21.10.1969
Efri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði, sem gaf mér tilefni til að koma hér í stólinn aftur, en það var fsp. hv. 1. þm. Vesturl. um, hvað rn. hefði hugsað sér í sambandi við hugsanlega aukna tekjuþörf sveitarfélaganna við þá sameiningu, sem frv. heimilar eða gerir ráð fyrir.

Hlutverk rn. í þessu efni er afar augljóst. Það var skipað í þá n., sem frv. þetta samdi, að ósk Sambands ísl. sveitarfélaga, og það ákvað nú, eftir að n. hafði lokið þessum áfanga starfa sinna, að flytja þetta frv. og lofa Alþ. að skera úr um, hvort það teldi rétt, að það næði fram að ganga. Önnur afskipti hefur rn. ekki haft af þessu máli.

Hv. þm. benti á aukna tekjuþörf sveitarfélaganna, og ég skal sízt af öllu draga slíkt í efa, en sú ágæta n., sem í eru fulltrúar allra flokka og allra þeirra aðila, sem þarna eiga hlut að máli, hefur ekki gert till. um þessi efni, og ég hygg, að menn vilji þrautreyna fyrst hinn raunverulega vilja manna til sameiningar. Hvort þetta íþyngir eða léttir á sveitarfélögunum, skal ég ekki dæma um, en n. hefur viljað láta reyna á þetta atriði fyrst, áður en hún færi að gera till. um einstaka nýja tekjustofna. Við vitum það ósköp vel, að alls staðar þykja tekjustofnar of rýrir, bæði hjá ríki og bæ, og endalaus togstreita er um það, hvað skuli hvers í þeim efnum, þ.e. hvað skuli renna til sveitarfélaganna og hvað til ríkisins. Alls staðar er fjár vant, og ég hygg, að svo muni kannske lengst af verða, því að hinar félagslegu þarfir stóraukast frá ári til árs og kröfur manna í þeim efnum vaxa sífellt. Ég hlýt því að svara þessari fsp. hv. þm. með hliðsjón af því, sem ég nú hef sagt, að till. hafa ekki verið bornar fram, hvorki af rn. né n., um aukna tekjustofna, þar sem nauðsynlegt er talið að reyna á aðra þætti málsins, áður en til slíkrar tillögugerðar verði stofnað.