22.01.1970
Efri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Frsm. minni hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Ég þarf litlu að svara þeim, sem áður hafa hér rætt um þetta mál. Ég vildi aðeins segja í sambandi við það, sem hv. þm. Jón Þorsteinsson sagði, og þá skýringu hans á orðunum „fyrst um sinn“, að það gæti orðið fyrr en seinna, að slíkur erindreki hefði engin störf á hendi og á honum þyrfti ekki að halda: Trúi því hver sem vill, að staðan yrði niður lögð. Ég vil taka það fram, að sameiningarnefndin var skipuð 27. maí 1966. N. hefur haldið fjóra fundi, en hún skipaði nokkuð snemma undirnefnd þriggja manna, og þessi undirnefnd hefur haldið 37 fundi. Það, sem er komið fram af starfi n., er í fyrsta lagi frv. það, sem við erum að ræða. Í öðru lagi er skýrsla um umdæmissvæðin. Hún er að vísu nokkuð fróðleg um það, sem er að gerast í hinum ýmsu sveitarfélögum, en hefur náttúrlega ekkert afgerandi gildi um frekari framkvæmd og gang sameiningarmála út af fyrir sig. Í þriðja lagi má vera, að frv., sem lá fyrir þessari hv. d. fyrir nokkru og var afgr. héðan til Nd., sé þaðan komið. Það var frv. um sameiningu Loðmundarfjarðarhrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Ég hef rætt það áður, en ég lít svo á, að það frv. og framkvæmd þess máls hafi engan veginn verið til neinnar fyrirmyndar, og það mun alls ekki auka á hraða í sambandi við úrlausnir, þegar um sameiningu sveitarfélaga er að ræða, síður en svo.

Þegar litið er til gangs þessara mála innan sameiningarnefndarinnar og þriggja manna n., má gera ráð fyrir því, að þetta „fyrst um sinn“ geti orðið æðilangt tímabil, og reynslu höfum við af því bæði hér og þar, að þegar ráðnir eru menn í störf eða embætti eða á opinberum vegum yfirleitt, halda þeir því embætti. Það er ekki verið að hrekja þá burt nema þá með því að stofna til annars embættis. Ég á eftir að sjá, að til þess komi, ef í þetta embætti verður skipað, að sá yrði sviptur starfi, ef svo sýnist, að verkefni yrðu lítil sem engin.

Mér þóttu báðar ræður hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. einkennast af hógværð og skilningi á þessum málum, en mér fannst hann ekki draga nógu nákvæmar ályktanir af skoðunum sínum og rökum. En hann um það, en allur var málflutningur hans góður, og ég veit það, að hann vill vel í þessu efni, og mér þótti vænt um að heyra, að hann tvítók það, að honum væri fjærst í þessum efnum, að einstök sveitarfélög væru valdboði beitt.