24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

220. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft til meðferðar frv. það, sem hér er til afgreiðslu, en eins og hv. þdm. er kunnugt er hér um að ræða hluta af öðru frv., sem n. flutti að beiðni hæstv. fjmrh. og fjallar um mun efnismeiri breyt. á skattalögunum en þá, sem hér um ræðir.

Í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. frv., sem fjhn. flutti á þskj. 530, gerði hann grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem liggja að baki þeim till. til breyt. á skattal., sem þar er lagt til, að gerðar verði. Hér er um að ræða umfangsmiklar breyt., m.a. í sambandi við inngöngu Íslands í Fríverzlunarbandalagið. Í öðru lagi í sambandi við það sjónarmið, sem fram hefur komið, að fjármagna þurfi íslenzk fyrirtæki betur en gert hefur verið, og þá hugsað, að breyt. á skattal. geti hjálpað til. Í þriðja lagi að gera það eftirsóknarverðara fyrir einstaklinga en hingað til hefur verið að eiga fjármagn í hlutafélögum. Hér er, eins og ég sagði áðan, um svo umfangsmiklar breyt. á skattal. að ræða, að það var í sjálfu sér ekki óeðlilegt, að frv. yrði aðeins sýnt á yfirstandandi þingi, en síðan að því unnið milli þinga, að frv. yrði síðar lagt fram á næsta Alþ. og fengi þá afgreiðslu á því þingi.

Það var hins vegar eitt ákvæði í þessu frv., sem talið var, að lögfesta yrði nú, og gert ráð fyrir, að gilti í sambandi við álagningu nú á þessu ári, en það er fyrsta bráðabirgðaákvæðið í frv. því, sem fjhn. flutti á þskj. 530. Það er varðandi fyrningar hjá fyrirtækjum fyrir skattaárið 1969. Fjhn. þessarar d. hefur athugað þetta frv. og leggur til, að frv. verði samþ. Hins vegar, eins og fram kemur í nál., hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Í sambandi við athugun á þessum frv., sem ég hef hér getið, komu til viðræðna við fjhn. ráðuneytisstjórinn í fjmrn., sem er formaður þeirrar n., sem vinnur að endurskoðun skattal. með tilliti til inngöngu Íslands í EFTA, ríkisskattstjórinn og skatteftirlitsstjórinn og gerðu nm. í höfuðdráttum grein fyrir meginatriðum frv., sem n. hafði flutt, og voru til viðræðna um þau önnur frv., sem flutt höfðu verið á yfirstandandi þingi og n. hafði fengið til athugunar eftir 1. umr. hér í þessari hv.d.

Ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir sjónarmiðum meiri hl. í fjhn. varðandi frv., og eins og fram kemur á þskj. 664 flytur meiri hl. fjhn. brtt. varðandi frv., sem er efnislega samhljóða frv. því, sem hv. 10. þm. Reykv. ásamt fjórum öðrum hv. þdm. flutti á yfirstandandi þingi. Brtt. er svo hljóðandi:

„Skylt er að hækka eða lækka þær fjárhæðir, sem um ræðir í 4. gr., 1. mgr. 13. gr. og 16. gr., svo og þrepin í skattstiga þeim, sem um ræðir í 25. gr., ásamt frádráttarákvæðum 14. gr., í samræmi við skattvísitölu, sem ákveðin skal af fjmrh., að fengnum till. kauplagsn., hagstofustjóra og ríkisskattstjóra.“

Þetta er efnislega hið sama og 1. gr. frv., sem flutt er sem 131. mál þingsins á þskj. 186, að öðru leyti en því, að í till. meiri hl. fjhn. er gert ráð fyrir því, að þetta ákvæði komi ekki til framkvæmda fyrr en við álagningu tekjuskatts og eignarskatts fyrir skattárið 1970. Eins og málum er nú komið, munu skattstofur hafa unnið svo mikið starf í sambandi við álagningu á þessu ári, að það mundi raska mjög þeirra vinnubrögðum, ef þetta ákvæði yrði látið taka gildi nú. Hins vegar er talið rétt að flytja þessa brtt. sem stefnumótandi og til ákvörðunar við álagningu tekjuskatts og eignarskatts fyrir árið 1970.

