29.04.1970
Neðri deild: 89. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

127. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Sami háttur hefur verið hafður á um afgreiðslu frv. og verið hefur á undanförnum árum. Til þess að flýta fyrir afgreiðslu málsins hafa undirnefndir starfað úr allshn. beggja deilda til þess að athuga frv. og þær umsóknir, sem hafa komið síðan frv. var lagt fram. Reglur þær, sem allshn. beggja deilda settu í nál. frá 17. maí 1955 og síðan hafa verið gerðar nokkru fyllri, hefur n. einnig haft til hliðsjónar við athuganir sínar, og eru þessar reglur birtar á þskj. 741.

Eins og frv. kom frá Ed., eru 25, sem öðlast ríkisborgararétt samkv. 1. gr. frv., en eftir að Ed. afgreiddi málið, hafa komið nokkrar umsóknir, sem hafa verið teknar til afgreiðslu í allshn. Nd., og n. varð sammála um að leggja til, að 11 nýjar umsóknir yrðu teknar inn í frv., og eru þá samkv. frv., eins og það var afgr. frá Ed., og þeim brtt., sem hér liggja fyrir frá allshn., 36 manns, sem lagt er til, að fái ríkisborgararétt.

Það er rétt að geta þess, að meðal þessara umsækjenda er fólk, sem er frá 12 þjóðum. Þar eru flestir fæddir í Þýzkalandi eða 10, Færeyjum 6, fæddir á Íslandi 5, en hafa misst sinn rétt, í Bandaríkjunum 4 og Danmörku 4 og svo er einn frá eftirtöldum löndum: Spánn, Finnland, Grikkland, Svíþjóð, Noregur, Pólland og Austurríki.

Í sambandi við 2. gr. frv. flytur allshn. ekki brtt. við hana, en fram hefur komið hér áður við afgreiðslu frv. um ríkisborgararétt áhugi einstakra þm. fyrir að breyta 2. gr. frv., sem er þess efnis, að þeir, sem heita erlendum nöfnum, skulu þó ekki öðlast ríkisborgararétt með l. þessum, fyrr en þeir hafa fengið íslenzk nöfn samkv. l. um mannanöfn.

Nú var skipuð n. af hæstv. menntmrh., sem ég held, að heiti mannanafnanefnd, og þar sem ég er nú einn af þeim þm., sem hef haft áhuga fyrir því að flytja brtt. við frv. um veitingu ríkisborgararéttar, en geri það nú ekki að þessu sinni og þá sérstaklega og eingöngu vegna þess, hvað afgreiðsla málsins er seint á ferðinni, þá langar mig að gera þá fsp. til hæstv. menntmrh., hvort þessi n. hafi lokið störfum sínum, og ef svo er ekki, hvenær þá megi búast við, að hún muni ljúka störfum.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en tek það fram, að allshn. mælir einróma með frv. með þeim breyt., sem hún flytur á sérstöku þskj.