24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

220. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal mjög reyna að stytta það, sem ég segi hér, til að lengja ekki umr.

Ég vil fyrst nota tækifærið og þakka hv. fjhn. fyrir afgreiðslu hennar á því frv., sem hér er til meðferðar, þar sem hún mælir einróma með því, að það verði samþ.

Hins vegar kom mér ekki á óvart, þó að fram kæmu ýmsar fleiri aths., eins og við var að búast, en hins vegar hygg ég jafnframt, að hv. þm. sé það jafnljóst, að eins og nú er ástatt með tíma þingsins, er ekki neinn möguleiki að samþykkja nú neinar flóknar breyt. á skattal., enda í rauninni ástæðulaust, vegna þess að það er ekki hægt að koma þeim við með frambærilegum hætti, nema valda þá stórfelldum töfum. Breyt. á skattal., sem hafa áhrif á þær álagningarreglur, sem gilt hafa, mundu seinka stórlega álagningu skatta á þessu ári, enda er ráð fyrir því gert, eins og ég hef áður skýrt hv. þd. frá, að þegar í haust verði skattal. aftur lögð fyrir þingið. Þá kann að vera búið að athuga fleiri hliðar málsins, og að sjálfsögðu er einnig eðlilegt að taka til athugunar á þessu tímabili þær till., sem komið hafa fram hér á Alþ. nú í vetur, sem eftir atvikum þætti rétt að líta jákvætt á.

Það er ein brtt., sem komið hefur hér fram, sem ég tel vera mögulegt að samþykkja, án þess að það hafi nein veruleg áhrif á álagningu skatta í ár, en það er heimildin til þess að miða sjómannafrádrátt við skattvísitölu. Það getur vel verið, að ástæða væri til þess að miða fleiri frádráttarliði við skattvísitölu. Það þarf að athugast nánar, en miðað við það, að till. er með þeim fyrirvara, að þetta skuli gilda við álagningu skatta á næsta ári, þá sé ég enga ástæðu til þess að hafa á móti því, að sú till. verði samþ.

Hv. frsm. meiri hl. n. vék einnig að nokkrum öðrum frv., sem hér eru til meðferðar í hv. d., sem varða skattamál. m.a. frv. um það að auka frádrátt eiginkonu við atvinnurekstur eiginmanns síns. Ég er sammála því, að nauðsynlegt sé að endurskoða það ákvæði. Hins vegar er það alls ekki auðvelt mál að átta sig nákvæmlega á því, hversu sá frádráttur á að vera mikill og þetta þarf að skoðast með hliðsjón af öðrum frádráttarliðum. Af þeim sökum er ég mjög sammála því, að þessu verði vísað til ríkisstj., og verður málið að sjálfsögðu eftir ósk n. athugað þá til hausts.

Sama er að segja um frv. um sérstakan frádrátt tekna einstæðra mæðra. Það er einnig vandamál. Þetta er mikilvægt mál í sjálfu sér og eðlilegt, að það komi fram, til að rétta aðstöðu þessara kvenna. En hins vegar er það sama að segja, að hér er um grundvallarbreytingu að ræða, sem þarf að skoða með hliðsjón af öðrum frádráttarliðum skattalaga, þannig að eðlilegt samræmi verði þar á, og er ég einnig mjög ásáttur með það, að því verði vísað til ríkisstj., og er sjálfsagt, að það verði tekið til rækilegrar athugunar við framhaldsendurskoðun málsins.

