27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég var einn þeirra, sem andmæltu ýmsum ákvæðum í þessu frv., þegar það var til 1. umr., og þó alveg sérstaklega öllum þeim tilburðum um nýja embættismanninn, erindrekann, sem í því fólust.

Nú hefur málið tekið heldur en ekki stakkaskiptum, og ég man ekki eftir, að nokkurt frv. hafi farið svo í gegnum hendur einnar n., að það hafi tekið þeirri myndbreytingu, sem hér hefur orðið. Í fáum orðum sagt er nánast ekkert eftir af frv., sem getur kallazt efni. Svo rækilega hefur hv. heilbr.- og félmn. endurbætt þetta frv., að ég greiði því atkv. með glöðu geði. Það er ekki vegna þess að ég telji frv., eins og það er nú orðið eftir till. n., svo mikils virði, að það þurfi að vera að samþykkja það. Ég þvert á móti lít svo á, að það skipti ekki nokkru máli, hvort það er samþ. eða ekki. En það er sá kostur við að samþykkja það að mínum dómi, að það verður kannske ekki fundið upp á að flytja slíkt frv. aftur á næstu þingum, ef þetta yrði samþ. til málamynda, og ég er algerlega samþykkur því.

Það, sem mér finnst einna ánægjulegast fyrir utan embættismanninn, sem nú er ekki lengur í frv., er, að breytt hefur verið 13. gr. Eins og hv. þm. muna, átti að veita ríkisstj. vald til þess að sameina sveitarfélög þrátt fyrir andmæli viðkomandi hreppa, ef þeir voru fámennari en svo, að þeir hefðu 50 íbúa. Nú er þessu breytt þannig, að ráðh. er ekki heimilt að sameina hreppa, nema sýslunefnd eða bæjarstjórn hafi samþ. það, og þó því aðeins, að þar séu færri en 30 manns, og er mér tjáð, að það muni þá vera tveir hreppar á landinu, sem geta fallið undir þetta, eins og sakir standa. Þetta er vel unnið, kalla ég.

Ég vil flytja hv. heilbr.- og félmn. þakkir fyrir það, hversu vel hún hefur unnið þarna að málinu.