11.11.1969
Efri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

78. mál, skipan opinberra framkvæmda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. vék hér að nokkrum atriðum, sem ég vil aðeins gera að umtalsefni með fáum orðum.

Hann vék að því síðast, sem ég skal þá fyrst minnast á, að honum sýndist svo, að það væri ekki fullt samræmi í því að leggja byggingadeild menntmrn. undir Innkaupastofnunina, vegna þess að hún hefði einnig með höndum áætlunargerð. Þetta er að vissu leyti rétt, og ég er hv. þm. sammála um það, að þetta þarf að athuga, og það höfum við íhugað nokkuð. Sannleikurinn er sá, að ekki er orðin mjög föst skipting á þessu innan menntmrn. Það á að bera undir rn. teikningar að byggingum. Þarna er einnig fjármálaeftirlit skólanna og svo eftirlitið með framkvæmdunum sjálfum og að unnið sé eftir þeim teikningum, sem gerðar eru. Þarna kemur sérstaklega til greina hjá þessari byggingadeild, það sem ekki hefur verið enn þá varðandi aðrar opinberar framkvæmdir, sem ég teldi að þyrfti að vinna að, og það er stöðlun bygginganna. Byggingadeildin hefur unnið að stöðlun skólamannvirkja, og hv. þm. hafa séð það plagg, sem er geysilega mikið og voldugt skjal. Ég skal að vísu ekki segja, hvað menn hafa komizt ofan í það, það er annað mál, því að það er flókið. En það var byggt á þeirri hugsun og fyrirmælum í lögum, að miðað skyldi við ákveðna staðlaða gerð skóla og greiðsluhlutdeild ríkissjóðs við það miðuð.

Ég tel, að að svo miklu leyti sem hér verður um áætlunargerð að ræða, þá verði hún með einhverju móti að vera áfram í höndum menntmrn. Það er alveg rétt, að sé það ekki nægilega skýrt, þá þarf það að kannast í n., hvernig því verður fyrir komið, því að annars bryti það í bága við grundvallarhugsun laganna. Ég álít hins vegar ekki, að það þyrfti að útiloka, að staðlanirnar og reglur um það efni væru í höndum Innkaupastofnunarinnar, því að það felur ekki í sér í rauninni áætlunargerð, heldur aðeins vissar reglur, sem settar eru, og hún á svo að sjá um, að farið sé eftir þeim.

Það hefur nýlega verið falið húsameistaraembættinu, og ég álít, að það eigi að vera á vegum þess embættis, en alls ekki t. d. Innkaupastofnunarinnar, að athuga teikningar á hagkvæmum embættisbústöðum, heldur á hún að hafa það í huga að staðla þær byggingar, sem kostur er á. Síðan yrði það metið í viðkomandi rn. og eftir atvikum byggingaeftirlitsdeildinni, hvort rétt væri að leggja þá staðla til grundvallar eða ekki.

En ég skal fúslega játa það, að þarna eru, eins og vafalaust mun koma á daginn, ýmis millimörk, sem verður að ákveða skýrar með reglugerð til þess að taka af allan vafa um það, að þessi skipting valdsins, ef svo má segja, eigi sér stað. Ég er hv. þm. þakklátur fyrir þessa ábendingu og tel nauðsynlegt, að hún verði tekin til athugunar í n.

Það er alveg rétt, sem hann sagði, að segja má, að framkvæmdadeild við Innkaupastofnunina sé ekki ný stofnun að því leyti til, að Innkaupastofnunin hefur annazt útboð, og þar af leiðandi er henni ekki ókunnugt um það verkefni, sem hér er um að ræða. En eins og hann sagði einnig réttilega, þá er verkefnið þarna aukið, vegna þess að Innkaupastofnunin hefur ekki haft eftirlit með opinberum verkum til þessa. Hún hefur annazt útboð og leitað tilboða í ýmsar vörur, byggingarefni og annað, en hún hefur ekki haft eftirlit með verkum.

Ég gleymdi líka áðan í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. að minnast á reglur um útboð og tilboð. Á sínum tíma var sett á laggirnar n. Það er alveg rétt. Það mun hafa verið samþ. þáltill. fyrir allmörgum árum um þetta. Þessi n. starfaði lengi að þessum verkefnum og svo var Iðnaðarmálastofnuninni falið að vinna að þessu verkefni, og ég hygg, að það sé rétt, að hún hafi sett fram einhverjar fastar reglur, sem hægt væri að hafa til hliðsjónar. Þær eru kannske ekki lögboðnar, en þær eru staðall um það, hvernig eigi að haga útboðum og tilboðum. Ég hef síður en svo nokkuð á móti því og skal jafnvel hlutast til um að kanna, hvort þennan staðal er ekki hægt að fá, ef hv. þm. vildu fá það plagg til athugunar.

Varðandi það, að ekki væri tryggt, að verkfræðingur væri í eftirlitsnefnd eða samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, þá er ástæðan til þess fyrst og fremst sú, eins og hv. þm. munu sjá við nánari athugun á hlutverki þeirrar n., að hún á að vera til ráðuneytis um fjármálalegar framkvæmdir, og ég er nú ekki búinn að sjá það, að það þurfi endilega að vera nauðsynlegt að hafa verkfræðing í sambandi við það atriði. Það gæti kannske verið einhver annar maður með einhverja aðra þekkingu en verkfræðingur, t. d. rekstrarhagfræðingur eða einhver slíkur, en þetta er ástæðan til þess, að ekki hafa verið sérstaklega teknir inn í þetta ákveðnir fagmenn. Hér eru fyrst og fremst teknir í þessa samstarfsnefnd þeir aðilar, sem eiga að sjá um framkvæmd laganna. Það er formaður fjvn. Alþ. sem fulltrúi þingsins og fjárveitingavaldsins og forstöðumaður þessarar framkvæmdadeildar Innkaupastofnunarinnar, og það má vel hugsa sér, að hann sé eftir atvikum forstjóri hennar. Það er mál, sem þarf að athuga, hvort þetta eiga að vera tveir hliðstæðir forstjórar eða hvort það eiga að vera forstjóri og deildarstjóri. Ég tel alveg geta komið til álita að breyta því. Svo er það að sjálfsögðu hagsýslustjóri ríkisins, sem er formaður n., og það verður vitanlega að ganga út frá því, að í því embætti sitji jafnan maður, sem hafi víðtæka þekkingu á fjárhaldsmálum, sé hagfræðingur eða hafi einhverja slíka menntun. Því held ég við nánari athugun, að ekki væri æskilegt, eins og þessi n. er hugsuð, að fara að taka inn í hana einhverja sérfræðinga til viðbótar. Hún mundi vafalaust kveðja sérfræðinga sér til ráðuneytis, eftir því sem hún teldi ástæðu til, en hér sem sagt sitja menn í krafti umboðs síns sem yfirmenn hinna veigamestu þátta í sambandi við fjármögnun og framkvæmd og eftirlit með verkum samkvæmt þessum lögum. Ég held, að það mundi orka svo mjög tvímælis, hverja ætti að setja til viðbótar þar inn, að það væri ekki til bóta að gera það, heldur yrði að reikna með því, að þessi n. yrði að kveðja til þá sérfræðinga, sem hún teldi þurfa hverju sinni.

Að öðru leyti þakka ég hv. þm. fyrir vinsamlegar undirtektir hans undir meginhugsun þessa frv.