Varðandi þær brtt., sem hv. 4. þm. Reykv. hefur gert hér grein fyrir, þarf ég ekki að vera langorður. Við höfum áður rætt það mál, eins og hann réttilega sagði. Varðandi fyrra atriðið um það að taka með útdrætti ákveðna prósenttölu allra skattaframtala í landinu og taka það til rækilegrar endurskoðunar á hverju ári, þá tel ég þá till. ekki jákvæða, eins og sakir standa, og mundi slíkt ekki leiða til þeirrar niðurstöðu, sem ég veit, að vakir fyrir hv. þm. Ég er með þessu ekki að segja, að ekki geti verið réttmætt og nauðsynlegt að finna einhverjar útdráttarreglur, og ég hef áður gert grein fyrir því hér á Alþ., að að því hafi verið unnið af ríkisskattstjóra og skattrannsóknardeildinni að finna einhverjar slíkar viðmiðunarreglur. En það er auðvitað alveg fjarri lagi að fara að taka öll framtöl og draga úr þeim einhverja ákveðna tölu. Það er mikill fjöldi framtala, sem er algerlega ástæðulaust að vera að framkvæma nokkra athugun á, og þess vegna er þetta miklu flóknara mál, ef það á að skila jákvæðum árangri, en gengið er út frá í þeirri brtt., sem hér er flutt. Ég held, að við hv. þm. þurfum ekki að deila um nauðsyn þess að haga skatteftirliti sem bezt. En ég er þeirrar skoðunar, og það veldur neikvæðri afstöðu minni til þessarar till., eins og sakir standa, að hún muni verða til þess að auka vinnu skatteftirlitsins, án þess að skila erindi sem erfiði, ef svo má segja, og því verði starfskraftar þar betur nýttir á annan veg til þess að halda uppi raunhæfu skatteftirliti. Það merkir ekki, eins og ég sagði áðan, að einhverjar slíkar útdráttarreglur geti ekki komið til mála, en það þarf allt að athugast nánar.

Ég hirði ekki að fara út í sagnfræði hv. þm. um, hvernig skattvísitalan sé til orðin og þær frádráttarreglur, sem gilt hafa síðustu áratugi. Ég er honum að vísu þakklátur, eins og skylt er, fyrir það að vitna í frv. okkar Jóhanns Hafstein, sem við fluttum á sínum tíma, til þess að vekja athygli á nauðsyn þess að hafa hliðsjón af vaxandi verðbólgu í sambandi við skattálagningu og skattstiga. En skoðun okkar í þessu efni hefur ekkert breytzt, og skoðun mín er nákvæmlega sú sama og hún var þá, vegna þess að þegar þetta frv. var flutt, féllu saman framfærsluvísitala og kaupgjaldsvísitala, en nú er þetta með allt öðrum hætti. Ég hef margoft áður tekið það fram og skal gera það einu sinni enn, að það er ekkert eðlilegt við það, að tengdar séu saman framfærsluvísitala og skattvísitala, heldur kaupgjaldsvísitala og skattvísitala, vegna þess að skattvísitalan er hugsuð þannig, að ekki aukist skattþunginn, þótt menn fái auknar krónur til uppbóta við hækkun verðlags. En með því að binda það við framfærsluvísitölu, eins og nú standa sakir, þá mundi hér vera um það að ræða að bæta með þessum hætti upp kjaraskerðingu, sem er með allt öðrum hætti. Ég hef áður sýnt fram á það, að sú breyting, sem hér er farið fram á, mundi lækka skatttekjur ríkis og sveitarfélaga um hundruð millj., og það er þess vegna fjarri lagi, að það sé eins einfalt mál, og hv. þm. segir, að breyta þessu nú, jafnvel þó að það væri hægt að umreikna skattana, vegna þess, að ég hygg, að það mundi leiða til fjárþrota hjá mörgum sveitarfélögum, hvað sem ríkissjóði liður. Ég sé því ekki ástæðu til að rekja það mál lengur, en till. er í eðli sínu skakkt upp byggð, eins og hún nú er fram sett, og af þeirri ástæðu tel ég ekki mögulegt að fallast á samþykkt hennar.

Ég held svo, herra forseti, að það sé ekki ástæða til þess að orðlengja þetta mál frekar. Hv. 4. þm. Reykv. sagði réttilega, að fyrir þessum málum hefði áður verið gerð grein, og þau hafa öll verið hér til meðferðar á Alþ. og þá rædd. Því er ástæðulaust að fara út í langar efnislegar umræður um það umfram það, sem ég hef gert, að taka aðeins afstöðu í einstökum atriðum til málanna, eins og þau liggja fyrir.