24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

231. mál, Alþýðubankinn

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í sambandi við 50 ára afmæli Alþýðusambandsins 1966 ræddi forseti Alþýðusambandsins um það við okkur forsrh., hvort til mála gæti komið, að heimilað yrði að breyta Sparisjóði alþýðu í banka. Var í því sambandi vitnað til þess, þegar Verzlunarsparisjóðnum hafði á sínum tíma verið breytt í Verzlunarbanka með löggjöf hér á hinu háa Alþ. og sparisjóði samvinnuhreyfingarinnar, samvinnusparisjóðnum, breytt í banka nokkru síðar. Því var af hálfu okkar forsrh. tekið vinsamlega og því heitið, að málið skyldi athugað vinsamlega, þegar þar að kæmi, ef eindregin ósk kæmi fram um þetta og væntanlegur Alþýðubanki fullnægði þeim kröfum, sem gerðar hefðu verið til Verzlunarbanka og Samvinnubanka, og þeim almennu kröfum, sem nauðsynlegt þætti að gera á hverjum tíma til viðskiptabanka.

Seinni hluta árs 1968 beindi síðan stjórn Sparisjóðs alþýðu þeirri formlegu fsp. til ríkisstj., hvort hún væri reiðubúin til að flytja stjórnarfrv., er heimili breytingu sparisjóðsins í banka, og var þá vitnað til þess, að fjhn. hv. Nd. hafði verið á einu máli um það, þegar Verzlunarsparisjóðnum var breytt í Verzlunarbanka, að ef sparisjóðir samvinnuhreyfingar og alþýðuhreyfingar óskuðu eftir sams konar breytingu á sínum lánastofnunum úr sparisjóði í banka, væri það ekki óeðlilegt. Ríkisstj. svaraði þessari fsp. frá því 1968 með bréfi frá viðskmrn. 28. nóv. 1968, að ríkisstj. væri reiðubúin til að flytja slíkt frv., þegar ósk kæmi fram um það, enda væri þá gert ráð fyrir því, að væntanlegur banki fullnægði þeim reglum, sem allir bankar verða að hlíta í l., sem sett verða, þar sem m.a. væri áskilið um visst hlutfall milli eigin fjár og skuldbindinga, og rekstur bankans með öðrum hætti yrði þannig, að hann uppfyllti ætíð eðlilegar kröfur um greiðslugetu og öryggi í rekstri.

Nú fyrir skömmu beindi stjórn Sparisjóðs alþýðu þeim tilmælum til ríkisstj., að stjfrv. væri flutt um þetta efni. Var málið vandlega undirbúið í viðskmrn. í samráði við stjórn sparisjóðsins, og hefur niðurstaðan orðið það frv., sem hér er flutt um Alþýðubankann h. f.

Heildarinnlánsfé sparisjóðsins hefur meira en tvöfaldazt frá því í nóvember 1968, og var það í marzlok 1970 orðið 110 millj. kr. Gert er ráð fyrir því, að hlutafé þessa banka verði ekki minna en 40 millj. kr. og að Alþýðusamband Íslands og verkalýðsfélög innan þess safni innan sinna vébanda þessu hlutafé, en bankinn getur að sjálfsögðu ekki hafið starfsemi, fyrr en fjórðungur hlutafjárins, þ.e.a.s. 10 millj. kr., hefur verið greiddur. Og auðvitað tekur bankinn ekki til starfa, fyrr en samþykktir hlutafélagsins og væntanleg reglugerð hafa verið staðfestar af ráðh. Með hliðsjón af því, að hlutaféð hefur verið ákveðið 40 millj. kr., má telja, að hér sé um að ræða algerlega eðlilegt hlutfall milli eigin fjár og skuldbindinga. Hliðstætt hlutfall á sér nú stað í hinum öðrum einkabönkum, þ.e.a.s. lðnaðarbanka, Verzlunarbanka og Samvinnubanka.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fjölyrða meira um þetta mál, enda áliðið þingtíma og nauðsynlegt að nota hverja stund vel, og leyfi ég mér því, um leið og ég mæli með því, að frv. nái fram að ganga á þessu þingi að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.