22.01.1970
Efri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Frsm. meiri hl. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. þd. hefur rætt frv. það, sem hér um getur, á nokkrum fundum, og eins og fram er tekið í áliti meiri hl. n. á þskj. 233, fékk n. á sinn fund þá Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóra og Pál Líndal, formann Sambands ísl. sveitarfélaga. Veittu þeir nm. fjölþættar upplýsingar varðandi þau málefni, sem frv. fjallar um.

N. náði ekki samstöðu um endanlega afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með smávægilegum breyt., sem getur að finna á þskj. 234. Minni hl. n. mun gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins.

Hæstv. félmrh. gerði ítarlega grein fyrir frv. hér í hv. þd. við 1. umr. málsins hinn 25. okt. s.l., og tel ég því, herra forseti, ekki ástæðu til þess hér á þessu stigi að fara að rekja tildrög að samningu frv. né efni þess í einstökum atriðum. Samkvæmt beiðni stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga skipaði rn. með bréfi 27. maí 1966 níu manna nefnd til að semja frv., sem miðaði að ítarlegri athugun á breyttri skipan sveitarfélaga með samruna þeirra í huga. N. var þannig skipuð, að sveitarstjórnasambandið tilnefndi þrjá nm., þingflokkarnir fjórir hver um sig einn mann, Dómarafélagið einn fulltrúa og ráðh. skipaði einn mann, og var hann formaður n. Verkefni n. var í höfuðatriðum tvíþætt: Athugun á sameiningu sveitarfélaga og hins vegar að huga að hugsanlegri breytingu á sýsluskipan í landinu. Eins og fram kemur í frv., leggur n. ekki fyrir breytingar þar á þessu stigi. N. hefur þegar unnið mikið starf, eins og sjá má af þeim gögnum, sem til eru um hennar starfsemi.

Menn getur greint á um gildi þess að sameina sveitarfélög og mynda þar með færri en stærri heildir, og í því efni er vissulega hægt að tefla fram rökum með og móti, eins og eflaust verður oftast, þegar mál er athugað frá mörgum hliðum.

Ég hef vikið hér að tildrögum að skipan þeirrar n., sem samdi þetta frv., sér í lagi vegna þess, að óskir þar um komu fram frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, en það er sá aðili í landinu, sem vissulega er eðlilegast að taka tillit til í slíkum málum. Það haggar hins vegar ekki því, að í þessu eru skiptar skoðanir um málið í heild eða einstaka þætti þess meðal sveitarstjórnarmanna almennt. Það er augljóst öllum, sem til þekkja, að samvinna fleiri aðila um framkvæmd hinna ýmsu verkefna, sem sveitarfélögunum eru nú í vaxandi mæli lögð á herðar, hlýtur í fleiri tilfellum að stuðla að því, að um fullkomnari þjónustu við íbúana verði að ræða. En þó vil ég minna á, að í þessu sambandi getur orðið um það að ræða, að sveitarfélög, sem mundu taka yfir stærri landssvæði með erfiðum samgönguháttum, geta eftir frekari sameiningu staðið andspænis meiri vandamálum í ýmsum atriðum, þegar þar að kæmi. Þetta þekkja allir, sem við sveitarstjórnarmál fást.

Aukin samvinna um tiltekna málaflokka meðal sveitarfélaga er til mikilla bóta og getur breytt verulega um þjónustugetu sveitarfélaganna við íbúa sína. Og ég vil benda á, að í Reykjaneskjördæmi hafa um nokkur ár verið starfandi samtök sveitarfélaganna þar, og ég fullyrði, að þar hefur fengizt mjög jákvæð reynsla. Ég bendi einnig á vaxandi samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu svokallaða, þ.e. milli Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaganna, og á því sviði hefur orðið verulega mikill árangur, og vænta allir aðilar, að þeirri starfsemi verði haldið áfram og frekar aukið við en hitt. Og ég vil staðhæfa, að við fulltrúar sveitarfélaga utan Reykjavíkur teljum, að byggðarlög okkar njóti mikilla hagsbóta af samstarfi við stóra aðilann, þ.e. Reykjavík. Ég minni á þetta hér, þar sem svo vill til, að ég er einn af sveitarstjórnarnmönnum í fjölmennasta sveitarfélaginu utan Reykjavíkur og þekki þetta af eigin raun. Ég minni einnig á, að einmitt á þessu svæði eru yfirleitt á okkar vísu fjölmenn sveitarfélög, en þrátt fyrir það telja stjórnendur þeirra sér hag í því að hafa aukna samvinnu um fleiri og fleiri málaflokka. Ég bendi einnig á þetta hér sem rökstuðning fyrir þeirri skoðun minni, að samstarfsáhuginn milli sveitarfélaganna þarf að koma innan frá. Valdboð ofan frá, held ég, að þurfi að forðast algerlega í þessu efni, nema þá í sérstökum frávikum, sem ég vil ekki gera að umræðuefni hér.

