11.11.1969
Efri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir orð hæstv. fjmrh. Það er eflaust rétt, að í ýmsu hefur á undanförnum árum verið áfátt undirbúningi og skipulagi framkvæmda hins opinbera. Er að mínum dómi full ástæða til þess að gefa þessu málefni gaum og reyna að bæta þar úr á ýmsan hátt, og ég er alveg sammála því, að nauðsynlegt sé að líta á þessi efni nokkuð hliðstætt og gera áætlanir fyrir fram, þannig að það hendi ekki, sem margoft hefur komið fyrir, að samtímis hafa verið í gangi of mörg verk, þannig að það hefur ekki verið hægt að ráða við þau fyllilega í neinu, og afleiðingin hefur orðið óeðlileg töf, kannske á þeim öllum, og stundum aukakostnaður. Því get ég út af fyrir sig alveg tekið undir það, að æskilegt sé að reyna að setja almennar reglur um þessi efni. Eins og hæstv. fjmrh. gat um, hefur þetta frv. verið nokkuð lengi á leiðinni og farið í gegnum æðimarga hreinsunarelda, þannig að maður skyldi nú ætla, að það hafi verið orðið nokkuð vandlega athugað og ekki þyrfti þar neitt um að bæta. Samt er það svo, að ég er ekki fjarri því, að það hefði enn þá gott af nokkru nánari athugun, og ég vil aðeins benda á örfá atriði, sem eru ekki alveg ljós fyrir mér eða mér sýnist að mætti breyta til bóta.

Í fyrsta lagi er þess að geta, að samkvæmt 1. gr. er hér einungis um að ræða, skilst mér, framkvæmdir, sem gert er ráð fyrir að ríkið taki beinlínis þátt í með fjárveitingum. Það er ekki skylda að fella framkvæmdir annarra aðila undir þetta. Hins vegar er ríkisstj. veitt heimild til þess að ákveða það, að lögin taki til framkvæmda á vegum ríkisstofnana, sem hafa sjálfstæðan fjárhag. Ég vil strax láta þá skoðun mína í ljós, að ég tel alveg sjálfsagt, að þær ríkisstofnanir, sem að vísu hafa að nafninu til e. t. v. sérskilinn fjárhag frá ríkissjóði og fara kannske ekki í gegnum fjárl., lúti þessum lögum á sama hátt og framkvæmdir, sem beint eru unnar á vegum ríkisins.

Hér koma ýmsar ríkisstofnanir til greina, en sjálfsagt koma mörgum fyrst í hug stofnanir eins og ríkisbankarnir. Framkvæmdir þeirra hefur m. a borið á góma á þessu hv. þingi, og hefur verið lögð fram skýrsla um fjárfestingar þeirra. Án þess að ég vilji sérstaklega fara að gagnrýna það hér, þá virtist mörgum, að þar væri nokkuð vel að verið um ýmsar framkvæmdir af hálfu bankanna sjálfra á sama tíma, sem vitað var, að ráðstöfunarfé þeirra til annarra hluta virtist vera æði takmarkað. Ég tel þess vegna út af fyrir sig sjálfsagt, að þessar þýðingarmiklu ríkisstofnanir, þótt sjálfstæðan fjárhag hafi, verði felldar undir þær kvaðir, sem þessi lög gera ráð fyrir, þ. e. að gera fyrir fram heildaráætlanir, að vera háðar vissu eftirliti í framkvæmd og gera svo grein fyrir því, hvernig framkvæmdin hefur tekizt til, að lokum.Ég get ekki annað séð en þetta sé fyllilega réttmætt og eðlilegt, eða kannske með öðrum orðum sagt, þá get ég ekki séð nein rök fyrir því að skilja þessar stofnanir undan þessu kerfi.

Þá vil ég í öðru lagi eiginlega nánast spyrja eða fá nánari upplýsingar. Ég hef kannske ekki skilið hæstv. ráðh. rétt, en mér virtist hann láta orð liggja að því, að það væri ekki meiningin með þessum lögum að hagga á neinn hátt við t. d. framkvæmd vegamála og vitamála, og kannske einhverra annarra, sem hann nefndi. Auðvitað eru margir aðilar þar hliðstæðir, póstur og sími, virkjanir o.fl., o.fl. Ég fæ ekki séð við lauslega athugun á frv., að þetta sé á neinn hátt undanskilið í því. En það má vera, að ég hafi ekki kynnt mér þetta nægilega vel. Ég fæ heldur ekki í fljótu bragði séð ástæðuna til þess að skilja þessar framkvæmdir undan, og ég held satt að segja, að það geti verið vafamál, að lögin nái tilgangi sínum, nema þau taki til jafnþýðingarmikilla opinberra framkvæmda og hér er um að tefla. En sé það meiningin, að þau taki ekki til þeirra, þá sýnist mér, að það þurfi að koma skýrt fram í lögunum, en ég hef ekki getað séð það. Þá held ég, að það þyrfti líka að koma nokkuð greinilega fram, hvernig skilin á milli þessara opinberu framkvæmda og annarra framkvæmda á vegum ríkisins eru dregin, en ég hef ekki getað komið auga á, að það sé gert.

