10.03.1970
Neðri deild: 57. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Ásberg Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál langar mig aðeins til þess að taka til máls, vegna þess að þessar umr. hafa verið svo miklar og margþættar og fram hefur komið ýmislegt, sem maður átti varla von á, að hér kæmi fram.

Þetta frv. er undirbúið af níu manna n., sem ráðh. skipaði samkvæmt tilmælum fulltrúafundar Sambands ísl. sveitarfélaga árið 1966, og það hefur sem sagt verið í undirbúningi síðan. Þrír nm. voru fulltrúar tilnefndir af Sambandi ísl. sveitarfélaga, og þessi n. varð sammála um efni þessa frv., sem hér liggur fyrir. En í 1. gr. frv. segir:

„Félmrn. skal í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga stuðla að eflingu sveitarfélaganna með því að koma á sameiningu tveggja eða fleiri sveitarfélaga í eitt sveitarfélag samkvæmt því, sem fyrir er mælt í lögum þessum.“

Þessi tilgangur er að sjálfsögðu ágætur og orkar ekki tvímælis. En menn hafa mikið rætt 2. og 13. gr. um erindreka í þessu sambandi til að vinna þessi verkefni og sérstaklega 13. gr., þar sem ráðh. er heimilt að sameina hrepp nágrannasveitarfélagi samkv. till. erindreka, án þess að fyrir liggi samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórna og sýslunefndar, ef íbúatala hreppsins hefur s. l. þrjú ár verið lægri en 50. Það eru þessi tvö atriði, sem aðallega hafa farið í taugarnar á hv. ræðumönnum, og gætir nokkurs misskilnings um sumt í þeim umr.

Í sambandi við 13. gr. kann það að vera dálítið harðneskjulegt að geta lagt niður hrepp, án þess að sveitarstjórnin samþykki. En ef betur er að gáð, getur þessi heimild verið algerlega nauðsynleg vegna íbúa í þessum örsmáu sveitarfélögum. Með öðrum kosti eiga þau e. t. v. ekki möguleika á neinni sameiningu, þó að þau fegin vildu. Í þessum sveitarfélögum eru íbúarnir víða að verða aldrað fólk, sem áður en varir kann að þurfa á langvarandi dvöl á sjúkrahúsum og elliheimilum að halda, án þess að tryggingalöggjöfin beri kostnaðinn af dvöl þess þar. Það er ekkert fýsilegt fyrir meðalstóran nágrannahrepp að sameinast slíku sveitarfélagi. Miklar líkur eru á, að slíkri sameiningu yrði hafnað af stærra sveitarfélagi. Við sjáum þetta m. a. í kosningunum fyrir vestan. Hnífsdælingar í Eyrarhreppi, sem á að leggja niður, greiða atkv. með sameiningu nálega allir, en það er ákaflega mjótt á mununum á Ísafirði. Ísfirðingar óttuðust, að það kæmi einhver fjárhagsleg byrði í sambandi við þessa sameiningu. Hvað snertir þessi litlu sveitarfélög verður að telja, að það fylgi þeim sá fjárhagsbaggi, að enginn vilji við þeim taka, nema ráðh. vinni það góðverk að ráðstafa þeim, jafnvel gegn vilja sveitarstjórnarinnar í stærra umdæminu og án samþykkis sýslunefndar. Ég er hins vegar á því, að sýslunefnd eigi að fjalla um þetta, enda lýsti hæstv. félmrh. yfir því, þegar hann fylgdi frv. úr hlaði, að hér væri ekki um neina þvingun að ræða og þetta yrði ekki framkvæmt þannig nema í ýtrustu neyð. Og ég treysti því algerlega.

Ég held, að flestir hafi verið sammála um, að það eru of margir hreppar, sem eru allt of fámennir, og viðurkenna, að þeir valda ekki þeim verkefnum, sem þeir þurfa að fást við. Þannig eru 41 hreppur með færri íbúa en 100, 70 hreppar hafa íbúatölu á milli 100–200 íbúa, eða 111 hreppar með færri en 200 íbúa. Það er ábyggilega æskilegt, að enginn hreppur væri minni eining en sem svaraði 200 íbúum. Nú eru hreppar alls í landinu 213, og því er meira en helmingur þeirra með undir 200 íbúum.

