24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

224. mál, tollvörugeymslur

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Fjhn. hv. d. hefur haft þetta mál til athugunar, frv. til l. um breyt. á l. um tollvörugeymslur.

Frv. fjallar aðeins um einn þátt þeirra laga, þ.e. um tollvörusöluna í fríhafnarverzluninni á Keflavíkurflugvelli. Eins og kunnugt er, var í þeim l. aðeins heimild til að selja tollvörur til farþega og áhafna, sem voru á förum úr landi. En með þeirri breyt., sem hér liggur fyrir frv. um, er lagt til, að einnig verði heimilt að selja vörur til farþega, sem koma inn í landið, en þó er gert ráð fyrir því, að sá varningur verði takmarkaður við þær vörur, sem venjulega eru hafðar til sölu í flugvélum, þ.e.a.s. áfengi, tóbak, sælgæti og ilmvötn.

Ástæðan fyrir þessum áformuðu breyt. mun vera sú tæknilega breyting, sem er að ryðja sér til rúms í flugtækninni hér í millilandaflugi okkar, nefnilega tilkoma þotanna. Þegar er í landinu þota, og gert er ráð fyrir, að tvær þotur komi til landsins um miðjan maímánuð, sem taka um 250 farþega. Flugfélögin telja, að með þeim stytta flugtíma, sem þetta hefur í för með sér, minnki mjög möguleikar til fullkominnar eða æskilegrar þjónustu við farþega í svo stórum vélum. Þau hafa óskað eftir því, að þessi aðstaða verði fyrir hendi, þegar í land er komið. Það verður ekki séð, að þetta rýri á neinn hátt tollgæzlu eða eftirlit með sölu á þessum varningi, þar sem þetta verður framkvæmt í sérstakri verzlun, sem er á leið farþeganna í tolleftirlitið, og má beinlínis segja, að þetta sé undir eftirliti tollgæzlunnar. Nokkuð mundi þetta að sjálfsögðu auka umsetningu og væntanlega hagnað fríverzlunar í Keflavík, þar sem vænta má, að ýmsir, sem nú kaupa þennan varning í erlendum fríhöfnum, áður en þeir koma hingað, mundu að öðru jöfnu flytja þessi viðskipti hingað.

N. varð sammála um, að mæla með samþykkt frv., þó tveir nm. með fyirvara. Það er lagt til, að frv. verði samþ. og því vísað til 3. umr.