Þá vil ég út af fyrir sig lýsa ánægju minni með 13. gr. frv., en þar er gert ráð fyrir.því, að verk skuli að jafnaði unnið samkvæmt tilboði á grundvelli útboðs. Þetta finnst mér alveg laukrétt stefna, og ég fyrir mitt leyti gæti verið hlynntur því, að þarna sé kveðið sterkar að orði. Ég skil það samt, að það er ekki hægt að gera þetta algerlega fortakslaust og skilyrðislaust. En ég álít, að það eigi að vera meginregla, sem sæti ekki undantekningum, nema þegar mjög sérstaklega stendur á, að verk séu boðin út og þau unnin samkvæmt tilboðum. Þetta álít ég að eigi a. m. k. að eiga við, þegar um allar meiri háttar framkvæmdir er að tefla. En þetta er samt ekki svo einfalt mál sem ætla mætti, og hefur verið rætt um það hér áður á hv. Alþ., ef ég man rétt, að það væri nauðsyn á því að setja reglur og setja lög beinlínis um útboð og tilboð, vegna þess að það er engan veginn vandalaust, hvernig á þessu er haldið. Mig minnir nú satt að segja, að það hafi verið samþ. einhvern tíma þáltill. um athugun á því efni. Ég held, að það sé nauðsynlegt að athuga það atriði, hvort ekki þurfi að koma inn í þetta frv. einhver ákvæði um þessi útboð, ef það er ekki gert ráð fyrir þeim í einhverjum öðrum lögum.

Þá verð ég nú aftur á móti að lýsa vonbrigðum mínum yfir 14. gr., þar sem gert er ráð fyrir að setja á stofn nýja stofnun, framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins, og þessari deild á nú ekki að nægja minna en einn forstjóri. Forstjóri skal hann heita, sem fyrir henni er, samkv. 23. gr. Ég held, að stofnanirnar séu orðnar svo margar, að það þurfi að fara að stinga við fótum, áður en farið er að setja nýjar á stofn. Ég get að vísu alveg fallizt á það, að nauðsynlegt sé að hafa slíkt eftirlit og aðhald með þessum framkvæmdum, en spurningin, sem í mínum huga vaknar, er sú, hvort ekki sé þegar fyrir hendi einhver stofnun, sem mætti nota til þessara hluta, hvort það muni vera nauðsynlegt að setja upp nýja stofnun með forstjóra og kannske álitlegu starfsliði til þess að fjalla um þessi mál.

Ég skal að vísu játa, að eins og þetta er orðað, þá er þessari stofnun ætlað mikið hlutverk, ef það á að skiljast bókstaflega, þar sem framkvæmdadeildin á að fara með yfirstjórn verklegra framkvæmda. Ef það er svo, að þetta taki til framkvæmda á vegum ríkisins almennt, þá er náttúrlega ekki um neitt smávegis hlutverk að ræða, en náttúrlega mundi þetta breytast nokkuð, ef það er meiningin, eins og mér virtist koma fram hjá hæstv. fjmrh., að skilja undan þarna einhverjar framkvæmdir, þar sem hann sagði, að það væri ekki meiningin með þessum lögum að taka vald af neinum aðila. Þetta er ekki alveg fullskýrt fyrir mér, en skýrist væntanlega af því, sem ráðh. segir kannske um það á eftir.

En ég vil sem sagt beina því til þeirrar hv. n., sem fær mál þetta til meðferðar, að hún kanni, hvort ekki sé þegar fyrir í ríkiskerfinu einhver stofnun, sem notast mætti við til að hafa með höndum þetta starf.

Það er að vísu gert ráð fyrir því, að þessi deild taki við starfsemi, sem er kölluð starfsemi byggingadeildar menntmrn. og byggingaeftirlits húsameistara ríkisins. Það er ekki langt síðan þessi byggingadeild við menntmrn. var sett á stofn, og satt að segja er dálítið handahóf á þessu, þegar verið er að stofna slíka stofnun eitt árið, sem á að gera mikið gagn, að því er sagt er, en henni er skákað til hliðar næsta ár.

Ég held, að það séu fleiri atriði í þessu frv., sem þurfi nánari athugunar við enn þrátt fyrir þá athugun, sem þetta frv. hefur fengið. En ég skal ekki fara nánar út í það, en ég vil að lokum endurtaka það, að ég er samþykkur þeirri meginstefnu, sem kemur fram í þessu frv., að það þurfi að hafa fastari stjórn en verið hefur á opinberum framkvæmdum, og þær þurfi að framkvæma meir eftir áætlun og undir eftirliti en verið hefur. En ég tel þetta ekki nóg, og ég tel alls ekki, að fullt gagn verði af þessu, ef allar aðrar framkvæmdir eru með öllu látnar skipulagslausar. Það, sem ég held að þurfi að gera, er að setja heildarskipulag á meiri háttar framkvæmdir, til þess að það sé hægt að hafa stjórn á þessum málum. Þess efnis var frv., sem við framsóknarmenn fluttum hér á síðasta þingi um Atvinnumálastofnun ríkisins. Henni var m. a. ætlað það hlutverk að semja heildaráætlanir og hafa stjórn á fjárfestingu, þegar um meiri háttar framkvæmdir væri að tefla, og ég held, að það þurfi að taka málið þeim tökum, að þetta skipulag sé látið ná ekki aðeins til opinberra framkvæmda, heldur einnig til framkvæmda á vegum einkaaðila. Þessu frv. okkar var vísað til hæstv. ríkisstj., og ég vildi nú nota þetta tækifæri, þegar þetta frv. er hér til umr., sem að vissu leyti gengur í sömu átt, þó að það sé aðeins á takmörkuðu sviði, og spyrja hæstv. fjmrh., hvað athugun ríkisstj. á þessu frv. líði.