Hrepparnir voru stofnaðir í fornöld, og hrepparnir eru merkileg atriði í íslenzkum rétti. Frá upphafi var þeim fengið það meginverkefni að vera framfærsluaðili íbúa hreppsins, að annast ómaga, að koma í veg fyrir það, að heimili færi í rúst, með tryggingastarfsemi, t. d. á búpeningi og með brunatryggingu. Verkefni hreppanna frá upphafi hafa verið tryggingastarfsemi og framfærsla. En þessir hreppar voru nokkuð stórir. Það er talið, að það hafi verið lágmark, að 15 býli væru í hverjum hreppi að fornu. Íbúatalan hafi þess vegna verið á milli 200 og 300 manns, eða svona 15–20 menn á hverju heimili. Þannig er orðið ástatt nú, að 111 hreppar í landinu eru minni einingar en þær voru fyrir 1000 árum, en þó eru náttúrlega atvik mjög breytt, og allt önnur verkefni eiga að hvíla á herðum þessara sveitarfélaga.

Það er viðurkennt, að stórbættar samgöngur og samgöngutæki gera það eðlilegt, að sveitarfélögin verði stærri. Það er almennt krafa tímans, að félagslegar og fjárhagslegar einingar verði stærri af hagkvæmnisástæðum. Þetta á að sjálfsögðu einnig við um sveitarfélögin. Verzlunarumdæmi, t. d. kaupfélaga og verzlana, hafa mjög stækkað á síðari árum. Hins vegar hafa atvinnuréttindi manna víða verið takmörkuð við sveitarfélög, og hefur lítil breyting orðið á því. Það er þó augljóst hagræði fyrir íbúa hreppa og sveitarfélaga að hafa atvinnuréttindi, t. d. í nærliggjandi kauptúni eða kaupstað. Slík réttindi mundu þeir vafalaust fá, ef um sameiningu slíkra sveitarfélaga væri að ræða og þau stækkuðu.

Því hefur verið haldið fram, að hin mörgu sveitarfélög veittu mörgum mönnum félagslega þjálfun, og að margir sveitarstjórnarmenn lítilla hreppa hafi verið sveit sinni og sjálfum sér til hins mesta sóma á sviði sveitarstjórnar og félagsmála. Undir þetta skal ég taka heils hugar, en ég tel þó, að hæfileikar þessara manna hefðu nýtzt mun betur, ef þeir hefðu haft stærri og meiri verkefni við að fást í stærri sveitarfélögum.

