24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

220. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. nema um örfáar setningar. Hv. frsm. fjhn. hefur lýst sjónarmiðum meiri hl. n., í sumum tilvikum n. allrar, til þess frv., sem hér er til umr., svo og til annarra skattalagafrv., sem lögð hafa verið fyrir þessa hv. þd. á yfirstandandi þingi.

Snemma á þinginu flutti ég ásamt hv. 10. þm. Reykv. frv. á þskj. 120 um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, er fjallaði um skattfrádrátt á tekjum einstæðra mæðra. Eins og hér hefur komið fram í þessum umr., þá er nú undirbúningsvinnu við skattaálagningu á skattstofum svo langt komið, að þó svo að skattalagafrv. sem þetta væri afgr. á þessu þingi, þá væri mjög erfitt að minnsta kosti að láta þá lagabreyt. taka gildi fyrir skattaálagningu á árinu 1970. Ég hef fallizt á þessi rök, og með tilvísun til þess, að fyrir liggja yfirlýsingar um það, að endurskoðun skattal. í heild standi yfir, þá hef ég einnig fallizt á þá málsmeðferð, að þessu frv. verði vísað til ríkisstj. í trausti þess, að þau efnisatriði sem þar koma fram, verði tekin til jákvæðrar afgreiðslu hjá þeirri n. sem þá endurskoðun annast. Mun fjhn. eða að minnsta kosti meiri hl. hennar skila nál. í samræmi við þetta. Það er hins vegar ljóst, að ef ekki verður í því frv. til l. um breyt. á l. um tekju- og eignarskatt, sem væntanlega verður lagt fyrir hv. Alþ. í byrjun næsta þings, fullnægt þeim sjónarmiðum, sem ég tel, að rétt sé, að þar komi fram, í þessu atriði og öðrum þeim greinum, sem ástæða þykir til að breyta í þessum l., og ýmis atriði þeirra samræmd, þá er opin leið að flytja brtt. við það frv. Þá er þess að vænta og ég treysti því, að í samræmi við þær breytingar, sem þá verða afgreiddar, verði hægt að leggja á skatta árið 1971.