25.04.1970
Neðri deild: 82. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

220. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Áður en til atkvgr. kemur um þetta frv., vildi ég aðeins taka fram eftirfarandi: Þó að hér sé um að ræða frv. til l. um breyt. á l. um tekjuskatt og eignarskatt, snertir efni frv. þó öllu meir tekju- og útsvarsstofn sveitarfélaga en ríkisins. Álagning tekjuútsvara mun nú í nokkrum sveitarfélögum vera komin svo vel á veg, að samþykkt frv. svona seint á þingi mundi valda verulegum óþægindum og töfum á störfum skattyfirvalda. Samkv. gildandi skattal. eiga framtalsnefndir að hafa lagt fram skrá yfir tekjur og eignir, sem miða skal útsvör við, fyrir lok aprílmánaðar. Með því að nú eru aðeins fáeinir dagar eftir af mánuðinum, er ljóst, að samþykkt frv. svo seint á þingi, sem taka á gildi á þessu ári, er mjög til baga.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu atriði. Þetta gæti leitt til þess, að sveitarstjórnir yrðu að hækka útsvarsstiga sinn eða hugsanlega að draga úr framkvæmdum, þótt hér sé ekki um verulega upphæð að ræða. Ég vil, áður en ég greiði atkvæði með þessu frv., sem ég efnislega er ekki ósammála að öðru leyti, vekja athygli á, hversu bagalegt það er fyrir sveitarfélög, að Alþ. samþykki breyt. á l., sem hafa áhrif á framkvæmd útsvarsálagningar, svo seint á þingi. Þar að auki vil ég að lokum geta þess, að það mun hafa verið venja, að slík frv. væru send til umsagnar samtökum sveitarfélaga, þar sem um hagsmunamál þeirra er að ræða. En svo mun ekki hafa verið gert að þessu sinni. Takk fyrir.