Ég þekki það einnig af persónulegri viðkynningu við sveitarstjórnarmenn, bæði í Noregi og Danmörku, að þar eru æðiskiptar skoðanir einmitt um þessi atriði, hvernig að þessu skuli unnið, jafnvel þótt menn séu sammála um árangur, jákvæðan eða neikvæðan, af þeim breytingum, sem átt hafa sér stað.

Vissulega tekur þessi þróun sinn tíma, og einhverjir kunna að segja sem svo, að samvinna um tiltekna málaflokka milli sveitarfélaga annars vegar og samruni þeirra í stærri heildir hins vegar séu óskyld mál, en svo er ekki algerlega. Ég bendi á sveitarfélög hér í næsta nágrenni, sem ég hef vitnað til, og þau eru flestöll svo fjölmenn, að þau hafa sérstaka starfsmenn í sinni þjónustu, mismunandi marga að vísu, en það hefur tvímælalaust stuðlað að því, að þeir hafa við nánari athugun sannfærzt um, að það væri verðugur hluti af þeirra starfi að hittast og ræða sameiginleg vandamál þessara sveitarfélaga. Hvort svo í einhverjum tilfellum, sem hér er vikið að, leiðir síðar meir til samvinnu einstakra sveitarfélaga, læt ég ósagt.

Hafa ber í huga það, að að verulegu leyti er hin íslenzka hreppaskipun forn og því fastmótuð. En nú eru aðstæður að vísu mjög breyttar, bæði um samgönguhætti og einnig um kröfugerð á hendur sveitarfélögum. Allt þarf þetta nána athugun, og máske þarf að fikra sig áfram stig af stigi hér sem víða annars staðar, sér í lagi ef breyta á fornri og merkri skipan, sem hefur upphaflega verið grundvölluð á fullkomnum rökum. En jafnvel þótt uppi séu háværar óskir og skeleggar raddir um, að breytingar séu nauðsynlegar, og mönnum, sem vissulega þekkja til þessara mála, finnist breytingar sjálfsagðar, þá á Samband ísl. sveitarfélaga óhægt um vik að vinna sjálfstætt að málinu og hefur því óskað eftir aðstoð rn.

Mikið starf hefur þegar verið unnið, og það er tvímælalaust nauðsyn á því að halda því starfi áfram. Meiri hl. þeirrar hv. n., sem um málið hefur fjallað, telur eðlilegt að verða við óskum n. þeirrar, sem frv. samdi, um að sérstakur erindreki starfi að þessum málum um sinn. Ég hef bent á aukna samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Arangurinn þar er öllum augljós. Sérstakur starfsmaður, sem sinnir þessum verkefnum sérstaklega úti um landið, getur áreiðanlega átt þátt í því, að aukin samvinna verði tekin upp víðar. Hvort slíkt eða frekari viðræður leiða til sameiningar sveitarfélaga, leiðir reynslan í ljós, en málið er svo þýðingarmikið, að sjálfsagt er að sýna því fulla viðurkenningu og verja til þess nokkrum fjármunum. Hafa ber í huga, að sveitarstjórnarkosningar standa fyrir dyrum á vori komanda, og má vera, að á einhverju verði þar breytingar, þannig að eðlilegt er, að viðræður og athuganir varðandi þessi mál haldi áfram eitthvað fram eftir næsta kjörtímabili.

Með tilliti til þessa leggur meiri hl. n. til, að fyrst um sinn verði sérstökum erindreka falið það starf, sem um er að ræða í umgetnu frv. Í öðru lagi leggjum við til, að þegar starfi hans lýkur, taki félmrn. við störfum hans. Og varðandi þessar till., sem getur að finna í lið 1 í brtt. á þskj. 234, vitna ég til þess, sem ég hef áður um þetta sagt. Í þriðja lagi leggjum við til, að samþykki Alþingis þurfi til, ef sameina á sveitarfélög eða hluta úr sveitarfélögum milli kjördæma, og sé ég ekki ástæðu til að rökstyðja þá till. frekar. Ég tel, að allir geti fallizt á við nánari athugun, að þetta sé sjálfsögð brtt.

Ég legg svo til, herra forseti, að brtt. á þskj. 234 verði samþ. og málinu, svo breyttu, vísað til 3. umr.