki einnig á sig nokkurn hluta áhættunnar. En meginhluti áhættunnar er þó tekinn af tryggingardeild ríkisábyrgðasjóðs.

Eitt er það, sem ekki er gert ráð fyrir, að tryggt sé gegn, og það er gengisbreyting. Það er hvergi í þessum löndum sem við höfum kynnt okkur þessa skipan hjá, að sé tryggt gegn breytingu á gengisskráningu. Segja má, að sjaldan sé að vísu, að þær breytingar beri svo brátt að, að ekki sé hægt að átta sig nokkuð á því, og a.m.k. hefur hvergi verið talið fært að fara inn á þessa braut eða talið rétt að gera það. Það verður að leggja þá áhættu á söluaðila.

Tryggingatíminn er mjög mismunandi eftir því, hvers konar vörur er um að ræða, og má segja, að það sé nokkuð svipað í hinum ýmsu löndum, vegna þess að þessar tryggingastofnanir í 20 löndum hafa myndað með sér samband. Það er að vísu ekki bindandi fyrir þá aðila, sem eru í því, en það er þó leiðbeinandi og hefur mikilvæga þýðingu. T.d. hafa verið viss samtök mynduð til þess að reyna að tryggja það, að ekki verði um undirboð að ræða í sambandi við vissar vörur, og má þar sérstaklega nefna skipakaup, þar sem nýlega hafa helstu skipasmíðaþjóðir komið sér saman um það að stöðva niðurgreiðslukapphlaup, sem hefur átt sér stað í sambandi við skipasmíðar, og það hafa verið settar vissar reglur varðandi lánveitingar í því sambandi til þess að reyna að stuðla að því, að slík niðurgreiðsla eigi sér ekki stað, og má segja, að það atriði hafi einmitt verulega þýðingu fyrir Ísland.

Tryggingaiðgjöldin í sambandi við tryggingar útflutningslána eru mjög mismunandi. Þau eru bæði mismunandi frá einu landinu til annars og enn fremur eru þau mjög mismunandi eftir því, hvaða tryggingar um er að ræða. Það getur leikið á prósentutölu, sem er allt frá 0.1% upp í 7%, eftir því, hvernig ástatt er og til hve langs tíma lánin eru. Prósentan er mun hærri, ef lánstíminn er lengri, og einnig skiptir það máli, hvort tekin er ábyrgð bæði varðandi stjórnmálalega og viðskiptalega áhættu og sömuleiðis hvort kaupandinn er opinber aðili eða ekki. Um þetta mundu verða settar sérstakar reglur og ekki tekið fram í frv. sjálfu, en hliðsjón yrði höfð af því, sem gildir í samkeppnislöndum okkar í þessu efni, því að grundvallaratriðið hlýtur að sjálfsögðu að vera það, að útflutningslánin og tryggingarnar séu veittar með svipuðum skilmálum og gilda í þeim löndum, sem við hyggjum á viðskipti við.

Nú kemur sú spurning auðvitað upp í sambandi við þessar ábyrgðir, hvort hér sé um mikla áhættu að ræða. Í fljótu bragði kynni að virðast, að hér væri um verulega áhættu að ræða. En reynslan hefur hins vegar verið sú, að þessar tryggingastofnanir, opinberar stofnanir eða hálfopinberar, sem starfandi eru í hinum ýmsu löndum, hafa ekki orðið fyrir áföllum af veitingu ábyrgða. Að vísu hafa einstakar ábyrgðir e.t.v. fallið á þessa tryggingaaðila, en tekjurnar, sem hafa komið á móti fyrir veittar ábyrgðir, hafa í þessum löndum nægt til þess að standa undir áföllum. Sést á því, að raunverulega er hér ekki oft um að ræða áföll í þessu sambandi, og það byggist að sjálfsögðu á því, að reynt er að kanna það fyrirfram, áður en tryggingar eru veittar, að þeir aðilar, sem sent er til, séu líklegir til að geta staðið í skilum, og að ástandið í þeim löndum sé þannig, að ekki sé stefnt í voða þeim kröfum, sem myndast.

Gert er ráð fyrir því, að það verði ákveðið með lögum hverju sinni, hvað tryggingardeild ríkisábyrgðasjóðs megi taka á sig miklar skuldbindingar, og lagt til í frv. í þetta sinn, að það nemi 250 millj: kr. Eins og hér var upplýst áðan, þá er stofnfé útflutningslánasjóðsins 150 millj. kr., en gert ráð fyrir því, að það sé hægt að bjóða út lán og afla fjár með öðrum hætti með aðild fleiri aðila, þannig að það þykir nauðsynlegt, að þegar sé fyrir hendi heimild til þess að ábyrgjast meiri fjárhæð en þessu nemur.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, nema sérstakt tilefni gefist til, að ræða þetta mál nánar, en það er mjög nauðsynlegt, að það fái afgreiðslu með útflutningslánasjóðsmálinu, þar sem þau eru svo náskyld, að þau verða raunar ekki aðskilin, og að þau geti bæði fengið endanlega afgreiðslu á þessu þingi. Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.