27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

7. mál, sameining sveitarfélaga

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég var nú einn þeirra þdm., sem hér við 1. umr. andmæltu ákveðnum atriðum í þessu frv. með svipuðum hætti og hv. 1. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Norðurl. e. Þær brtt., sem hér hafa verið lagðar fram af hv. heilbr.- og félmn. og eru fluttar af n. í heild, fela það í sér, að mér sýnist, að þær aths., sem ég lét hér falla við 1. umr., hafi flestar eða a. m. k. í meginatriðum verið þar teknar til greina. Ég sé því ekki, herra forseti, neina ástæðu til þess að leggjast gegn þessu frv. að því áskildu, að þessar brtt. nái fram að ganga, og ég vil taka undir það þakklæti, sem hér hefur komið fram til hv. n. um það að hafa tekið þessar ábendingar okkar dm. til greina.

Um það, sem frsm. n. sagði hér síðast, að eftir væri stefnuyfirlýsing um það, að áfram skyldi unnið að þessum málum, þá er það að vissu leyti rétt. Í þessu frv. eru áfram ákvæði, er fremur miða að því að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga, en þó með þeim hætti, að það verður ekki gert án þess, að frumkvæði að þeirri sameiningu komi heiman að. Um hin smæstu sveitarfélög voru í frv., eins og það var upphaflega, ákvæði, sem heimiluðu félmrh. að sameina þau eftir ábendingu erindreka án viljayfirlýsingar heimaaðila. Nú er þeirri grein breytt, og þar álít ég, að sé algerlega um grundvallaratriði að ræða, að það skuli ekki gert, nema fyrir liggi jákvæð yfirlýsing viðkomandi sýslunefndar eða, eins og það er orðað í tillgr., „sýslunefndar og/eða bæjarstjórnar.“

Ég endurtek það svo aðeins, að að því áskildu, að þessar brtt. verði samþ., mun ég ekki bregða fæti fyrir þetta frv.