03.03.1970
Neðri deild: 54. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég verð nú að segja það, að ég er nokkuð undrandi yfir þeim umr., sem hér hafa farið fram, og tel mig þurfa að gera aths. við a. m. k. ræðu hv. síðasta ræðumanns þegar á þessu stigi málsins. Hv. 4. þm. Norðurl. v. var sýnu hógværari og æsti sig ekki upp, eins og hv. 1. þm. Vestf. gerði hér nú rétt áðan. Kjarninn í ræðu hans var sá, hv. 1. þm. Vestf., að það væri hér verið með stórkostlega móðgun við sveitarstjórnarmenn víðs vegar úti um land og eiginlega hneyksli, hvernig farið væri að og hvaða ákvæði væru sett hér fram í frv. formi.

Við skulum athuga, hverjir það eru, sem óska eftir þessu frv. Hverjir eru það, sem hafa unnið að því og samið það? Frv. er fyrst og fremst komið fram vegna þess, að það er Samband ísl. sveitarstjórna, sem óskaði eftir því, að það væri samið. En þetta er ekki komið frá ríkisstj. sem valdboð eða neitt þess háttar. Það er sveitarstjórnasambandið, sem fyrst og fremst fer af stað með það. Kosnir eru menn til þess að semja frv., og það eru fengnir þrír menn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga til þess að semja það, fjórir hér frá Alþ., einn frá Dómarafélagi Íslands og einn án tilnefningar. Það er alveg öruggt, að þessir menn, sem þarna eiga hlut að máli, hafa ekki ætlað sér að stofna til neins hneykslis eða að móðga sveitarfélögin úti um land, því að hverjir eru í Sambandi ísl. sveitarfélaga? Það eru öll sveitarfélögin á Íslandi eða a. m. k. flest, sem eiga hlut að þessari stofnun og því samstarfi, sem þar er framkvæmt. Ég held þess vegna, að það sé alveg furðuleg ásökun frá þessum hv. þm., 1. þm. Vestf., að sveitarstjórnarmennirnir, sem starfa í sveitarstjórnasambandinu, séu með þessu að móðga sjálfa sig og stofna til hneykslis meðal meðlima sinna. Mér finnst það hlálegt, að nokkur maður skuli geta látið sér detta þetta í hug. Sennilega gæti það enginn hér í þessari hv. d. nema hv. 1. þm. Vestf.

Að öðru leyti vil ég aðeins segja það, að hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. kom í sjálfu sér ekki fram aths. við höfuðstefnu eða meginatriði frv. Hann hafði að vísu aths. að gera við einstaka liði, eins og t. d. um þennan margrædda erindreka og um 12. gr. og 13. gr., en það eru allt saman atriði, sem að sjálfsögðu má ræða í n., sem hefur málið til umsagnar. Hér er ekki um neitt valdboð eða neina úrslitakosti, neitt „últimatum“ að ræða um það, sem á að gerast, hér eru eingöngu gerðar tilraunir til þess að verða við óskum Sambands ísl. sveitarfélaga. Og ef Samband ísl. sveitarfélaga eða sveitarfélögin yfirleitt vilja hafa þetta óbreytt, þá er a. m. k. hjá félmrn. engin sérstök ósk um það að fara þvert ofan í vilja þeirra, síður en svo. Ef þau hins vegar vilja hafa þetta eins og frv. gerir ráð fyrir, þá sé ég enga ástæðu til annars en reyna að hjálpa þeim til þess að koma því í framkvæmd.

Þessi margnefndi erindreki, sem hér er um að ræða og á að vera einhver stórskaðlegur maður og settur til höfuðs sveitarfélögunum, á að hjálpa til. Þessi maður er eingöngu settur af því, að hér er um að ræða á þriðja hundrað sveitarfélög í landinu, sem þarf meira og minna að tala við. Það er fullt verkefni fyrir einn mann að fara í það, ef á að gera þetta af nokkurri alvöru. Ég er handviss um það, að hver sem til þess verður fenginn hefur nóg að gera næstu missirin, ef einhver árangur á að nást í þessu og einhver skynsamleg meðferð málsins. Ég held, að það sé mjög fjarri sanni að ætla það, að þessi maður geti orðið til tjóns fyrir sveitarfélögin í landinu, og ég hef enga trú á því, að hann muni eiga hlut að því að beita, ég vil segja, ofbeldi eða valdboði við sveitarfélögin, eins og kom fram hjá hv. þm. Það er alveg áreiðanlegt, að það er ekki meiningin að gera þetta með neinu valdboði.

Ég sagði það hér í fyrstu ræðu minni, að hér væri ætlazt til þess, að það væri leitað til sveitarstjórnanna sjálfra og til meðlima sveitarfélaganna líka um það, hvernig með skuli fara, og höfð um það atkvgr., hvernig með skuli fara, og ef sveitarfélögin sjálf vilja hafa þetta á einn veg eða annan, þá verði því fylgt. Það á ekki að vera neitt valdboð frá einum né neinum, eða frá hverjum ætti valdboðið að vera komið? Frá hverjum ætti það að vera komið? Frá sveitarstjórnasambandinu kannske? Ekki er það frá félmrn., því að við höfum ekkert gert annað en taka við frv., eins og það kom til rn., og bera það fram. Það er ekkert valdboð frá okkur, það er eitt sem víst er.

En ég er hins vegar sannfærður um það, að ef þessu frv. verður framfylgt, eins og andi þess er, þá muni vel fara. Það getur vel verið, að það þurfi að laga eina, tvær, þrjár eða kannske fjórar gr. Það er ekki aðalatriðið í málinu. Hitt er aðalatriðið, hvort menn aðhyllast hugmyndina um það að sameina þessi fámennu sveitarfélög í stærri heildir eða ekki. Það er meginmálið. Vilja menn það, eða vilja þeir ekki það? Útúrdúrar um einstök atriði, eins og hv. þm. var hér að rekja áðan, meira og minna kannske ekki alveg rétt — (SE: Hvað er rangt í því?) Það er tónninn í ræðu hv. þm. (Gripið fram í.) Við skulum tala um það seinna. Hv. þm. getur talað hér á eftir mér, ef hann vill.

En ég fullyrði, að það er ekki ætlazt til þess, að það verði hér farið með neinu valdi eða valdboði að sveitarfélögunum, heldur fái þau að ráða þessu máli. Ef þau vilja ekki sameinast öðru sveitarfélagi, þá þau um það.

Þessi erindreki er ekki settur þeim til höfuðs. Hann er settur til þess að leiðbeina þeim og hjálpa þeim, ef þau vilja vinna að sameiningu, og einskis annars. Og hverjir ættu að hafa áhuga á slíku? Ætli það ætti að vera Samband ísl. sveitarfélaga kannske, að þessi maður verði settur þeim til höfuðs, eða hver? Eða hver? Hvaðan er frv. komið? Hver hefur samið það? Og hver er meiningin með því? Þetta finnst mér, að hv. 1. þm. Vestf. ætti að athuga.