11.11.1969
Efri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér sýnist við skjótan yfirlestur, að þá hafi þetta frv. tekið breyt. til bóta frá því, að það var hér lagt síðast fyrir þessa hv. d., og það er auðséð, að ýmsar skynsamlegar ábendingar hafa verið teknar til greina, og er ekkert nema gott um það að segja. Það eru aðeins örfá atriði hér, sem ég vildi leyfa mér að gera að umtalsefni við þessa 1. umr.

Það er í fyrsta lagi 22. gr. frv., þar sem rætt er um samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og sagt, að í n. skuli eiga sæti þrír menn, formaður fjvn. Alþ. eða sérstaklega tilnefndur fulltrúi n., í öðru lagi forstjóri framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins og í þriðja lagi hagsýslustjóri ríkisins, sem skal vera formaður n. Ég tel þessari skipan áfátt að því leyti til, að þarna er ekki tryggt, að neinn verkfræðilega menntaður maður eigi sæti í n. Ég tel út af fyrir sig eðlilegt, að allir þessir aðilar eigi þarna fulltrúa. Ég er ekki út á það að setja sérstaklega, en ég teldi að það þyrfti að athuga það, hvort ekki væri nauðsynlegt, að í svo voldugri n., sem á að fjalla um verklegar framkvæmdir, væri tryggt, að verkfræðilega menntaður maður ætti þar sæti.

Þá er í öðru lagi 13. gr. frv. Ég tek það fram, að ég hef ekkert sérstakt við hana að athuga. Það var aðeins út af orðum hv. 1. þm. Norðurl. v., að þá vil ég upplýsa það, að Iðnaðarmálastofnun ríkisins hefur, held ég, í 10 ár eða lengur unnið að því að semja það, sem er kallað frv. að staðli um útboð og verksamninga, og að þessu hefur unnið stór og mikil n., sem margir hafa átt aðild að. Þessi n. lauk endanlega störfum núna á þessu ári og gaf út þetta, sem hún kallar staðal, þ. e. a. s. grundvallarreglur um útboð og gerð verksamninga, og ég held, að þetta verk hafi verið mjög nauðsynlegt og tekizt mjög vel. Ég vildi mælast til þess, að hv. alþm. væri sent þetta plagg, því þeir eiga vissulega rétt á að fylgjast með þessu. Það hefur eiginlega tiltölulega lítið verið minnzt á þetta opinberlega, og þess vegna eðlilegt, að þetta fari fram hjá mönnum, en þetta plagg þyrftu alþm. að eiga og ætti Iðnaðarmálastofnun að sjá um, að þeir fengju það í hendur.

Þá er í þriðja lagi ákvæði hér um framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins. Það má segja, að reglur um hana séu bæði í 14. gr. og 23. gr. frv. Ég lít nú svo á, að í raun og veru hafi þessi framkvæmdadeild verið til, þ. e. a. s. hún hefur kannske ekki verið formlega stofnuð, en Innkaupastofnunin hefur haft þessi verkefni með höndum, þó að þau séu nokkuð aukin hér í lagafrv., en Innkaupastofnunin hefur annazt útboð verka og gerð verksamninga eða undirbúning verksamninga, og ég hygg, að þetta hafi leitt af því, að þegar verið er að bjóða út verk, þá er í raun og veru ekki eingöngu verið að auglýsa eftir verktökum og tilboðum, heldur er líka jafnframt oft á tíðum verið að bjóða út efni, vörur og efnisinnkaup, því að t. d. til einnar byggingar þurfa oft að fara fram mörg útboð. Það er ekki bara verið að bjóða út aðalverkið í því skyni að ráða einhvern aðalverktaka, heldur líka ýmiss konar undirverktaka og efnisseljendur. Þetta hefur leitt af því, að stofnunin keypti inn efnið og annaðist þau útboð. Því hefur þótt eðlilegt að fela henni einnig að bjóða út verkið sjálft, og Innkaupastofnun ríkisins hefur þegar öðlazt mikla reynslu í þessu.

Mér sýnist eftir 14. gr., að það, sem eigi að auka hér á verkefni Innkaupastofnunarinnar í sambandi við verklegar framkvæmdir, sé það, að hún eigi að annast reikningshald og greiðslur vegna verka og þá væntanlega líka eftirlit með þeim, en það hygg ég, að stofnunin

hafi yfirleitt ekki gert nema þá í undantekningartilfellum. Það hefur a. m. k. ekki verið nein almenn regla. Hér er þessu þess vegna bætt á Innkaupastofnunina eða þessa sérstöku deild, sem þar á að stofna, og ég tel ekkert sérstakt við það að athuga og það falli í raun og veru heim og saman, að sá aðili, sem sér um útboð og samningsgerð, annist einnig eftirlit með verkinu og greiðslu vegna þess. Ég tel, að það sé gott að samræma á einum stað allt það, sem maður getur kallað almennar framkvæmdir, þó að sérframkvæmdir verði að halda áfram, eins og ég held að sé heppilegt, á vegum vitamálastjóra, vegamálastjóra o. s. frv.

En það, sem mér finnst ekki liggja alveg skýrt fyrir í sambandi við verkefni framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins, er það, sem kemur fram í 23. gr., þar sem segir, að framkvæmdadeildin taki við starfsemi byggingadeildar menntmrn. og byggingaeftirlits við embætti húsameistara ríkisins. Nú skal ég að vísu játa það, að starfsemi þessarar byggingadeildar menntmrn. og byggingaeftirlits húsameistara þekki ég ekki til hlítar, en ég hef a. m. k. skilið það svo, að byggingadeild menntmrn. annaðist ekki einvörðungu um hinar verklegu framkvæmdir, þ. e. a. s. eftirlit með verkinu og greiðslur og jafnvel útboð, heldur annaðist hún einnig áætlanagerðina. Þá sýnist mér, að ef Innkaupastofnun ríkisins eða framkvæmdadeildin á alveg að taka við starfsemi byggingadeildar menntmrn., fjalli hún ekki bara um hina verklegu framkvæmd, sem rætt er um í 4. kafla frv., heldur sé einnig komið inn á svið áætlunargerðarinnar samkvæmt 3. kafla, að þarna sé ein og sama stofnunin a. m. k. í vissum tilvikum farin að fjalla bæði um áætlanagerð og verklega framkvæmd, enda skilst mér á frv., að þetta eigi gjarnan að vera aðskilið. Þetta teldi ég þörf á að athuga betur. Það kann að vera, að þetta fyrirkomulag gæti svo sem verið gott, en ég tel þó, að þetta þurfi að athuga betur, og þá leiða mig í allan sannleika, ef ég hef misskilið þetta.