Eins og ég sagði áðan, er það sérstaklega 13. gr. um heimild ráðh. til að sameina hreppa án samþykkis, sem hefur verið mönnum þyrnir í augum og valdið þeim miklu umr., sem hér hafa orðið. En það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því, hvað sveitarfélag getur verið fámennt. Í hlutafélagi verða að vera a. m. k. 5 hluthafar. Verði þeir af einhverjum ástæðum færri, er hlutafélagið ógilt og hluthafarnir bera persónulega ábyrgð á öllum skuldbindingum hlutafélagsins. Í hverju sveitarfélagi skal vera stjórn, hreppsnefndin, minnst skipuð þremur mönnum og þremur til vara og helzt endurskoðandi. Það þarf að vera þriggja manna kjörstjórn við hverjar sveitarstjórnarkosningar, ef lýðræði á að halda uppi. Í Loðmundarfirði eru taldir tveir íbúar. Ljóst er, að þar verður ekki skipuð kjörstjórn eða hreppsnefnd, og slíkur hreppur hlýtur að vera orðinn algerlega ólöglegur að íslenzkum sveitarstjórnarlögum. Því þurfa að vera a. m. k. 6–7 menn með kosningarrétt og kjörgengi, til þess að sveitarfélag fái staðizt. En þessi litlu sveitarfélög valda litlum verkefnum. Þau vantar alla félagslega og menningarlega aðstöðu og geta sjálf ekki veitt sér hana, t. d. skóla, félagsheimili o. s. frv. o. s. frv. Þau geta ekkert aðhafzt í atvinnumálum. Þau geta ekki varið sig gegn því, að jarðir sveitarfélagsins hverfi smátt og smátt í eigu utansveitarmanna, t. d. vegna veiðiaðstöðu eða sumarbústaðalanda. Vegna fjárskorts geta þau ekki beitt forkaupsrétti sínum til að koma í veg fyrir, að hreppurinn sé smátt og smátt keyptur upp af óviðkomandi mönnum. Að vera í hreppsnefnd í slíku sveitarfélagi, oddviti eða hreppstjóri, getur vart verið mikið kappsmál eða eftirsóknarvert. Flest mál, sem um er fjallað, snerta hreppsnefndarmennina sjálfa. Þeir leggja á útsvör í hreppnum og þá m. a. á sjálfa sig aðallega. Þeir mæla með lánum eða styrkjum úr bjargráðasjóði og skipta þeim meðal bænda hreppsins, sem eru aðallega þeir sjálfir. Ég er ekki að gefa í skyn, að þetta hafi verið misnotað, en þetta er óviðkunnanlegt, og ég veit, að mörgum sveitarstjórnarmönnum í þessum litlu hreppum fellur þetta illa og veigra sér jafnvel við að óska eftir fyrirgreiðslu og aðstoð, sem þeir eiga lagalegan rétt á, vegna þess að þeir eru sjálfir í hreppsnefndinni.

Þessir litlu hreppar hafa hingað til yfirleitt staðið sig vel og stjórn þeirra oft verið til fyrirmyndar, en það er að mínu áliti ábyrgðarhluti fyrir íbúana sjálfa að ríghalda í þetta sjálfstæði, þegar grundvöllur hreppsfélagsins er búinn að vera vegna mannfæðar. Ég er sannfærður um, að það er vaxandi skilningur á nauðsyn þess og hagkvæmni, að sveitarfélögin verði sameinuð og þau stækkuð. Ég er viss um, að áður en varir, verða það sveitarstjórnarmennirnir sjálfir, sem nú eru nokkuð á báðum áttum, sem munu beita sér hvað mest fyrir sameiningu og stækkun sveitarfélaga. Þetta er mikið hagsmunamál sveitarfélaganna, sem ástæða er til, að ríkisvaldið og Alþ. láti sig varða, svo sem gert er með frv. þessu.

Ég tel eðlilegt, að erindreki, kostaður af ríkissjóði, vinni að því að auka skilning sveitarstjórnarmanna á nauðsyn þessa máls. Að því hefur verið unnið á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga á undanförnum árum, og það verður að teljast ósk sambandsins, að því starfi verði haldið áfram.

Ég veit, að þetta er viðkvæmt mál, og ég tel ástæðu til að fara með fullri gát að öllu og hafa sem bezt og mest samstarf við sveitarfélögin og sýslunefndirnar um allt í þessu sambandi, svo sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv., einnig um sameiningu sveitarfélaga án samþykkis þeirra samkv. 13. gr. og sú heimild ekki notuð, nema a. m. k. samþykki sýslunefndar viðkomandi sýslu liggi

Herra forseti. Hreppsfélögin eru ein elzta félagsstofnun á Íslandi, sem hafði strax í upphafi því meginhlutverki að gegna að annast framfærslu hreppsbúa. Það er eðlilegt, að menn séu tregir til að breyta hreppaskipuninni. En þegar byggðin hefur raskazt svo í landinu, að margir hreppar eru orðnir svo fámennir, að efast má um, að þeir séu færir öllu lengur um að rækja þetta frumhlutverk sitt, er eðlilegt, að unnið sé að því að stækka og efla þessi sveitarfélög til að rækja þessa frumskyldu sína auk annarra aðkallandi verkefna, sem hverju sveitarfélagi er nauðsynlegt að sinna.