Á þskj. 48 hefur hv. 4. þm. Reykv. ásamt fjórum öðrum hv. þdm. flutt frv. um breyt. á skattal., þar sem hann gerir ráð fyrir breytingum í sambandi við skattstiga vegna framfærsluvísitölu. Við afgreiðslu þessa máls flytur hann, hv. 4. þm. Reykv. ásamt hv. 5. þm. Austf. brtt. við þetta frv. þessa efnis. Meiri hl. n. telur sig ekki geta fallizt á þessa brtt., þar sem hér sé um að ræða ákvæði, sem hér þurfi athugunar við, miklu betur en hér sýnist hugsað af þeirra hálfu, og leggur því meiri hl. n. til, að síðari hl. brtt. á þskj. 666 verði felldur.

Á þskj. 63 flytur hv. 3. þm. Vesturl. frv. til l. um breyt. á skattal., þar sem gert er ráð fyrir því, að fram skuli fara ítarleg rannsókn á framtölum 10% allra framtalsskyldra aðila, og einnig er sagt, með hvaða hætti það úrtak skuli unnið. Í viðræðum nm. við þá þrjá embættismenn, sem ég gat hér um áðan, kom í ljós, að þeir, sem gerst þekkja til þessara mála, telja, að ekki sé með nokkru móti mögulegt, að slík rannsókn fari fram, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Skattframteljendur munu vera á milli 90 og 100 þús., og ef gert væri ráð fyrir því, að 10% af þeim yrðu teknir, eins og hér er gert ráð fyrir, þá mundi það hafa mjög mikil áhrif á alla starfsemi skatteftirlitsins, sem gæti m.a. leitt til þess, að þetta bæri ekki þann árangur, sem því er ætlað að gera. Hins vegar var það sjónarmið mjög ríkjandi í n., að ef hægt væri að finna einhverja slíka reglu varðandi þau framtöl, sem talið er nauðsynlegt að taka til sérstakrar athugunar, væri að sjálfsögðu ekkert í vegi fyrir því að samþykkja slíka till., en sú aðferð var ekki ljós embættismönnunum, sem við ræddum við. Þess vegna telur meiri hl. n. ekki ástæðu til að samþykkja þá till., sem hv. 4. þm. Reykv. og 5. þm. Austf. flytja á þskj. 666, heldur leggur meiri hl. til, að till. verði vísað til ríkisstj. til athugunar í sambandi við þá meðferð, sem skattalögin fá nú hjá þeirri n., sem að því starfar.

Á þskj. 73 flytur hv. 5. þm. Austf. ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e. till. um breyt. á skattal. varðandi hækkun á frádrætti í sambandi við skattskyldar tekjur eiginkvenna, sem aflað er hjá fyrirtæki, sem annað hvort hjónanna eða bæði reka. Hér er um að ræða mun stærra mál en í fljótu bragði virðist, og meiri hl. mun því leggja til, að till. verði vísað til ríkisstj., og sérstaklega gert ráð fyrir því, að þeirri n., sem nú fæst við endurskoðun skattalaga, verði falið að skoða málið.

Það er líkt á komið með frv., sem hv. 4. þm. Norðurl. v. flytur ásamt 10. þm. Reykv. á þskj. 120, varðandi sérstakan frádrátt einstæðra mæðra. Meiri hl. n. og þá væntanlega minni hl., sem ekki tekur þá till. upp, mun mæla með því við hv. þd., að eins fari um þetta frv., því verði vísað til ríkisstj. og þá sérstaklega til athugunar hjá þeirri skattanefnd, sem endurskoðar nú skattalögin.

Ég tel, herra forseti, að ég hafi gert hv. þd. grein fyrir þeim frv., sem flutt hafa verið á þessu þingi, varðandi breyt. á I. nr. 90 7. okt. 1965, um tekjuskatt og eignarskatt, og þeirri málsmeðferð þessara frv., sem meiri hl. fjhn. svo og fjhn. í heild vilja að höfð verði á, svo og varðandi það frv., sem hér er til umr.