10.03.1970
Neðri deild: 57. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Óvenjumiklar umr. hafa orðið við 1. umr. máls um þetta frv. Ég var ekki ráðinn í, þegar þetta mál lá hér fyrir fyrst, að taka til máls við þessa umr., en ég hef orðið dálítið undrandi á mörgum ræðum, sem hér hafa verið fluttar, einkum ræðum strjálbýlisþm. Þar hafa komið fram andmæli gegn þessu frv., fyrst og fremst þeirri stefnu, þeim hugmyndum, sem á bak við liggja.

Ég veit, að ég þarf ekki að kynna það fyrir hv. þdm., að ég er eindreginn strjálbýlismaður, og ég er meira að segja; inni á mér, þeirrar skoðunar, að e. t. v. sé enginn meiri hér inni í þessari hv. þd., en ég er einmitt þess vegna mjög eindregið fylgjandi þeirri meginstefnu, sem liggur á bak við þetta frv., einmitt þess vegna.

Það er að vísu ekki því að leyna, að þeirri hreppaskipan, sem hér hefur verið, svo langt aftur sem við vitum, þessum litlu hreppsfélögum hafa fylgt kostir, og ég vildi sérstaklega nefna það, að það má segja, að í þessu hafi verið fólginn eins konar félagsmálaskóli í landinu og kannske sá eini, sem virkilega hefur náð til þess, að æðimargir hafi tekið þátt í honum. En aðstæðurnar eru að breytast, og til þess að lengja þetta mál ekki mjög mikið, þá vil ég sérstaklega vekja athygli á því, sem hefur verið að gerast hin síðustu ár í sveitarstjórnarmálefnum. Það er myndun sambanda sveitarfélaganna. Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé ljósasta sönnunin fyrir því, að það, sem sveitarstjórnarmenn sjálfir hafa fundið í sínu starfi, er einmitt þetta, að það þarf að mynda miklu sterkari heildir en hingað til hefur verið um að ræða með þeirri hreppaskipan, sem verið hefur.

Ég er alveg sammála þeim, sem hér hafa lagt mikið upp úr þeirri hlið málsins, að þetta þurfi að gerast sem mest á sem frjálslegastan hátt, þannig að það liggi fyrir vilji íbúa hreppanna fyrir þessari sameiningu. Mér er alveg ljóst, ég er það lýðræðislega sinnaður, að ég tel, að þetta sé eitt höfuðatriðið. En ég hef nú þá trú á okkur alþm., þó að margir hafi kannske litla trú á okkur, að það geti haft eitthvað að segja, hvaða skoðanir við höfum á slíkum málum eins og þessu. Ekki bara þessu frv., heldur fyrst og fremst á sameiningu sveitarfélaganna. Þess vegna hafa mér orðið það nokkur vonbrigði að hlusta á ræður margra, sem hér hafa verið fluttar, vegna þess anda, sem í þeim hefur komið fram. Mér hefur fundizt hann vera yfirleitt á þá lund að reyna að vekja tortryggni hjá fólkinu og fyrst og fremst í strjálbýlinu gagnvart þeirri hugmynd að sameina og stækka sveitarfélögin. Þetta álít ég slæmt, og ég vildi a. m. k. beita orku minni til þess að reyna að hafa áhrif á skoðanir manna einmitt til hins gagnstæða, þ. e. að vekja skilning á mikilvægi þess, að sveitarfélögin séu efld, eins og sagt er í 1. gr. þessa frv., með því að stækka þau og með því að sameina þau. Þetta er að vísu mál, sem er sjálfsagt ósköp auðvelt að koma með rök með og á móti.

Út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 2. þm. Sunnl., þá verð ég nú að segja, að margt af þeim rökum, sem hana flutti og hann taldi gegn sameiningunni, vil ég þvert á móti taka sem rök, sem mæltu með sameiningunni. Það liggur strax ljóst fyrir, og margir hafa komið inn á það, að t. d. aðstaðan til samgangna er orðin svo gerbreytt frá því sem áður var, og það er enginn vafi á því, að samgönguaðstaðan hefur á sínum tíma haft mikið að segja til þeirrar skipunar, sem verið hefur á þessum málum. Það var gert ráð fyrir því, að íbúar eins hrepps gætu sótt fundi við og við, þó að það væri ekki oft, en það var þó reiknað með því, að meðan menn urðu að fara annaðhvort gangandi eða þá á hestum, voru vitanlega takmörk fyrir því, hversu víðáttumikil þessi sveitarfélög máttu vera.

Það er bezt, að ég geri grein fyrir því, að ég hef verið í hreppsnefndum á Norðurlandi og Austurlandi. Ég var í hreppsnefnd í Hrafnagilshreppi, meðan ég var þar, og ég var í hreppsnefnd í Fljótsdalshreppi, einnig fyrir austan, og ég man það, að um það bil sem ég tók sæti hér á Alþ., var ég engan veginn sannfærður um gildi þess að sameina og stækka hreppa. En kynni mín af þessum málum gegnum þingmennskuna hafa breytt þessari afstöðu minni, og þess vegna er ég nú eindregið þeirrar skoðunar, sem ég hef verið hér að lýsa. Ég get nefnt sem dæmi, að við könnumst talsvert við það, þm., að það er leitað til okkar um ýmisleg málefni og ekki sízt af hálfu sveitarfélaga, og einmitt þau kynni hafa orðið til þess að skapa þessa skoðun hjá mér m. a., sem ég hef hér verið að lýsa.

Ég er almennt þeirrar skoðunar, að við þurfum að auka vald sveitarfélaganna. Ég hef látið það í ljós, að ég ber talsverðan ugg í brjósti einmitt vegna strjálbýlisins, einmitt vegna þess mikla valds, sem er að dragast saman hér í höfuðborginni, og það er að vísu framvinda mála, sem ekki verður komizt hjá af ríkisins hálfu yfirleitt, en ég held, að mótvægið í þessu, sem þarf að skapast, sé einmitt aukið valdssvið sveitarfélaga, og þá verða að haldast þar í hendur réttindi og skyldur.

Það mætti flytja um þetta langt mál, en ég hef ekki fylgzt svo ítarlega með þeim umr., sem hér hafa farið fram, og ég ætla þess vegna ekki að fara að svara eða taka sérstaklega til umr. einstakar skoðanir, sem fram hafa komið, en ég vildi ekki, sérstaklega eftir þær umr., sem hér hafa farið fram, að þetta frv. færi svo til 2. umr., að ég léti ekki þessa rödd koma hér fram.

Ég skal játa það, að t. d. það atriði frv., sem gerir ráð fyrir sérstökum fulltrúa til að vinna að þessum málum, er mér svolítill fleinn í holdi. Annars hef ég ekki kynnt mér þetta frv. ítarlega. Það er málið, stefnan, sem á bak við liggur, sem ég hef fyrst og fremst verið að gera grein fyrir og fyrst og fremst verið að kynna hér afstöðu mína til, en ég vona, að hv. þm. yfirleitt láti það verða meginsjónarmið, sem ræður afstöðunni til þessa máls.